Já, það viðraði semsagt til grillsteikingar í kvöld. Sauðargæran var hjá mér úti á svölum meðan ég var að grilla og benti að minnsta kosti þrjúhundruð sinnum á grillið og sagði ,,Ó-ó," svo að það þurfti ekki að óttast að hann færi sér að voða við það. Hann er nýbyrjaður að mynda setningar og það kom engum á óvart að ein sú allra fyrsta var ,,Má ég fá meira?", enda er þetta hið mesta átvagl.
Það fékkst ekki ferskt rósmarín í Nóatúni svo ég gat ekki notað uppskriftina sem ég gaf hér í gær en þessi er ekkert verri. Svo fengust svo fínar framhryggjarsneiðar í Nóatúni, þriggja sentimetra þykkar eða meira, eins og ég vil hafa þær, og ég ákvað að grilla kjötið að mestu við óbeinan hita og gefa því lengri tíma á grillinu - það skilaði sér líka vel og þetta var mjög meyrt og gott kjöt. Framhryggur er líka svo vel fitusprengdur að kjötið þornar miklu síður en margt annað lambakjöt, ekki síst svona þykkar og góðar sneiðar.
Kryddunin á kjötinu var að grískum hætti en matreiðslan var það ekki - Grikkir grilla náttúrlega lambakjötið sitt en þeir steikja það yfirleitt alveg í gegn. Þetta var aftur á móti ögn bleikt í miðju, safaríkt og meyrt. Það var líka með góðri skorpu (ekki brunninni þó), sem ég þurfti reyndar að skera af fyrir Eldfjallið, því að hún tilkynnti að hún vildi ekki kjöt með hýði.
Grillaðar lambaframhryggjarsneiðar
1 kg lambaframhryggur, þykkar sneiðar
1 sítróna
3 msk ólífuolía
4 hvítlauksgeirar
1/2 tsk þurrkuð minta
nýmalaður pipar
salt
Kjötinu skipt í 2-3 bita hver sneið og það e.t.v. fitusnyrt svolítið en best er að skilja sem mest af fitunni eftir (það er betra að skera hana af þegar búið er að grilla ef ástæða er til). Börkurinn rifinn af sítrónunni og safinn kreistur úr henni. Sett í eldfast fat ásamt olíu, smátt söxuðum hvítlauk, mintu, nokkuð miklum pipar og svolitlu salti. Hrært vel saman. Kjötinu velt upp úr blöndunni og látið liggja í 1 klst (við stofuhita; ef það liggur lengur þarf það að vera í ísskáp). Grillið hitað vel og svo er kjötið saltað svolítið meira og sett á það öðrum megin, slökkt á brennaranum þeim megin (ef notað er kolagrill er kolunum ýtt til hliðar og álbakki settur undir kjötið) og svo er grillinu lokað og kjötið grillað í u.þ.b. 25 mínútur (fer annars eftir þykkt bitanna, vindkælingu o.fl.). Snúið einu sinni. Svo má færa það yfir eldinn í smástund til að fá meiri lit á það ef ástæða er til. Látið bíða í nokkrar mínútur áður en það er borið fram.