Mæðginin í bókakaupum
Hérna sat ég áðan í ró og næði og langaði ekki til neins meira en að fara í heitt og langt bað. Sem er því miður ekki möguleiki þar sem baðkerið er ekki til staðar. Allt í einu rann dálítið upp fyrir mér.
Móðirin: -Æi, andskotinn.
Einkasonurinn: -Hvað?
Móðirin: -Ég var í Máli og menningu í gær og þá sá ég matreiðslubækur á 75% afslætti og mátti ekki vera að því að skoða og ætlaði að fara aftur í morgun og gleymdi því ...
Einkasonurinn: -Hvaða, hvaða, klukkan er bara sex.
Móðirin: -En kannski er einhver búinn að kaupa allar matreiðslubækurnar. Komdu, þú getur verið burðarmaður. (Tautar þegar hún er að fara í úlpuna) -Annars á ég of margar ... nei, ég sagði þetta ekki, ég á ekki of margar matreiðslubækur!
Einkasonurinn: -Ég heyrði þetta.
Móðirin: -Hugsaðu þér bara ef ég hefði nú gleymt þessu alveg.
Einkasonurinn: -Það hefði verið eins og þegar ég gleymdi DVD-útsölunni hjá Amazon. Ég þekki þessa tilfinningu.
(Mæðginin fara á útsöluna, finna sér bæði slatta af bókum hvort á sínu sviði, fara svo á Vegamót að fá sér kvöldmat.)
Einkasonurinn: -Á meðan við bíðum eftir matnum, eigum við þá að bera saman dónalegu bækurnar okkar? Ég dreg upp Profoundly Erotic, þú kemur með Naughty Cakes?
Móðirin: -Let's not.