Ég áræddi að koma heim til mín aftur rétt fyrir tíu og þá voru efnafræðistúdentinn og skylmingastúlkan einmitt að byrja á seinni eftirréttinum. Mér heyrist á þeim að allt hafi heppnast mjög vel hjá drengnum en matseðillinn var annars svona:
Mozzarellaostur með ristuðu chili og ólífuolíu
Heimagert tagliatelle með kirsiberjatómötum og basilíku
Lambahryggjarsneiðar með ofnbökuðum tómötum, mintuvinaigrette og rósmarínkartöflum
Jarðarber í balsamediksósu með vanillukrydduðum mascarponeosti
Amaretto-súkkulaðibúðingur með stökkum sesamkaramelluflögum
Kjötsúpan sem ég fékk var fín líka. Svo kemur gagnlega barnið með fjölskylduna í mat annað kvöld; ég sagði þeim að ég ætlaði að gefa þeim nautasteik en þá mótmælti Boltastelpan og sagðist vilja ,,bjúgur". Bróðir hennar tók undir og sagði ,,ég líka bjúgur". Þannig að annað kvöld býð ég upp á nautasteik með bjúgum. Á eftir að finna betur út úr því ...