Ármann er að tala um fóbíurnar sínar. Þær skil ég mætavel, einkum símafóbíuna og hundafóbíuna. Það er að vísu ekki ég sem er með hundafóbíu en efnafræðistúdentinn var illa haldinn af henni hér áður fyrr og hún versnaði auðvitað um allan helming eftir að hann horfði á hund stökkva að mér og bíta mig í kálfann. En þetta hefur nú rjátlast af honum.
Símafóbía er aftur á móti fyrirbæri sem ég þekki mjög vel þótt mín sé öðruvísi en sú sem Ármann lýsir. Fyrir mig er ekkert vandamál að tala langtímum saman í síma ef því er að skipta og ef hringt er í mig á ég heldur ekki í neinum vanda með að svara og spjalla, hvort sem ég þekki þann sem hringir eða ekki. En ég á oft ákaflega erfitt með að koma mér að því að hringja í fólk, bæði bláókunnuga og fólk sem ég þekki. Og jafnvel stundum nána vini og ættingja. Eiginlega er hægt að telja á fingrum annarrar handar þá sem ég get hringt í án þess að draga djúpt andann og búa mig undir símtalið, safna kjarki, fá mér kaffibolla (og hér á árum áður sígarettu líka), og samt þarf ég stundum að gera nokkrar atrennur að símanum. Og ef ég þarf að hringja í einhvern sem ég þekki lítið eða ekkert getur það verið meiri háttar mál. Það versta sem mér er gert í vinnu eða félagsstörfum sem ég hef tekið þátt í er að láta mig hafa lista með nöfnum og biðja mig um að hringja í þetta fólk einhverra erinda. Það þýðir hjartslátt, svita, angist, nokkra lítra af kaffi (og áður fyrr auðvitað að minnsta kosti hálfan sígarettupakka), og ég verð því fegnust ef fólk svarar ekki í síma.
Það eru fyrstu sekúndurnar í hverju símtali sem eru erfiðastar. Á meðan ég er að kynna mig, fá á hreint að ég sé að tala við rétta manneskju, koma á sambandi. Eftir það er yfirleitt allt í lagi, sama hvert erindi mitt er. Þá get ég átt langt spjall um merkilega eða ómerkilega hluti án þess að finna fyrir nokkru. En aðdragandi og byrjun símtalsins geta verið mikið átak og ég hef oft gengið ansi langt til að forðast slíkt. Tekið að mér alls konar verkefni til þess að komast hjá því að hringja í aðra og biðja þá um að vinna þau. Keypt bunka af happdrættismiðum í sama tilgangi. Spunnið upp ýmsar sögur til að komast hjá því að viðurkenna þessa fóbíu mína fyrir öðrum, af því að það er auðvitað rétt hjá Ármanni að þeir einu sem skilja fóbíur eru þeir sem þekkja þær af eigin raun.
Tölvupóstur er auðvitað himnasending fyrir fólk eins og mig. Það er hægt að komast hjá ansi mörgum símtölum með því að nota tölvupóst. Ég hef meira að segja átt erfitt með að hringja í saumaklúbbinn minn til að boða þær til mín, og er ég þó búin að þekkja stelpurnar í að minnsta kosti hátt í þrjátíu ár. Núna fara allar boðanir fram gegnum póstlista, nema hvað ein í hópnum notar ekki tölvu og það þarf að hringja í hana. Seinast þegar við hittumst hjá mér fékk ég Gunnu systur til að hringja í hana fyrir mig undir einhverju yfirskini.
Það er ekki síminn sem slíkur, eða símtölin sjálf, sem eru málið. Ég hef meira að segja ráðið mig í vinnu við að svara í síma og þegar síminn minn hringir svara ég honum umhugsunarlaust. En fólk veit ekki hvað það er að gera mér þegar það segir ,,viltu ekki bara hringja í hann ...", ,,hringdu í þessar manneskjur og biddu þær að koma", eða eitthvað slíkt. Ef ég veit aftur á móti að fólk á von á símtali frá mér er þetta yfirleitt ekkert mál.
Þetta gerir mér lífið ekki beint auðveldara. En það var allavega mun erfiðara áður, þegar ég var að reyna að fela fóbíuna.