Allt á leið til fjandans - fyrir 34 árum
Ég var að leita að dálitlu inni á timarit.is áðan og rakst þá á Vísi, 13. júní 1975. Þá var víst allt á leið til andskotans. Í dálkinum Vísir spyr eru nokkrir vegfarendur teknir tali og spurðir:
Hvert stefnir landið?
(danskur nemi) - Íslendingar hljóta að finna lausn á sínum efnahagsvanda, verðfall á afurðum er vonandi tímabundið.
(strætóbílstjóri) - Ekki veit ég hvað er framundan og ástandið virðist sífellt versna, óháð hvaða ríkisstjórn er við völd.
(húsmóðir) - Ég held bara að landið sé að fara yfir. Dýrtíðin er svo óskapleg að fólk lifir ekki lengur af launum.
(tæknifræðingur) - Þjóðarskútan marar í kafi eins og venjulega. Hins vegar hefur maður nú stundum séð það svartara.
(atvinnulaus) - Ég eygi ekki hvar þetta ástand tekur enda og ég treysti satt að segja hvorki ríkisstjórn né verkalýðsforystunni til að leysa vandann.
(húsmóðir) - Allt er stefnulaust nú. Gengisfellingar hafa ekkert hjálpað og því ætti að reyna einhverja aðra leið.
Ég man satt að segja ekkert hvað var í gangi í júní 1975, ábyggilega óðaverðbólga, gengisfellingar, verkföll, lánatregða, verðfall, gjaldþrot. Auðvitað ekkert nándarnærri í likingu við það sem er núna. Þó nú væri.
Sjálf var ég átján ára, í sumarvinnu á ellideild sjúkrahússins á Króknum, lét foreldrum mínum eftir uppeldið á dótturinni, sparaði sumarkaupið eins og ég mögulega gat til að eiga fyrir skólavistinni í MA næsta vetur en lét þó eftir mér að skreppa á böll í Miðgarði um helgar. Og hafði ekki miklar áhyggjur af ástandinu.
Mig langar svosem ekkert til 1975 aftur. En sumu væri ég alveg til í að skipta á.