Verslunarmannahelgi ... á ég nokkuð að vera að rifja upp minningar frá því í fornöld? Ekkert of ítarlegt allavega. Svosem ekkert eftirminnilegt heldur, og verslunarmannahelgardjammferill minn var stuttur.
Miðgarður/Húnaver '72, þangað fórum við sex stelpur saman og gistum við Miðgarð í fjögurra manna tjaldi sem við sváfum svo minnst tíu í - það safnaðist að okkur töluvert af Skagamönnum og eins og einn Ísfirðingur sem aldrei var kallaður annað en Horses af því að þegar hann vaknaði hjá okkur fyrsta morguninn og fattaði að hann var vitlausu megin við Vatnsskarðið talaði hann um að hann þyrfti að finna sér horses til að komast yfir í Húnaver.
Ég man að það var mikið rifist um Fischer og Spasskí þessa helgi, skákeinvígið stóð enn yfir. Ég man að við Króksstelpurnar héldum fyrst að Skagastrákarnir væru utan af Skaga og úr því varð töluverður misskilningur sem Reykjavíkurstelpurnar í hópnum gátu þó leiðrétt. Ég man að við borðuðum óhugnanlegt magn af frönskum kartöflum.
Miðgarður '73. Það var verslunarmannahelgin sem allir voru í Miðgarði. Jæja, kannski ekki allir, en það voru ef ég man rétt seldir 1400 miðar á laugardagsballið. Þarf varla að taka það fram að það komast ekki 1400 manns í húsið. Ég man ekki einu sinni með hverjum ég var í tjaldi, kannski Siggu Dúnu - en ég var alla helgina í slagtogi við Ingva Stefáns og Tóta töfrahippa, við gengum um og seldum hóffjaðraarmbönd og þegar markaðurinn var mettaður í Miðgarði á sunnudaginn tókum við leigubíl til Akureyrar, fengum okkur snitsel á Teríunni, fórum á KEA-barinn og enduðum inni í Hrafnagili þar sem var einhver bindindisútihátíð. Fengum að gista í litlu tjaldi hjá tveimur stelpum, svefnpokalaus og allt, það hellirigndi, stelpurnar höfðu tjaldað í halla og ég rann ofan í poll og vaknaði þar. Sjaldan verið jafnkalt á ævinni. Einhvern veginn komumst við út á Akureyri og strákarnir pöntuðu leiguflugvél suður - alltaf flottir á því - ég hafnaði öllum boðum um að koma með þeim til Súðavíkur og leitaði í staðinn á náðir lögreglunnar á Akureyri, sem þurrkaði fötin mín, lánaði mér rúm (ekki í steininum), hlýtt teppi og glæpareyfara að lesa á meðan ég beið eftir kvöldrútunni í Varmahlíð. Þaðan fór ég á puttanum heim.
Þessar verslunarmannahelgar dugðu mér eiginlega fyrir lífstíð. Árið eftir, 1974, var gagnlega barnið fætt og var skírt um verslunarmannahelgina. Gunna systir skildi ekkert í mér að fara svona með tvær helstu djammhelgar ársins - eiga barn í Sæluviku, láta skíra það um verslunarmannahelgi.