Food & Fun ... jújú, ég hef fengið ýmislegt gott að borða og það er búið að vera bara gaman. Það vantar ekki. Við fórum í gær m.a. á Sjávarkjallarann, þar sem okkur var tekið með kostum og kynjum eins og ævinlega, og á Holtið. (Já, og á Humarhúsið og Vínbarin en hvorugur staðurinn tekur þátt í Food & Fun svo að það var annar handleggur.) Í dag var svo kokkakeppnin í Listasafninu og þar mætti ég um eittleytið til að geta eitthvað fylgst með kokkunum og heilsað upp á þá áður en allt fylltist af fólki. Aðstaðan í Listasafninu er að mörgu leyti betri fyrir áhorfendur en í Smáralindinni og húsnæðið allt mun skemmtilegra en hins vegar þótti keppendum heldur þrengra um sig og áhorfendur kannski of nálægt. Þarna var ýmislegt athyglisvert að sjá og ég fylgdist t.d. með Brian McBride saxa niður hangikjöt og svið í eins konar duxelles sem hann setti svo utan um lambafillet og vafði inn í beikon. Ég veit reyndar ekki hvaða einkunn hann fékk fyrir það hjá dómurunum.
Ég hitti líka Morten Heiberg, höfund súkkulaðibókarinnar sem ég þýddi í fyrra. Arfahress náungi sem kyssti mig og faðmaði, tilkynnti mér að ég væri ,,en af familien" og gaf mér konfekt.
Ég fékk náttúrlega ekkert að borða þarna á keppninni, maður varð að láta sér nægja reykinn af réttunum. En til allrar hamingju hafði ég haft vaðið fyrir neðan mig og farið á Bæjarins bestu á undan. Og þegar heim kom eldaði ég beikonvafðar - nei, ekki lambafillet með sviðum og hangikjöti, heldur bara kjúklingabringur fylltar með rjómaosti, vorlauk, rósmaríni og spægipylsu.
Efnafræðistúdentinn: - Notaðirðu nokkuð þennan afskaplega aldraða rjómaost sem var til í ísskápnum?
Móðirin: -Eee - já.
Efnafræðistúdentinn (gaffallinn staðnæmist hársbreidd frá kjúklingabringunni): -Þú hefðir átt að segja nei.
Móðirin: -Sko, ég meina neinei. Ég notaði hinn rjómaostinn sem ég fann í ísskápnum.
Efnafræðistúdentinn: -Hmmm ...
Það var náttúrlega í lagi með þennan rjómaost. Þót aldurinn sé óljós.
Svo bakaði ég Maltesersmúffur á eftir. Uppskriftin er þó ekki frá Heiberg.