Þetta var skemmtilegt.
Alsace, hvítvín, póstkortalandslag, hvítvín, flammkuchen, hvítvín, foie gras, hvítvín, vínekrur, hvítvín ... hmmm, já, og meira hvítvín. Sylvaner, pinot blanc, riesling, pinot gris, muscat, gewurztraminier. Smakkaði líklega hátt í 60 tegundir. Svotil allar góðar. Eða mjög góðar. Eða himneskar.
Við heimsóttum Domaine Weinbach, Dopf & Irion, Trimbach, Pfaffenheim, René Muré, Léon Beyer og Paul Blanck. Frábær samsetning og einstaklega skemmtilegar heimsóknir. Og nú veit ég allt (eða nei, en mun meira en áður) um sylvaner, pinot blanc, pinot gris, riesling, gewurztraminer og muscat. Helst hefði ég viljað koma heim með minnst kassa af víni frá hverjum framleiðanda en lét þó (því miður) nægja að koma með Domaine Weinbach Pinot gris 2004 og Pinot gris Vendanges Tardives 2002 og Clos St. Landelin (René Muré) Pinot gris 2003 og Gewurztraminer Vendanges Tardives 1998. Og Pfaffenheim Black Tie 2004, sem við fengum gefins, það er blanda af pinot gris og riesling. Hmm, það er athyglisverð pinot gris-slagsíða á þessu. Það var samt eiginlega óvart. Eins og ég segi, ég hefði alveg viljað koma heim með fleiri vín. Þá er bara að fara aðra ferð seinna ...
Allavega, þá fer ég örugglega í aðra vínsmökkunarferð með
Vínskólanum áður en langt um líður. Hvert sem það verður þá, það er af nógu að taka.