Ég þorði ekki annað en gá að grillinu á svölunum áðan en það virtist standa traustum fótum og yfirbreiðslan hafði ekkert haggast. Náttúrlega eru svalirnar svo þröngar að það er ekkert mikið pláss fyrir grillið að fjúka eitt eða neitt ... En ég lít örugglega á það aftur áður en ég fer að sofa, á veðrið ekki að vera verst um miðnættið? Aldrei þessu vant tek ég eftir veðrinu, annars er ég einhver veðurónæmasta manneskja sem ég veit um; mamma hefur stundum hringt að norðan til að spyrja hvort nokkuð hafi farið úr skorðum hjá mér í einhverju hávaðaroki og ég spyr bara ,,ha, hvaða óveðri? ég hef ekki tekið eftir neinu ..."
Annars var ég sest við tölvuna upp úr sjö í morgun, þurfti að sinna smáverkefni áður en ég færi í vinnuna, og allt í einu fannst mér eins og einhver kæmi aftan að mér. Ég snarhrökk í kút og leit um öxl í panik. En þá var þetta bara jarðskjálfti.
Ég verð allavega vör við þá, svona oftastnær.