Af hverju þarf alltaf allt að hrúgast á sama tíma? Núna erum við að skila af okkur stóru blaði og aukablaði, svo er Food n' Fun og við erum á fullu þar, erum búnar að fara á milli staða tvö-þrjú síðustu kvöld og raða í okkur, svo er matreiðslukeppnin í Smáralind í dag þar sem við verðum allavega að fylgjast með, galadinner í kvöld og áhugamannakeppni í Smáralind á morgun, þar sem ég er búin að dragast á að vera á meðal dómara. Og svo er mitt árlega bollukaffi á morgun og ég þarf að undirbúa það.
Ókei, það eru líklega ýmsir sem eiga við verri og óskemmtilegri vandamál að stríða en ég.
Við fórum þrjár í gærkvöldi á Argentínu, þar sem Volker Drkosch (hvernig ber maður þetta fram?) er að elda. Það var frábært en mjög ólíkt hinum tveimur máltíðunum sem ég hef borðað á Food n' Fun, miklu meira komplex. Forrétturinn var þrenns konar hörpuskel: steikt hörpuskel á rauðrófubeði með smá osso buco, hörpuskeljartartar á stökksteiktri kartöfluflögu og hörpuskeljarcarpaccio á límónu-créme brûlée - þetta síðastnefnda var ,,áhugavert" - ekki vont en of mikill eftirréttur fyrir okkar smekk - en hitt var hvorttveggja mjög gott. Þá fengum við pocherað egg á klettasalats-risotto og ristaða brauðflís með reyktri andabringu með - virkilega fínn réttur, raunar alveg æðislegur en eina umkvörtunarefni okkar var að það var eiginlega of mikið af honum (já, ég veit, maður er nú oftar að kvarta yfir að fá ekki nóg af einhverju sem er mjög gott en þarna áttu orðin ,,of mikið af því góða" dálítið bókstaflega við).
Aðalrétturinn var svo grillað lamb - óhætt að treysta Ingvari og hans fólki fyrir því - og tvenns konar sósur eða mauk með. Önnur var mintu-jógúrt-gúrkusósa, ekkert óvenjuleg, en hin var eiginlega toppurinn á máltíðinni, tómat-vanillusósa sem var alveg meiriháttar og kokkurinn, sem kom að borðinu og spjallaði við okkur á meðan við biðum eftir eftirréttinum, sagði okkur að hann væri með á veitingastaðnum sínum í Frankfurt bæði með humri og spergli. En hún var að svínvirka með grillaða lambinu og aldrei að vita nema fari í gang einhverjar tilraunir í sósugerð þegar líður að útkomu grillblaðs Gestgjafans.
Eftirrétturinn var þrenna, Valrhona súkkulaðisorbet - mjög létt og gott - og lítil súkkulaðikaka með mjúkri miðju, sem ég hef fengið á ansi mörgum veitingahúsum að undanförnu og síðast á Tjörninni kvöldið áður, en þessi var alveg í betri kantinum. Ekki síst með tóbaksísnum sem var borinn fram með henni. Mjög sérkennilegur, þegar maður smakkaði hann var þetta ágætis ís en ekkert sérstakt bragð af honum, svo á annarri eða þriðju skeið kom þetta greinilega píputóbaksbragð sem eimdi lengi eftir af í munninum og rifjaði upp minningar frá því þegar ég reykti pípu í einn vetur fyrir tuttuguogfimm árum eða svo. En ekki vont. Hreint ekki.
Þetta var semsagt mjög fínt allt saman og vínin sem við drukkum með og ég kann ekki að nefna af því að ég er vonlaus í að muna nöfn á vínum spilltu hreint ekki fyrir. Einkum var Merlotið sem við drukkum með lambinu gott. Þetta er allavega kokkur sem við komum til með að fylgjast vel með í matreiðslukeppninni á eftir, hann var að segja okkur hvað hann ætlaði að elda og það hljómaði mjög spennandi. En þeir verða nú fleiri með spennandi rétti svo að ég hlakka mikið til að fylgjast með öllu saman.
Það eru engin verðlaun fyrir að geta upp á hvar kvöldið endaði hjá okkur. Þar sátum við langa stund og ræddum við Jóa í Ostabúðinni um mat og ekkert nema mat. Ég sagði honum hvað mér þætti æðislegt að hafa búðina hans þar sem hún er af því að ég geng framhjá henni á hverjum degi og hún er minn skyndibitastaður. Hann sagði að hann sæi mig fara framhjá (eða koma inn) á hverjum degi og hugsaði þá alltaf ,,þarna er Nanna, þá er kominn tími til að fara að undirbúa lokun". Sem er náttúrlega della, svo stundvís er ég ekki.
En verslið endilega við Jóa sem oftast, hann er hugsjónamaður þegar matur er annars vegar.