Humarhúsið í gærkvöldi, já. Byrjaði á ,,amuse bouchée" (sorrí, man ómögulega íslenskt heiti - svona smáglaðningur frá kokkinum áður en máltíðin byrjar), litlar örþunnar ristaðar snittur með hrúgu af einhverjum hrognum sem ég er ekki viss á að þekkja og gleymdi að spyrja um. Þau voru ágæt en þriðjungurinn af þeim hrundi ofan í hálsmálið á bolnum mínum og niður í brjóstaskoruna og ég var enn að finna þau þar í morgun.
Svo fengum við fimmréttaða máltíð sem kokkarnir völdu ofan í okkur: Fyrst laxatartarturn og utan um var sneið af soja-engifergröfnum laxi. Fínt en mér fannst samt vanta punktinn yfir i-ið. Svo humarsúpa borin fram í mokkabolla, mjög góð. Með þessum réttum drukkum við Bollinger. Síðan kom parmaskinka með dvergspergli og spergilsósu, alveg ljómandi. Skiptum yfir í Rioja-vín sem ég er búin að gleyma nafninu á. Aðalrétturinn var andarbringa og humar, borið fram með rótargrænmetismauki sem okkur fannst vera sæt kartafla en reyndist vera gulrót. Við vorum ekki sammála um hvaða krydd væri notað og spurðum þjóninn. Hann kom til baka með þau skilaboð að það væri svartur pipar og kardimomma. Við vorum ekki alveg sáttar við það og sendum annan þjón til að yfirheyra kokkana; þá fengum við þær upplýsingar að þetta væri svartur pipar, kardimomma og ,,ýmislegt". Fair enough. Maukið var allavega mjög gott. Reyndar er ég yfirleitt lítið hrifin af svona ,,surf'n'turf"-réttum þar sem verið er að blanda saman kjöti og fiskmeti, en þarna voru bæði öndin og humarinn hárrétt elduð og meðlætið mjög gott, svo að ég borðaði bara hvort í sínu lagi og var ekkert að blanda því saman, og var mjög sátt við það. Mjög fínt
Eftirrétturinn, eins konar sjeik (reyndar ís í háu glasi með fullt af sósu) var góður en átti einhvern veginn alls ekki heima þarna, ekki á eftir því sem á undan fór eða í þessu umhverfi. Skammturinn var líka mjög stór. Eftir á að hyggja hefðum við átt að sleppa honum og fara beint í kaffið sem kom á eftir og var ljómandi gott, ekki síst með koníakinu og heimalagaða konfektinu sem fylgdi með.
Svo skiptum við um gír og litum inn á Mixx-kynningu á Borginni. Ég kem þangað ekki oft nú orðið. En þegar ég leit inn í salinn fannst mér eitt andartak að það væri árið 1979 og skildi ekkert hvað var orðið af diskókúlunni í loftinu. Þaðan lá náttúrlega leiðin á Vínbarinn, þar sem ég fann ekki fyrir jarðskjálfta og veit ekki hvort aðrir gerðu það; allavega minntist enginn á jarðskjálfta í mín eyru.
Þetta var nokkuð gott kvöld.