(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

10.1.09

Fataskápurinn og kreppan

Í þessari færslu er minnst oftar en einu sinni á kreppuna en þetta er samt ekki kreppublogg nema óbeint. (Þetta er sagt til að létta undir með þeim sem vilja bara lesa kreppublogg, þeir geta hætt strax.)

Ég er að myndast við að taka ögn til í fataskápnum, ekki síst í þeim tilgangi að skapa pláss. Þetta er vandamál sem ég er lengi búin að ýta á undan mér vegna þess að ég var jafnvel að plana að kaupa nýjan skáp, stærri og rúmbetri (það er nefnilega ekki sjálfgefið að stærri skápur sé rúmbetri, ég hef reynslu af því) en nú er fjandans kreppan búin að koma því á bið eins og fleiru svo maður lætur sér nægja það sem maður hefur.

En ég er semsagt að reyna að rýma til og taka frá eitthvað til að fara með í Rauða krossinn og svona. Það væri vissulega einföld þumalputtaregla að taka allar flíkur sem maður hefur ekki farið í í ár eða svo en ég er ekki þannig. Þar sem ég hef nú aldrei verið að elta tískuna á ég það alveg til að hvíla einhverja flík árum saman, gleyma að ég eigi hana jafnvel (auðvelt þegar fataskápurinn er troðfullur) og fara svo að ganga í henni aftur upp á annan hvern dag. Þannig að þessi mælikvarði er ónothæfur.

Annað gott viðmið er náttúrlega að fjarlægja öll föt sem maður kemst ekki lengur í. En þar sem aukakílóin mín eru búin að vera meira og minna status quo árum saman virkar það tæpast heldur.

Svo að þetta er huglægt mat og það er auðvitað vandasamt. Eina nothæfa viðmiðið er eiginlega: ,,Líður mér vel í þessari flík?" Alveg burtsé frá því hvernig ég lít út í henni, það er ekki málið fyrir mér. En jú, vissulega á ég flíkur sem mér þykir frekar vænt um en mundi aldrei láta sjá mig í utandyra. Ekki margar, en þær eru til í skápnum, vissulega. Þær eru þá bara notaðar heimavið.

Þannig að það rýmkast ekkert í skápnum þótt það sé kreppa og ég sé lítið í því að kaupa mér ný föt þessa dagana. Ég kaupi þá bara gömul föt í staðinn. Þau eru ekki verri. Stundum eiginlega bara betri. Sérstaklega minkapelsar og svoleiðis.

En þetta er allt saman útúrdúr því að ég ætlaði nú bara að segja að á meðal þess sem ég fann í skápnum var sængurver sem ég er hætt að nota og ætla að losa mig við. Hafði ekki vandað mig neitt voðalega við að brjóta það saman þegar ég setti það þarna því ég vissi að ég mundi ekki nota það meir. En þegar ég slétti úr því núna fann ég fyrir einhverju í einu horninu; þetta reyndist vera flík, efnislítil reyndar, sem ég er búin að vera að leita að í hálft annað ár eða svo og hef saknað töluvert.

Ég hefði átt að muna eftir þessu hér áður en ég gekk frá verinu. (Spurningunni er svarað þarna í kommentakerfinu, það er fullt af athugasemdum þótt teljarinn segi kannski 0).

Þannig að ég er bara nokkuð hress, græddi samasem flík á þessu og fékk smápláss í skápnum.

Ég ætla nú samt að fara og mótmæla á eftir. Grímulaust.

|

7.1.09

Allsstaðar er verðbólgan

Ég kom við í Góða hirðinum á heimleiðinni (já, ég veit að það er ekki alveg í leiðinni eins og þegar Edda var í Síðumúlanum). Sveimér ef er ekki bullandi verðbólga þar líka. Hlutir sem kostuðu fimmtíukall í fyrra kostuðu hundrað eða jafnvel tvöhundruðkall núna. En þetta er jú allt fyrir gott málefni.

Úrvalið var reyndar lítið, enda var ég seint á ferð. Fann samt nokkra smáhluti sem mig vantaði ekki beinlínis en ekki kannski það sem ég var að leita að. En það kemur. Þarf líka að skreppa í Kolaportið um helgina, aldrei að vita hvað maður grefur upp þar.

Ég gæti ábyggilega fengið allt sem mig vantar í búðum. En það er eitthvað svo ... 2007.

|

6.1.09

Jarðarfarir, skata og gúmmíbangsar

Ég held ég hafi minnst á það áður en stundum þegar maður rekst á bækur eða vefsíður sem gefa sig út fyrir að greina frá matarvenjum um heim allan eða vera með uppskriftir frá fjölda landa veltir maður fyrir sér hvaða mark eigi að taka á slíkum upplýsingum. Þá fletti ég gjarna upp á Íslandi og ef þess er getið kemur oftar en ekki í ljós að upplýsingarnar eru ekki aaaalveg réttar. Og þá kannski ekkert meira að marka það sem sagt er um önnur lönd.

Ég er til dæmis hér með bók sem mér áskotnaðist nýlega og heitir Death Warmed Over: Funeral Food, Rituals and Customs from Around the World. Og er með uppskriftum frá yfir 70 löndum eða þjóðum um víða veröld. Að sögn. Ég þykist reyndar sjá hvað hefur gerst: Höfundurinn (bandarísk kona) er að velta fyrir sér mismunandi útfararsiðum og mat tengdum jarðarförum í nokkrum löndum eða menningarkimum sem hún þekkir til. Fær brilljant hugmynd og tekst að selja útgefanda hana. Byrjar að safna efni í bókina ... og hana rekur fljótlega í strand. Sérstakir jarðarfararréttir eru kannski færri en hún hefur haldið eða það gengur ekkert að fá upplýsingar um þá eða safna uppskriftum. Lítið mál kannski að finna eitthvað um útfararsiði, jafnvel upplýsingar um að hér sé nú siður að fólk komi með pottrétti eða í þessu landi sé haldin drykkjuveisla og svo framvegis - en engar eiginlegar uppskriftir. Svo að hún fer að spinna uppskriftir og jafnvel útfararsiði líka. Eða þaðan af verra.

Ég fletti upp á Íslandi. Ekki byrjar nú sá kafli efnilega: ,,Up until the start of the twentieth century, killing the oldest and/or weakest members of a tribe or family was a common event." Svo heldur áfram eitthvert bull í sama dúr um hungursneyðir og drauga. Og svo vantar konuna uppskrift en finnur náttúrlega enga og sennilega engar upplýsingar um jarðarfarir heldur. En bíðum við: Einhversstaðar hefur hún rekist á upplýsingar um Þorláksmessu og að það sé dánardagur Þorláks helga. Sem hún tengir þá við jarðarfarir: ,,Many Icelanders celebrate both the shortest day of the year and the saint's death day by eating the fish known as skate."

Og kemur svo uppskrift að kæstri skötu? Neineinei. Uppskriftin er að pönnusteiktri skötu (eða ,,Icelandic flounder fillets" ef maður á ekki skötu) með sósu úr smjöri, hvítvíni og pekanhnetum.

Þetta er nú samt hátíð hjá þeirri meðferð sem matarmenning Tíbetbúa fær. Uppskriftin sem hún gefur fyrir þá er að smákökum - eiginlega súkkulaðibitakökum - með gúmmíböngsum. Ég held ég sé ekkert að rekja hvernig konan fetar sig yfir að þeirri uppskrift.

Ég held þetta sé ekkert voðalega marktæk bók um útfararsiði og -mat um heimsbyggðina. Þá er nú meira að marka þá ágætu bók Being Dead is No Excuse, sem er að vísu bara um erfidrykkjuveitingar í Suðurríkjum Bandaríkjanna.

|

Hátt metin

Ég vissi nú ekki að ég væri svona hátt metin ...

En það er nú langt síðan ég lærði að þótt mann bráðvanti einhverja bók er ekki endilega skynsamlegt að stökkva á fyrsta eintakið sem maður finnur á netinu.

|

Jón Ásgeir og listagalleríin

Ég var að skoða teikningar og lýsingar af fínu margramilljarðaíbúðinni hans Jóns Ásgeirs í New York. Voða flott ábyggilega þótt ég hafi aldrei skilið hvað fólk hefur að gera með öll þessi klósett. En ég sá nú að samt er íbúðin ekki alveg eins fín og þarna er haldið fram. Ég meina, á neðstu hæðinni er sagt að sé listagallerí, ég keypti það alveg, þetta er listhneigt fólk og svona - en svo fletti ég yfir á næstu hæð fyrir ofan og þar eru samkvæmt textanum undir myndinni hvorki meira né minna en þrjú listagallerí. Og það fannst mér fullmikið. Enda sést á teikningunni að þetta eru bara gangar. Gallery er jú fínni versjónin af corridor.

Svo að þótt þau skötuhjúin séu listelsk eru þau líklega ekki með fjögur listagallerí á 650 fermetrunum sínum. En ég gafst upp á að telja klósettin.

|

5.1.09

Texta á Gunnar

Hversvegna í fjandanum er ekki settur texti á Gunnar Birgisson þegar hann tjáir sig í sjónvarpi? Ég skil ekki nema annaðhvert orð sem maðurinn segir.

Eða - come to think of it - miðað við það sem mér tekst að greina af orðum hans - þá er ég ekkert viss um að ég mundi skilja hann betur þótt hann væri textaður.

Og ég þurfti ekki texta á Bjarna Ármannsson en sveimér sem ég skildi hann nokkuð betur.

Ætli ég skipti ekki bara yfir á ÍNN og horfi á Ingva Hrafn og Össur. Þeir geta ekki verið verri.

|

Misheppnað kynningarátak Moggans

Þegar ég kom heim í gær var Moggablað í plasti eitthvað að þvælast fyrir mér í forstofunni; ég mundi að það hafði verið þarna þegar ég fór út og líklega á laugardaginn líka svo að ég tók það upp til að gá hver af nágrönnunum ætti það.

Mér til furðu var það merkt mér. Ég hef ekki verið áskrifandi að Mogganum síðustu 15 árin að minnsta kosti svo að ég var svolítið hissa en tók blaðið með upp og reif af því plastið. Þá kom upp úr dúrnum að þarna var miði sem á stóð ,,Nú hefur þú fengið Morgunblaðið sent heim í mánaðartíma ..."

Hmm. Ég hef vissulega stundum rekist á Moggann (ekki í plasti) í forstofunni þegar ég hef farið út á morgnana síðasta mánuðinn en ekki datt mér í hug að blaðið væri ætlað mér, enda hefur það yfirleitt verið horfið úr forstofunni þegar ég kem aftur heim. Svo að ég gerði nú bara ráð fyrir að einhver nágranninn hefði gerst áskrifandi.

Allt í fína að maður fái Moggann sendan frítt í kynningarskyni í mánuð, en væri ekki íðilsnjallt að láta mann vita af því? Ekki bara eftir á, meina ég? Svona þegar eru fleiri íbúðir í stigaganginum ...

Hmm, en ég hefði nú líklega ekki gerst áskrifandi hvort eð er.

|

4.1.09

Virðing og réttlæti, hmm?

Ég er víst í VR. Var meira að segja einu sinni fyrir langalöngu trúnaðarmaður á mínum vinnustað. En ég hef reyndar aldrei komist svo langt að kynna mér lög félagsins. Kannski hefur enginn nokkurntíma komist svo langt.

Undarlegt batterí og ætti að kenna sig við eitthvað annað en virðingu og réttlæti.

En maður getur nú kannski mætt á fund og kosið, þótt ekki sé annað.

|

Valg Rögnvaldard

Ég blogga aldrei á Moggablogginu þótt ég hafi skráð mig þar - það var bara til að gera mér kleift að kommenta á einhverjum síðum sem eingöngu leyfðu athugasemdir frá skráðum notendum.

Þannig að ég geri ekkert með tölvupóstinn sem ég fékk frá blog.is milli jóla og nýárs um að ég sé ekki skráð með sama nafni og er í þjóðskrá. Sem er út af fyrir sig hárrétt, munar einu V-i (án punkts; mér skilst að það skipti máli).

Mér væri reyndar hundsama hvort ég héti Nanna Rögnvaldardóttir eða Nanna V Rögnvaldardóttir, sem er þjóðskrárnafnið mitt. Mér þykir vænt um Valgerðarnafnið þótt ég noti það lítið.

En ef ég væri nú virk þarna og þyrfti að nota þjóðskrárnafnið - ja, þá þakka ég nú bara fyrir að það er búið að breyta því vegna þess að lengi vel hét ég samkvæmt skráningu þjóðskrár Nanna Valg Rögnvaldard - ég held ég kynni ekki vel við að sjá færslurnar mínar skráðar undir því skrípaheiti.

Á blogspot get ég heitið það sem mér sýnist. Það vill bara svo til að mér sýnist að heita því nafni sem ég nota bæði hversdags og spari.

|

Ríkismenn í rusli

Ég mislas þessa fyrirsögn á Fréttagáttinni áðan; sýndist standa Auðmenn í ruslafötum ... Mundi eftir einhverju tali um finnska fyrrverandi auðmenn sem hefðu verið að tína mat upp úr ruslagámum í kreppunni þar og sá fyrir mér Jón Ásgeir, Bakkavararbræður, Hannes Smára og fleiri að kraka oní ruslafötur eftir flöskum og hálfétnum samlokum í kapphlaupi við reynt fólk í þeim bransa. Vorkenndi þeim nú ekkert voðalega.

En þeir eru víst enn í margramilljarða lúxusíbúðunum sínum í New York og London. Samt gæti ég trúað að samkeppnin í ruslafötugramsi hafi aukist að undanförnu og eigi eftir að aukast enn.

|

Matartískustraumar 2009

Um áramót koma matarblöð og matarvefsíður gjarna með spár um matartískustrauma og stefnur næsta árs og spáin hjá epicurious í ár ber kreppunni ákveðið vitni: Sparnaður er inni, sjálfbær framleiðsla úti; núðlur eru inni, sushi úti; sveitamatur og notalegheitamatur er inni, ,,molecular gastronomy", sem ég hef aldrei vitað hvernig á að þýða er úti; maður á að rækta grænmeti í garðinum sínum og Starbucks er úti.

Spurning hvernig þetta á eftir að rætast hér. Sumt sér maður auðvitað nú þegar.

|