(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

1.4.06

Engir átján réttir í dag, ónei. Reyndar var ég að átta mig á því áðan að ég hef satt að segja ekkert fengið að borða í dag nema smakkbita hér og þar. Það stendur samt til bóta því að ég er á leið á galakvöldverð á Sögu, sem er náttúrlega hið besta mál.

Svo mæti ég galvösk í fyrramálið á vaktina á sýningunni klukkan ellefu. Þarf svo á fund með nokkrum norrænum kokkum klukkan tólf. Það var reyndar búið að ákveða að hittast klukkan níu í fyrramálið en vísir menn (eða raunsæir) tóku í taumana og frestuðu honum til tólf. Enda verða væntanlega allir sem fundinn sitja á galadinnernum í kvöld.

Einkasonurinn stóð sig vel í kaffibarþjónakeppninni, eða ekki gat ég séð betur, fipaðist hvergi og var vel innan tímamarka. Sjálfur var hann eitthvað óhress með einn drykkinn sinn. Frjálsi drykkurinn hans, sem inniheldur m.a. píputóbakssíróp, tókst þó mjög vel sýndist mér og var bara ansi góður (ég fékk að smakka). En það kemur í ljós í kvöld hvort hann kemst áfram í úrslitakeppnina á morgun.

|

31.3.06

Ég var beðin um að vera dómari í landshlutakeppni matreiðslumanna á Matur 2006 í dag. Reyndar var ég sett í dómnefnd sem fulltrúi Vesturlands, merkilegt nokk - en langamma mín var vissulega úr Dölunum.

Fimm keppendur, þríréttuð máltíð, það gerir fimmtán réttir. Reyndar eiginlega fleiri því sumir réttirnir voru jú margfaldir og það þurfti náttúrlega að smakka á öllu. Flest var bara býsna gott en sigur Ægis á Skólabrú, sem keppti fyrir Austurland, var vel verðskuldaður; bæði forréttur hans og aðalréttur skoruðu hátt hjá mér að minnsta kosti. (Reyndar sýndist mér á skorblöðunum að ég væri mun dómharðari en sumir aðrir í dómnefndinni - notaði allavega meira af einkunnaskalanum.) En þarna voru vissulega ýmsir sælkeraréttir á boðstólum, það vantaði ekki. Og allt úr íslensku hráefni - þarna var hrefna, bæði hrá og steikt, stökksteiktur silungur, rauðmagi, folald, lambahryggur, hreindýrapylsa, nautalund og nautatunga, þorskur, steinbítur ... skyr í ýmsum myndum, rabarbarabaka, berjabúðingar og alls kyns góðgæti.

Eftir fimmtán rétti var ég samt ekki saddari en svo að innan tveggja klukkutíma var ég sest að þríréttaðri lúxusmáltíð á básnum hjá Jóhanni Ólafssyni: Túnfisktartar, ostrur, hörpuskel og tígrisrækja, nautalund með súkkulaðisósu, creme brulee, panna cotta og súkkulaðibúðingur. Hvert öðru betra og ókeypis fyrir gesti og gangandi. Allt frá Jóhanni Ólafssyni - matur, borðbúnaður, borð, stólar, lýsing og það fylgdi meira að segja borðfélagi frá fyrirtækinu með í pakkanum. Við Gestgjafakonur urðum verulega impressed.

Og nei, ég er ekki að springa. Södd, jújú, en ekki pakksödd.

|

Auðvitað enduðum við á Vínbarnum í gærkvöldi. Eins og flesta sýningardagana síðast.

Sýningin fór annars vel af stað, ýmislegt áhugavert að sjá og smakka, og þar sem þessir tveir fyrstu dagar eru aðeins fyrir boðsgesti er mun fámennara en verður um helgina og betra tóm til að spjalla við fólk.

Við vorum boðnar í þríréttaða máltíð um miðjan daginn og það ekkert slor, þetta voru nefnilega keppnisréttir frá kokkunum sem voru að keppa um titilinn Matreiðslumaður ársins. Ekki slæmt.

Reyndar var enginn af réttunum sem bornir voru fyrir okkur frá sigurvegaranum, Steini Óskari Sigurðssyni á Sjávarkjallaranum. Lárus Gunnar sagði á eftir að líklega yrðu þau á Sjávarkjallaranum að fara að tæma fiskabúrið og breyta því í ,,trophy"-skáp - að minnsta kosti ef nemarnir þeirra vinna líka, en það kemur ekki í ljós fyrr en í dag.

Ég fer aftur á sýninguna um hádegi, sit hér í vinnunni og er að berja saman þetta erindi sem ég lofaði víst að halda.

Einkasonurinn á að keppa í kaffibarþjónakeppninni um klukkan fjögur á morgun. Ef eitthvert ykkar verður á sýningunni þá, mætið þá endilega á staðinn og fylgist með (nú, eða á sunnudaginn ef hann kemst í úrslit).

|

30.3.06

Now for Australia and a crack at those Japs ... æi, nei, vitlaus bíómynd. Ég er að fara í Kópavoginn. Óvíst að ég rati þaðan aftur eins og áður hefur komið fram.

Ég er ekki viss um að ég bloggi mikið frá sýningunni. Sjáum til þó. Fer líka eftir því hvað ég laumast mikið í vínið sem við verðum með á básnum ...

|

29.3.06

Ókei, við erum búin að koma básnum okkar á matarsýningunni nokkurn veginn í horf. Lítið endilega við hjá okkur ef þið komið á sýninguna, við verðum með vín og ólífur og súkkulaði á boðstólum á meðan birgðir endast (vínbirgðirnar alltsvo, við höfum engar áhyggjur af hinu).

Það er nú alltaf gaman að vera á þessum sýningum þótt maður bölvi þeim gjarna í sand og ösku fyrirfram. Að vísu held ég að það verði engir Guðmundar núna eins og síðast.

Einkasonurinn kemur við á eftir, er á leið á generalprufu fyrir kaffibarþjónakeppnina. Ég er að hugsa um að gefa honum kvöldmat sem ég nenni þó ekki að elda. Ég skal láta vita hér þegar ég veit hvort hann keppir á föstudag eða laugardag, svona fyrir þá sem vilja koma og vera stuðningsmenn hans ...

|

Ég reikna með að flytja í Kópavoginn meira og minna næstu dagana. Verð þar á matarsýningunni; Gestgjafinn er með bás og svo á ég að halda erindi og vera á fundum með norrænum kokkum og eitthvað.

Já, og svo er einkasonurinn að keppa í kaffibarþjónakeppninni. Ég á frekar von á að hann standi sig vel þar, hvort sem hann kemst í úrslit eða ekki.

Af stóra kortamálinu er það að frétta að það mun vera leyst; ég er komin með þetta fína platínudebetkort með nýrri mynd af mér og fæ innan tíðar sent nýtt gullkreditkort með nýrri mynd. Þannig að ég og bankinn erum vel sátt.

|

28.3.06

Boltastelpan varð fyrir ágjöf í gær. Hún var á fótboltaæfingu og þær voru að hlaupa meðfram sjónum fyrir framan JL-húsið þegar skyndilega kom stærðar alda á þær og það var ekki þurr þráður á henni og vinkonu hennar. Henni var svo kalt þegar hún kom heim að hún varð hálflasin og fór ekki í skólann í dag. Ég kom við í sjúkraheimsókn hjá henni en hún var að skríða saman eftir volkið.

Bróðir hennar var aftur á móti arfahress og söng hástöfum Nú er frost á Fróni en neitaði aftur á móti að syngja fyrir mig á kínversku. (Hann á kínverskan vin á leikskólanum og kann að syngja a.m.k. eitt kínverskt lag.) Svo sýndi hann mér ógnvekjandi sverð og sagði mér að það stæði á því með ósýnilegum stöfum að með því ætti að drepa víkinga.

-Þeir eru sko til á Íslandi, sagði hann með sannfæringarkrafti. Ég sagði honum að fara fram á gang og gá hvort hann sæi nokkra. En þar var bara snobbkötturinn. Líklega hefur kettinum þó ekki litist vel á sverðið og víkingabanann því að þegar ég kom fram stuttu síðar hafði hann leitað hælis í herbergi Boltastelpunnar og hreiðra um sig uppi í tveggja metra háu rúmi hennar.

Reyndar á ég bágt með að ímynda mér eitthvað sem er minna ógnvekjandi en Sauðargæran. Með eða án sverðs. En snobbkötturinn er að vísu skræfa.

|

Stóra kortamálið heldur áfram.

Þegar ég kom heim í dag beið eftir mér bréf frá bankanum mínum. Í því var tilkynning um að ég ætti hjá þeim nýtt kort og gæti sótt það ...

Ha? En ég var að fá kortið í pósti í gær ... eða hvað?

Svo las ég tilkynninguna betur. Þar stóð reyndar ,,nýja debetkortið". Kortið sem ég fékk í gær og hringdi til að nöldra yfir í morgun var hins vegar kreditkort. Hmm.

Þegar stúlkan hringdi í mig frá bankanum þarna fyrir hálfum mánuði talaði hún helling um kreditkort, var að spyrja mig um notkun mína á því og svona. Þannig að ég gekk út frá því að nýja kortið sem hún var að tala um væri kreditkortið. En kannski ekki. Kannski tók ég ekki nógu vel eftir, hver nennir líka að hlusta á bankasölufólk þegar það hringir á matmálstímum?

Svo skilaði ég inn myndinni og var sagt að það tæki líklega rúma viku að fá nýja kortið. Rúmri viku seinna fékk ég svo sent kort. Auðvitað hélt ég að það væri þá þetta nýja kort sem hún var að tala um, enda gildir gamla kreditkortið mitt fram í október og mér datt ekki í hug að bankinn væri að taka það upp hjá sjálfum sér að endurnýja það fyrir tímann. Síst af öllu þegar ég átti einmitt von á nýju korti.

Ef þetta heldur áfram þarf ég ekki að kaupa nýjar flísar á baðið. Ég get bara fóðrað veggina með kortum.

Ég skil heldur ekki alveg af hverju var hægt að senda mér kreditkortið í pósti en ég þarf sjálf að sækja debetkortið. En nú bíð ég bara spennt eftir að sjá a) hvaða mynd er á því og b) hvernig það er á litinn.

|

Ég hringdi í bankaútibúið mitt áðan og sagði frá þessu með myndina á kortinu.

-Hvenær komstu með þessa mynd? spurði konan sem ég talaði við.

Ég sagði henni það. Föstudaginn sautjánda.

-Já, það er löngu búið að framleiða þessi kort, sagði hún

-Enginn minntist á það þegar ég kom með myndina og fyllti út eitthvert eyðublað, sagði ég. -Og það var hringt í mig frá ykkur nokkrum dögum áður og talað um nýtt kort og ég sagði að ég vildi þá fá nýja mynd og var sagt að koma með hana.

-Nú, sagði hún og hljómaði eins og hún tryði mér ekki alveg. -En viltu þá hafa nýju myndina?

Dö, nei, ég kom með hana bara að gamni mínu til að sýna ykkur.

-Já, eiginlega, sagði ég. -Hin er tíu eða tólf ára gömul og ég lít allt öðruvísi út núna. Það mundi enginn þekkja mig af henni.

-Ég get svosem pantað nýtt kort, sagði hún.

-Já, gerðu það, sagði ég.

Ég bíð spennt. Einhverveginn virkaði þetta allt á mig eins og ég væri bara alls ekki jafngóður viðskiptavinur núna og ég var þegar stúlkan hringdi í mig frá bankanum þarna fyrir hálfum mánuði.

|

27.3.06

Ég var að fá sent nýja Visakortið mitt sem bankinn minn vildi endilega að ég fengi. Platínukort eða eitthvað. Allt í lagi með það, nema svo sneri ég kortinu við og hvað blasir við? Jú, gamla myndin af mér.

Ekki þessi nýja sem ég gerði mér ferð vestur í bæ með og bað sérstaklega um að yrði sett á kortið. Heldur þessi rúmlega tíu ára gamla sem er ekkert lík mér af því að þar er ég með gleraugu og sítt hár. Og af einhverri ástæðu með frekar grimmdarlegan svip á andlitinu og virðist þar að auki hálslaus af því að ég er í rúskinnsúlpu með loðkraga. Á nýju myndinni er ég stuttklippt og gleraugnalaus, mun sakleysislegri á svipinn og í flegnum bol.

Vesen.

|

Eins og sprungin blaðra. Það er lýsing sem á ágætlega við mig núna. Eins og stundum þegar erfið blöð eru frá. Ég þarf að komast í smáafslöppun.

Nema svo er fjárans sýningin (Matur 2006) um næstu helgi. Nóg að gera í sambandi við hana.

Eins gott að það er farið að styttast í páskana. Þá ætla ég til London með Boltastelpunni að gera ekki neitt. Eða sem allra minnst.

|

Ég fór að horfa á St. Elmo's Fire í gærkvöldi af rælni. Sá hana ekki á sínum tíma, of gömul til þess.

Svo gerðist það sem ég man eiginlega ekki eftir að hafi gerst í óralangan tíma: Ég slökkti á sjónvarpinu þegar myndin var sirka hálfnuð. Venjulega, þegar ég byrja að horfa á bíómynd og finnst svo frekar lítið varið í hana, þá tek ég bók eða tímarit eða tölvuna og gýt svo augunum á sjónvarpið af og til, svona til að gá hvað er að gerast.

En ég hef sjaldan séð annað eins samsafn af óáhugaverðum karakterum og þarna í gærkvöldi. Og langaði nákvæmlega ekkert að vita hver yrðu örlög þeirra.

Og ég sem horfi meira að segja á Leiðarljós svona einu sinni í mánuði til að gá hverju fram vindur þar.

|

26.3.06

Loksins tókst að koma blaðinu í prentsmiðju. Þurfti að mæta bæði í gær og dag en reyndar varð mér ekkert úr verki í gær. Allavega ekki því sem ég ætlaði að gera.

Köld kengúrusteik frá í gær með leifunum af kryddjurtasósunni sem ég hafði með rækjunum er hrein snilld. Nammi.

|

Við áttuðum okkur á því í gærkvöldi að Sauðargæran vissi ekki hvað reykingar og sígarettur eru. Hann skildi einfaldlega ekki hvað verið var að tala um. Enginn í nánasta umhverfi hans reykir (þótt þar sé mikið af fyrrverandi reykingafólki) og hann hefur líklega aldrei komist í kynni við sígarettureyk.

Það er af sem áður var.

Mér finnst ömurlegt að finna reykingalykt af börnum. En það var víst svoleiðis lykt af mínum börnum á sínum tíma.

|