Af því að ég var að tala um tuttugu ára afmæli, þá dettur mér í hug að í tiltekt á tölvunni á dögunum rakst ég á matseðil frá því að við einkasonurinn héldum upp á tvítugsafmælið hans í London. Við fórum á
Roussillon í Pimlico (ein Michelinstjarna) og þetta var það sem við fengum:
Dverggrænmeti með sinnepsvinaigrette
Fljótakrabbi með fíflablöðum og sósu
Kartöflumauk með villtum hvítlauk
Steikt sólflúra á grænmetisbeði
Grillaður lambahryggvöðvi með steiktu grænmeti
Þrír franskir vel þroskaðir ostar
Sítrónusoufflé
Súkkulaðibúðingsfingur
Kaffi með petits fours
12 ára calvados
Það skal sagt drengnum til hróss (hann var mun matvandari fyrir fimm árum en hann er núna) að hann smakkaði á öllu. En gafst reyndar upp á frönsku ostunum og tautaði eitthvað um sokka sem einhver hefði gengið í í hálfan mánuð.
Ef ég fer aftur með annað hvort barnabarnið eða bæði til London er ekki útilokað að ég færi með þau í hádegismat á Roussillon; ég sé að nú er farið að bjóða upp á sjö rétta gourmet-máltíð í hádeginu, ókeypis fyrir börn annan hvern miðvikudag.