(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

1.9.07

Reykt og sviðið

Ég labbaði niður á Laugaveg í rigningunni. Regnhlífarlaus auðvitað. Kom við á Te og kaffi hjá einkasyninum, sem gæddi mér á reyktu Lapsang souchong, sem var bara ansi gott (lyktin minnti helst á það þegar maður nálgaðist miðbæinn í vor eftir Austurstrætisbrunann en bragðið var öllu flóknara).

Þetta minnti nú ekki mikið á Lapsang sjúngsjang sem maður fékk hjá Helga Skútu í gamla daga og hann hafði keypt í Bréf og rusl á Akureyri. Búðin sú hét náttúrlega ekki Bréf og rusl en það átti ágætlega við; þar fékkst eitt og annað sem ekki fékkst annars staðar, til dæmis esperantókennslubækur, vasareiknarnir sem við vorum látin kaupa í 5. F og hétu þá vasatölvur, og einhverjar tegundir af tei, sem engir drukku náttúrlega nema sérvitringar eins og Skútan. En hann var líka að sunnan og hollenskur Þingeyingur þar að auki. Ísland var alltaf of lítið fyrir hann en Akureyri var passleg um tíma.

Svo fór ég og keypti mér vopnfirsk svið sem ég ætla að hafa í kvöldmatinn. Var fyrst að hugsa um að gera eitthvað exótískt við þau en ákvað svo að reykta teið væri alveg hæfilegur dagskammtur af exótík í svona veðri. Þannig að ég sýð þau bara og borða þau brennheit með stöppu; krydda kannski stöppuna eitthvað óhefðbundið.

Einu sinni las ég viðtal við þekktan íslenskan kokk sem var að lýsa sviðaveislu sem honum hafði verið boðið til í Noregi. Honum þótti það merkilegast að norsku sviðin voru borðuð heit; hafði greinilega aldrei heyrt um að það væri gert hér á landi.

|

31.8.07

The more things change ...

Mér sýnist sveimérþá allt útlit fyrir að áramótapistillinn minn þetta árið muni byrja á svipuðum nótum og hann hefur gert síðustu árin.

En ég ætla allavega ekki að hreyfa mig af Grettisgötunni.

|

Ómannleg mistök

Úr frétt á vísir.is:

,,Systir hennar henti sér á eftir henni en vegna mannlegra mistaka stúlkunnar sem var að innrita þær í flug var neyðarhappur ekki notaður til að stöðva færibandið."

Það var nú aldeilis gott að allt fór vel ... en hvernig mistök hefði stúlkan getað gert sem ekki voru mannleg?

|

Tölvuleikur fyrir mig

Hérna er líklega kominn tölvuleikurinn sem mig hefur alltaf vantað

|

30.8.07

Hrísgrjónaát og fatagerð

Fjölskyldan kom í mat í kvöld. Líka skylmingastúlkan tengdadóttir mín, sem ekki hefur sést að undanförnu þar sem hún hefur verið við mælingar á Upptyppingum eða setið föst í jökulám svo að þyrlan kom til bjargar eða verið að sveifla sverðum um víða veröld. Hún er reyndar að fara aftur í fyrramálið en bara í nokkurra daga ferð og ekki á Upptyppinga í þetta skipti, bara í Kröflu.

Boltastelpan fékk að ráða kvöldmatnum og pantaði kjöt í karríi. Ég fæ venjulega skammir fyrir að sjóða of lítið af hrísgrjónum svo að ég ákvað að hafa vaðið fyrir neðan mig, sauð heilt kíló og urraði þegar ég bar skálina inn: -Það fer illa fyrir þeim fyrsta sem kvartar yfir að það sé of lítið af grjónum.

-Það er of mikið af grjónum, sagði gagnlega barnið strax. En ég átti nú von á því.

Ýmsir fjölskyldumeðlimir áttu bágt með sig meðan á máltíðinni stóð og ætluðu hvað eftir annað að fara að ræða eitthvað um grjónin. En hvasst augnaráð húsmóðurinnar þaggaði niður í þeim.

Það er meira að segja smáafgangur, og það þrátt fyrir að Sauðargæran gæfi yfirlýsingu um það þegar ég kom með bláber og rjóma sem eftirrétt að hann vildi þetta ekki, kysi frekar meiri hrísgrjón. Ég gaf honum grjón í eftirréttarskálina hans og hann borðaði vænan skammt af þeim í eftirmat. Bað um sojasósu út á en var tilkynnt að hann fengi ekki sojaasósu út á eftirmatinn. Ekki einu sinni þótt það væru hrísgrjón. Hann sætti sig við það og gúffaði í sig eintómum hrísgrjónum af miklum tilþrifum. Fór svo og fékk sér ábót.

Sennilega gæti hann lifað á eintómum hrísgrjónum. Eða ísingrjónum, eins og hann sagði þegar hann var yngri. Nema hann fengi náttúrlega beriberi. Um þann sjúkdóm (og marga aðra) er ég býsna fróð af því að ég las þá merku bók Undir gunnfána lífsins þegar ég var litlu eldri en hann. Sjálfur er hann ekkert farinn að læra að lesa ennþá í skólanum; ég spurði hann hvað hann væri þá að læra og hann sagðist vera að læra að búa til föt. Ég náði þessu ekki alveg. Vissi ekki að Breiðagerðisskóli byði upp á skraddaranám í fyrsta bekk.

En sumir í minni fjölskyldu yrðu líklega fullsáttir ef þeir fengju kjöt í karríi á hverjum fimmtudegi.

|

Skyrsúpuspurning

Af því að skyrsúpa barst í tal í kaffistofunni áðan - segið mér nú, þau ykkar sem á annað borð þekkið skyrsúpu: hvað var haft út í hana á ykkar bernskuheimili? Hjá mér var það helst hagldabrauð, franskbrauð eða tvíbökur og hún var bragðbætt með vanilludropum.

|

29.8.07

Eitt er sem ég ekki skil ...

Sko. Það er eitt sem ég skil ekki. (Núna í kvöld alltsvo, það er ansi margt fleira svona kvunndags.)

Ég skil alveg að menn vilji vita vissu sína um hver er faðir þeirra.

Ég skil alveg að menn geri allt sem þeir geta til að fá endanlega og óhrekjanlega staðfestingu á því.

Ég skil alveg að einhverjir aðrir vilji ekki láta vera að róta og hrista upp í gömlum einkamálum löngu látins fólks.

Þetta skil ég allt ágætlega.

Það sem ég skil ekki er af hverju Þórhalli Gunnarssyni & co. finnst að þetta allt komi mér eitthvað við.

|

Sólberjasósa

Ég var spurð um uppskrift að saft úr rifsberjahrati. Einhvern tíma gerði ég þetta með ágætum árangri en ég finn uppskriftina hvergi nokkurs staðar. Aftur á móti rakst ég á uppskrift að sólberjasósu eða -saft sem ég hef stundum gert; það mætti alveg breyta þessu í saft með því að auka sykurmagnið. Og vitaskuld má nota rifsber rétt eins og sólber en þá mundi ég raunar nota heldur minna af rauðvíni (eða sleppa því og nota bara meira af vatni eða appelsínusafa).

Þessa sósu eða saft er best að frysta í litlum skömmtum og nota t.d. með ís eða öðrum eftirréttum, eða sem bragðgjafa í ís eða krapís, eða út í villibráðarsósu, eða í ostaköku eða ávaxtaböku. Hún er ekkert sérlega sæt en það má bæta sykri út í hana þegar hún er notuð og haga þá magninu eftir því til hvers á að nota hana. Uppskriftin er gefin fyrir hrat af 2 kg af því að það var það magn sem ég hafði en hana má minnka eða stækka eftir þörfum.

Sólberjasósa


Hrat af 2 kg af sólberjum
200 ml vatn
200 ml rauðvín
100 ml appelsínusafi
150 g sykur, eða eftir smekk


Hratið sett í pott ásamt vatninu, hitað að suðu og látið malla við hægan hita í um 15 mínútur. Þá er það sett í sigti, pressað í gegn og reynt að ná sem allra mestum safa úr því (ég fékk 650 ml af þykkum safa). Safinn er svo settur aftur í pott ásamt rauðvíni, appelsínusafa og sykri. Hitað að suðu og hrært oft á meðan. Látið sjóða í 2-3 mínútur en síðan tekið afhitanum og látið kólna. Sósunni er svo hellt í nokkur lítil ílát og hún fryst.

|

Tungubrjótar

Ég er akkúrat núna að vinna í handritum að tveimur algjörlega óskyldum bókum sem eiga nákvæmlega ekkert sameiginlegt nema að Mihály Csíkszentmihályi er nefndur í báðum.

Mér finnst frekar tillitslaust af manninum að heita þetta.

En það kannski kemur úr hörðustu átt; nógu oft hafa útlendingar sem ég hef átt í samskiptum við hikstað illilega á nafninu Rögnvaldardóttir, fengið hláturskast eða spurt: ,,Would you mind ... How do you pronounce that?

|

28.8.07

Steinbítur í tómat-ólífusósu

Ég steikti mér steinbít í gær. Þegar ég var krakki fannst mér steinbítur ekki góður matur (enda kannski ekki oft sem glænýr steinbítur var á boðstólum í Blönduhlíð á sjöunda áratugnum) og varð ekkert mikið spenntari fyrir honum þegar ég fór að vinna í fiski á Króknum. Núna er hann einn af mínum uppáhaldsfiskum.

Þar sem ég notaði tilbúna krukkusósu tekur rétturinn u.þ.b. 15 mínútur, sem er sá tími sem fer í að sjóða hrísgrjónin sem ég hafði með fiskinum. - Svo væri örugglega ekki verra að bæta við meiri ólífum þótt ég gerði það ekki að þessu sinni.

Steinbítur í tómat-ólífusósu

600 g steinbítsflök, roðflett og beinlaus
1 tsk kummin
hvítur pipar
salt
2 msk olía
500 g plómutómatar, skornir í báta/bita
1 krukka tómat- og ólífupastasósa frá Sacla
lófafylli af saxaðri steinselju


Steinbíturinn skorinn í stykki og þau krydduð með kummini, pipar og salti. Olían hituð vel á stórri pönnu og fiskurinn steiktur við háan hita í 1-2 mínútur. Þá er stykkjunum snúið, tómötum og sósu bætt á pönnuna á milli þeirra, steinselju stráð yfir, hitinn lækkaður verulega, lok lagt yfir og látið krauma í 3-4 mínútur, eða þar til steinbíturinn er rétt eldaður í gegn (kannski gott að taka stirtlubitana af pönnunni fyrr, þeir eru svo þunnir). Sósan smökkuð og bragðbætt með pipar og salti eftir smekk.

Það má líka taka fiskinn af pönnunni og halda honum heitum en láta sósuna sjóða aðeins meira niður. - Stóra pannan mín er úr pottjárni og heldur hitanum svo vel í sér að ég slökkti bara undir henni þegar tómatarnir voru komnir á pönnuna, það dugði alveg til.

Ég hafði með þessu soðin hrísgrjón og grænt salat. Þetta var líka mjög gott upphitað með grjónunum í hádeginu áðan.

|

27.8.07

Alminlegir gestir

Það komu tveir gestir í kvöld og færðu mér sólber og stikilsber, hvor í sínu lagi. Já, og reyndar sólberjasultu og sólberjasósu líka.

Það var kærkomið; spurning hvort ég geri meiri sultu eða hvort ég fer út í tilraunastarfsemi.

Kannski fletti ég upp í Mes Confitures eftir Christine Ferber, sem ég keypti í Alsace í fyrra. Ég hef ekki prófað neitt úr bókinni enn en ég keypti líka sultur sem Christine hafði sjálf gert og þær voru ansi hreint góðar. (Ef þið verðið á ferð í Alsace skuluð þið svipast um eftir þeim, margir telja þær bestu sultur í heimi.)

En það verður að bíða til morguns. Nenni ekki að gera neitt í kvöld, í staðinn horfi ég á The Exploding Bedpan, sem er næsti þáttur af 'Allo 'Allo.

|

Hagfræði húsmóðurinnar

Þegar ég var að byrja að baka lærði ég að maður ætti alltaf að brjóta egg í bolla eða litla skál, aldrei beint út í deigið. Ég var alveg hætt að fara eftir þessu en fyrir allmörgum árum varð ég fyrir því að egg sem ég braut beint út í kökudeig reyndist hafa fúlnað. Almáttugur, þvílíkur fnykur.

Nú hef ég brotið dálítið mörg egg um dagana en aðeins tvisvar lent á fúleggi; í hitt skiptið braut ég eggið í bolla svo að deigið slapp. En ég nenni nú ekki alltaf að gera það svo að þumalputtareglan hjá mér er núna: Ef hráefnið sem þegar er komið í skálina er tiltölulega ódýrt (hvítur sykur, smjör, hveiti o.þ.h), þá hika ég ekki við að brjóta eggið beint út í.

Ef ég er aftur á móti komin með dýrara hráefni í skálina (súkkulaði, rjómi, hrásykur, allskonar fínirí), þá teygi ég mig eftir bolla til að brjóta eggið í.

Datt þetta í hug þegar ég las þetta hér.

|

26.8.07

Samnýting á vatnsglösum

Fyrst ég vitnaði í Kvennafræðarann áðan, þá er hér klausa sem mér hefur alltaf þótt dálítið merkileg, úr kaflanum Að leggja á borð m. m.

,,Ávalt skal hafa salt og kryddglös á borði; einnig vatn á flösku og eitt eður fleiri vatnsglös. ... Þegar vatni er helt í glas, ef fleiri eiga að brúka það, má ekki hella meiru í það en menn ætla sér að drekka, svo að sá, sem næst vill brúka glasið, fái það tómt."

Þetta kallar maður nú að spara sér uppvaskið. Ég hefði átt að fatta þetta áður en ég splæsti í nýja uppþvottavél.

|

Kalt kaffi

Boltastelpan var látin laga kaffi fyrir fjölskylduna á fimmtudagskvöldið. Henni tókst að hella upp á kalt kaffi (gleymdi að kveikja á katlinum). En nú sé ég að hún hefur bara verið svona trendí. Ég er búin að sjá fullt af greinum að undanförnu um kald-lagað kaffi (ekki getur maður sagt kaldhitað kaffi, er það?).

Annars man ég núna að í Kvennafræðara Elínar Briem er uppskrift að kaffilegi sem er ekkert svo ósvipaður en er að vísu notaður sem eins konar instantkaffi (heitt). Hjá Elínu er exporti (kaffibæti eða rót) blandað saman við kaffið til drýginda en í sumum uppskriftum að kaldlöguðu kaffi sem ég hef verið að skoða er einmitt talað um síkoríubætt kaffi, gjarna kennt við New Orleans. Exportið er einmitt síkoríurót.

|