(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

29.4.06

Grillaður saltfiskur, kanína og fleira

Grillæfingarnar í gær tókust bara ljómandi vel. Við grilluðum meðal annars saltfisk, kanínufillet og perustrudel. Og ýmislegt fleira. Allt nokkuð gott. Svo byrjuðum við auðvitað á Vínbarnum og enduðum á Ölstofunni. En ég hélst nú ekki mjög lengi við þar.

Núna er ég að horfa á Olsen-banden overgiver sig aldrig í danska sjónvarpinu. Ekki ein af þeim allrabestu en það eru nokkur góð atriði í henni, t.d. Lego-verkfærið í upphafssenunni, sem tekur langt fram öllu sem sést hefur í hönnunarkeppni verkfræðinema, og svo auðvitað uppblásna dúkkan og pornóblaðið sem trylla belgíska vörðinn.

Já, og planið hjá Egon er að þessu sinni að kaupa upp öll hlutabréf í Magasin du Nord. Hann var á undan sinni samtíð.

|

28.4.06

Sjallabuxur

Fyrirbærið Sjallabuxur barst í tal í saumaklúbbnum í gær. Líklega er rétt að útskýra það fyrir þeim sem ekki þekkja til en á sínum tíma áttu allar stúlkur í Menntaskólanum á Akureyri sínar Sjallabuxur. Eða allavega allar sem voru annaðhvort orðnar átján ára eða höfðu í fórum sínum skilríki sem gáfu til kynna að þær væru orðnar það.

Sjallinn var á þeim árum eini skemmtistaðurinn á Akureyri. Ekki bara aðalstaðurinn, heldur sá eini. Og inn í Sjallann komst enginn nema standast kröfur Kobba og hinna dyravarðanna um klæðaburð. Strákar urðu að vera í jakka og almennilegum buxum, í skyrtu og með bindi (einhver slapp víst einhvern tíma inn með því að taka af sér beltið og setja um hálsinn eins og bindi en hins vegar reyndist ekki duga að búa sér til bindi úr klósettpappír. Það var þó reynt).

Hjá stelpum man ég ekki að sérstakar kröfur væri gerðar um klæðnað á efri tasíuna, nema líklega hefði ekki gengið að vera í lopapeysu. Ætli við höfum samt ekki oftast nær verið í rúllukragabol? En buxurnar voru aðalmálið. (Auðvitað buxur - það fór engin í pilsi í Sjallann í þá daga þótt margar ættu sítt pils til að fara í á 1. des-ballið og dimissionballið.) Sjallabuxur urðu að vera úr sléttu flaueli eða terlíni. Ekki rifflaflaueli og auðvitað alls ekki gallabuxur. Ég man ekki eftir að fleiri möguleikar væru uppi á borðinu í þá tíð. (Reyndar held ég að rifflaflauelsbuxur hafi sloppið um tíma ef þær voru ekki ,,með gallabuxnasniði".)

Þannig að maður varð að eiga Sjallabuxur. Það var ekkert atriði að þessar buxur væru flottar eða smart eða fallegar eða færu manni sérlega vel. Þær voru yfirleitt frekar ljótar. Þær urðu bara að standast kröfur dyravarðanna. Þær voru heldur aldrei notaðar til neins annars en Sjallaferða.

Reyndar áttum við á þessum árum afskaplega lítið af fötum yfirleitt; flestar áttu tvennar til fernar galla- og/eða rifflaflauelsbuxur, fáeina boli, eina eða tvær peysur og svo náttúrlega lopapeysu. Ef við áttum einhverja peninga umfram það sem þurfti í fæði og húsnæði fóru þeir í eitthvað annað en föt. Við pældum lítið í útlitinu - allavega fatnaðinum - og það þótti dálítið sérkennilegt að ein okkar þurfti stundum að standa og spegla sig rækilega áður en farið var út og skipti jafnvel um föt ef hún var ekki ánægð. En hún var líka að sunnan.

Þannig að við áttum ekki Sjallabuxur til skiptanna. Ég átti reyndar tvennar á mínum menntaskólaárum (brúnar terlínbuxur og svartar flauels) en það var af því að ég óx upp úr þeim fyrri. Maður notaði sömu buxurnar, helgi eftir helgi, og þar sem ekki var hægt að fara með þær í þvottahúsið á heimavistinni eins og önnur föt og maður tímdi ekki að borga hreinsun nema það væri gjörsamlega óhjákvæmilegt voru þær ekkert alltaf fullkomlega hreinar. Ekkert kannski grútskítugar heldur en það var reynt að strjúka blettina úr með vatni og tusku áður en kostað var upp á hreinsun. Svo voru þær pressaðar fyrir helgina ef maður mátti vera að.

Á þessum buxum var gjarna einn pínulítill vasi sem passaði fyrir varaglossið. Svo var maður með sígarettuveski og tróð í það sígarettupakka, kveikjara, húslykli og peningum. Það með vorum við tilbúnar á djammið.

Það var þá.

|

Breytingar

Ég man þegar Fróði keypti Iðunni og á rúmu ári hurfu allir samstarfsfélagarnir burt, fólk sem ég var búin að vinna með hvern virkan dag í tólf til fimmtán ár og var eiginlega eins og önnur fjölskylda. Þetta fólk var bara allt í einu farið og þar sem ég hringi aldrei í neinn og heimsæki fólk helst ekki heldur eins og áður hefur komið fram, þá hvarf það úr lífi mínu. Það var ekkert voðalega auðvelt. Ekki fyrir manneskju með Asperger-tendensa sem vill helst hafa ákveðna hluti í frekar föstum skorðum. Auðvitað verða meiriháttar breytingar oft til góðs en mér er jafnilla við þær fyrir því. Ekki síst þegar þær kosta mig nána vini.

Þetta er einhvern veginn allt annað hér, á mun stærri vinnustað þar sem fólk er alltaf að koma og fara, en reyndar er nánasta samstarfsfólkið búið að vera það sama þessi fjögur ár sem ég hef verið á Gestgjafanum. Maður finnur minna fyrir breytingum. En nú er hún Sigurlaug bókari að hætta í dag. Ég er bara búin að vinna með henni í fjögur ár en hún er búin að vera hjá Fróða í 20 ár og fyrirtækið verður ekki samt án hennar. Ég veit að ég á eftir að sakna hennar mikið.

|

Kjötfjallið

Ég grillaði lambakjöt í gær, fimm rétti. Tókst ágætlega. Eitthvað þurftum við nú að smakka á kjötinu, svona til að tékka á að allt væri í lagi. Svo kom fjölskyldan í mat og við borðuðum lambakjötið. Í miðri máltíð hringdi Gunna systir til að spyrja hvort hún ætti ekki að taka mig með í saumaklúbb. Það hafði nefnilega farið fram hjá mér að þetta væri kvöldmatarklúbbur. Og auðvitað var lambakjöt á borðum. Alveg ljómandi gott en ég hefði kannski gert því ögn betri skil ef ég hefði ekki verið búin að borða töluverðan slatta af lambakjöti þennan daginn. Og svo ekkert nema kjöt í næstu viku eins og ég nefndi í gær ... Ætli það verði ekki tómur fiskur í helgarmatinn hjá mér.

Það er annars aldeilis grillveður í dag. Veit ekki hvort það helst fram á kvöld en þá ætlum við Gestgjafastaffið að grilla saman heima hjá mér. Verst að kveikjan á grillinu bilaði í gær - eins gott að eiga til eldspýtur. Efast um að það dugi að nota brauðrist eins og var til umræðu í saumaklúbbnum í gær (neinei, ekki til að grilla, bara til að fá eld til að kveikja upp).

Annars kunna fyrrverandi reykingamenn, eins og við erum allar í klúbbnum nema ein, ýmis trikk til að kveikja eld í eldspýtnaleysi.

|

27.4.06

Grillvertíðin ...

Hér er allt í góðum málum, held ég. Grillgaskúturinn er líklega nærri fullur, sólin skín af og til og það er þokkalega hlýtt á svölunum, fyrsta lambagrillsteik af fimm er að verða til og hinar bíða allar í viðeigandi maríneringum. Nú bíð ég bara eftir stílistanum og ljósmyndaranum.

Annað kvöld verða grillæfingar hér. Og svo eru tvær myndatökur í næstu viku. Svín og naut. (Nei, það verður ekkert bara kjöt í grillblaðinu, hreint ekki. Það bara hittist svo á að ég tek kjötréttina í ár.)

Namm.

|

26.4.06

Af þöglum fæðingum og fylgjuáti

Af hverju virðast svona margar konur vera alveg sannfærðar um að það sé allt að því líffræðilega ómögulegt að fæða barn án þess að öskra hástöfum?

Ég hef séð þessu haldið fram ansi víða að undanförnu. Allt út af Tom Cruise náttúrlega. Ekki þar fyrir, ef Tom Cruise (eða einhver annar kall) hefði sagt mér að eignast mín börn þegjandi hefði ég sennilega öskrað eins hátt og ég mögulega gat. En ég held að ég hafi í mesta lagi stunið ögn. Og bölvað eitthvað. Ég er engin hávaðamanneskja og er yfirleitt ekkert að öskra að þarflausu. Og þetta var ekki svo andskoti vont að þess þyrfti.

Ekki langar mig neitt sérstaklega að smakka á fylgju heldur og kalla þó ekki allt ömmu mína í þeim efnum. En ég man að einu sinni las ég að fylgjur hefðu verið vinsæll matur hjá grænmetisétandi hippum fyrr á árum þar sem þær hefðu verið það eina ,,kjöt"-kyns sem þeir máttu láta ofan í sig - það hafði jú ekkert líf verið tekið, þvert á móti. Allavega, ef einhvern vantar uppskrift, þá eru nokkrar hér ... Þetta er að sögn hinn hollasti matur.

En Cruise er náttúrlega ruglaður.

|

Grillveður ...

Ég leit út um gluggann þegar ég vaknaði í morgun, sá fyrst bara sól og hugsaði ,,jæja, nú er veður til að taka myndir fyrir grillblaðið". Svo sá ég snjó á öllum þökum.

En hann er horfinn núna - allavega hér uppi á Golanhæðum - og Siggi stormur var að spá hitabylgju. Þannig að ég er vongóð um myndatökuna á morgun. - Annars man ég að undanfarin ár hefur yfirleitt snjóað eitthvað daginn sem við byrjuðum að mynda fyrir grillblaðið. Það hefur samt ekki skilað sér inn á myndirnar.

Nú væri gáfulegt að fara að athuga hvort grillið er í lagi, ég hef ekki snert það lengi. Og jafnvel fá áfyllingu á varakútinn. Mig minnir nefnilega líka að undanfarin ár hafi gasið klárast í miðjum myndatökum.

|

25.4.06

Mannkynssögufræðsla Sauðargærunnar

Sauðargæran kom í heimsókn áðan á meðan systir hans var að spila fótboltaleik og við ákváðum að baka okkur súkkulaðimúffur. Þegar að var gáð voru þó ekki til egg svo að við fórum út í Krambúð að kaupa þau. Í leiðinni komum við aðeins inn í búðina hjá Þorsteini Bergmann og skoðuðum ýmislegt forvitnilegt, þar á meðal eggjabikara.

Sauðargæran: -Mamma mín á eggjabikar sem er eins og hausinn á gömlum kóngi.

Amman kannast við þessa lýsingu, þar sem hún gaf einmitt móðurinni téðan eggjabikar, sem er eins og brjóstmynd af Hinrik áttunda og var keyptur í Tower of London á dögunum.

Sauðargæran: -Þetta var ekki góður kóngur því að hann hjó hausinn af einni konunni sinni eða sumum.

Amman: -Ja hérna! Af hverju gerði hann það?

Sauðargæran: -Af því að honum fannst hún leiðinleg og hann vildi ekki vera giftur henni.

Amman: -Hvað segirðu?

Sauðargæran (í róandi tón): -Þetta var í gamla daga, amma.

Amman: -En ef einhver vill ekki vera giftur konunni sinni núna?

Sauðargæran: -Þá skiptir hann bara og fær sér nýja konu og bara skilar hinni. Hann heggur ekkert hausinn af hinni. Það má ekki núna. Og veistu, amma, þegar kóngurinn giftist seinustu konunni sinni, þá var hann orðinn gamall og hann dó rétt á eftir svo að hann hjó ekkert hausinn af henni.

Jú, hann kann eitthvað í mannkynssögu, drengurinn.

|

Í sólskinsskapi

Mig langar allt í einu í nýbakað brauð. Og þar sem það eru heilir þrjúhundruð metrar eða svo út í næsta bakarí, þá er ég að hugsa um að rölta frekar inn í eldhús og baka eitthvert fljótlegt pönnubrauð.

Svo langar mig líka í spænskan ost með brauðinu. Það vill nefnilega svo heppilega til að ég á einmitt svoleiðis. Og það eru til afbragðsgóðar spænskar ólífur og fleira.

Og sólin skín.

Mikið ofboðslega er ég eitthvað jákvæð í dag. Óvíst hvað það endist en ég ætla allavega að nota jákvæðnina í bakstur til að byrja með.

|

24.4.06

Ekki alveg nýjustu fréttir

Síðasti póstur var skrifaður í morgun þótt hann birtist ekki fyrr en núna (Blogger búinn að vera í óstuði í dag) og er eiginlega úreltur. Blaðið er allavega farið í prentun og ég er að undirbúa vinnu við blessaða greinina.

Og svo er það blessað grillblaðið. Það hefði svosem verið hægt að grilla í dag, allavega hér á svölunum hjá mér. Þrátt fyrir snjóinn.

|

Skiladagar

Nú væri efni til að tala um veðrið. En ég kláraði þann pakka á föstudaginn.

Ég fékk áminningu áðan um að ég þyrfti að skila grein sem ég er löngu búin að lofa að skrifa fyrir útlent tímarit fyrir lok apríl. Það voru góð tíðindi því ég hafði verið alveg viss um að ég hefði átt að skila greininni fyrir miðjan apríl. Sem þýðir að ég hef alveg heila sex daga til að klára hana, í staðinn fyrir mínus tíu.

Í tölvupóstinum voru líka taldir upp þeir sem eru búnir að skila inn sínum greinum. Þeir voru bara fjórir, sem þýðir að ég er alls ekki ein um að vera á síðustu stundu. Það voru líka góð tíðindi. (Ég held að það sé meira en hálft ár síðan ég var beðin um þessa grein. Típískt að ég skuli fyrst núna vera að byrja á verkinu fyrir alvöru.)

Ætli sé ekki best að fara að koma sér að verki ... þ.e. þegar Gestgjafinn er frá, það er jú prentsmiðjuskiladagur í dag.

|

23.4.06

Talað tungum

Ég hringdi heim til gagnlega barnsins áðan. Dóttursonurinn svaraði að sjálfsögðu í símann og neitaði að tala annað en óskiljanlegt hrognamál sem aumingja amman áttaði sig ekkert á, enda missti hún af því að drengurinn hafði kynnt sig sem Kimi (Räikkönen) þegar hann svaraði og þar af leiðandi talaði hann náttúrlega ,,finnsku".

Hann er dálítið gefinn fyrir að tala útlensku og setur þá ekkert fyrir sig kunnáttuleysi í erlendum tungumálum. Reyndar kann hann nokkur orð í kínversku (einn vinur hans á leikskólanum er Kínverji og drengurinn hefur farið í heimsókn í kínverska sendiráðið). Um daginn var hann í hrókasamræðum við móður hans og mér skildist að hann hefði talað ótrúlega sannfærandi gervikínversku (er semsagt búinn að átta sig á að kínverska er tónamál) og kínverska konan spilaði með og svaraði honum eins og hún skildi hvert orð.

Ég er viss um að hann þyrfti ekki að hlusta lengi á finnsku talaða til að geta orðið mjög sannfærandi Kimi. - Ég gleymdi reyndar að spyrja hvort hann væri búinn að skipta um uppáhaldsökumann í Formúlunni, hingað til hefur hann yfirleitt kynnt sig sem Trulli ef maður hringir þegar Formúlan stendur yfir.

|