Tölvumaðurinn kom áðan með nýju tölvuna, mína, tengdi hana, setti inn réttar stillingar fyrir netið, komst inn á netið. ekkert mál. Endurræsti tölvuna áður en hann fór til að tékka hvort ekki væri örugglega allt í lagi. Jújú. Nema svo settist ég við tölvuna um leið og hann var farinn. Engin nettenging. Og virðist ekkert ætla að koma inn aftur. Grrr ...
Ég fór til læknis í morgun þar sem okkur sjúkraþjálfaranum kom saman um að það væri ekki gott mál að ég væri ekkert skárri í hnénu eftir tveggja mánaða meðferð. Svo að nú á ég að fara í segulómun til að gá að því hvort eitthvað sé athugavert við brjóskið. Ætli ég verði ekki komin með gervihné áður en ég veit af? Össur er jú að búa til hné með gervigreind. Ég gæti örugglega notað svoleiðis.
Mér veitir allavega ekki af meiri greind, og ekki bara í hnjánum. Eða einhverju. Ég er svo utan við mig þessa dagana að áðan hellti ég appelsínusafa út í kaffið mitt í staðinn fyrir mjólk. Og það sem verra er, fimm sekúndum áður hugsaði ég ,,það er best að ég passi mig á að taka ekki appelsínusafafernuna í staðinn fyrir mjólkurfernuna."
Alzheimer light. Eða eitthvað.