Eldra barnabarnið var sérlegur hjálparkokkur minn í fyrrasumar þegar við vorum að mynda fyrir Af bestu lyst 3, gerði meira að segja suma réttina að einhverju eða öllu leyti og er að sjálfsögðu getið á kreditsíðu sem aðstoðarmanns í eldhúsi. Hún kom í gær og fékk að sjálfsögðu afhenta bók.
Svo kom mamma hennar og ég ætlaði að gefa henni bók líka. Barnið sá nú ekki beint ástæðu til þess. Það þyrfti sko ekki nema eina svona bók á þeirra heimili.
-En ég hélt að þú vildir kannski eiga eintak til að geyma, sagði ég -Ég meina, nafnið þitt er í henni og allt.
-Til hvers eiginlega? spurði barnið hneykslað. -Þetta er
bók.
Bækur eru fyrirbæri sem hún hefur lítinn áhuga á svo vægt sé til orða tekið. Svo að niðurstaðan varð sú að þær fóru bara með eina bók, stúlkan sagði að mamma sín gæti bara haft hana og notað ef hún vildi, ekki mundi hún gera það. Auk þess er hún að búa til sína eigin matreiðslubók með uppáhaldsuppskriftunum sínum og hefur enga þörf fyrir aðra þrátt fyrir áhuga á matargerð. Síst af öllu einhverja hollustubók.
Öðru máli gegnir um bróður hennar, hann var sármóðgaður af því að systirin fékk bók og hann enga, svo að það endaði með að ég lánaði honum bók sem ég keypti í bókabúð páfagarðs á dögunum og var þó hvorki kristileg né matreiðslubók. Hann var alveg sáttur við það.
Ég athugaði sérstaklega hvort ekki væri til matreiðslubók Vatíkansins en svo reyndist ekki vera svo að Vatíkanið verður víst enn um sinn eitt af þeim löndum sem ég á ekki matreiðslubók frá. - Reyndar á ég bók með uppskriftum frá matreiðslumeisturum páfa síðustu sex hundruð árin eða svo en missti alla trú á henni þegar ég sá fyrstu uppskriftina, sem átti að vera frá fjórtánhundruð og eitthvað og innihélt tómata.