Steikt og brasað
Samkvæmt því sem stendur á skjánum á þráðlausa steikarmælinum sem ég er með hér hjá mér er kjarnahitinn í svínslærinu nú 70,4°C og fer enn hækkandi þótt ég hafi slökkt þegar hann náði 66°C. Ég reikna með að hann eigi eftir að hækka dálítið enn, sem er nákvæmlega það sem hann á að gera; lærið ætti að verða bara fínt með þessu móti. Ég er líka búin að slökkva undir pottinum með nautatungunum, balsamedikkryddaða lambalærið er að fara í ofninn og á eftir steiki ég kjúklingalifrarnar í patéið. Svo set ég hörpuskelina og rækjurnar sennilega í maríneringu um miðnætti en annað bíður trúlega bara til morguns.
Það er semsagt nóg til og ég vil helst ekki þurfa að sitja uppi með mikla afganga - frystiskápurinn nærri fullur og svona - þannig að ég er að vona að það verði ekki stórhríð eða eitthvað og enginn komi.
Já, og þeir sem koma og hafa ekki komið áður: Gestirnir koma í bylgjum, stundum fyllist allt og stundum er eiginlega bara ég - ekki vera feimin ef þið komið þegar er fámennt. Það hittist bara svona á.