Best að ég svari fyrirspurnum og ábendingum sem komu fram í kommentunum í gær hér í einu lagi. Haldið samt endilega áfram að koma með ábendingar, þær eru alltaf vel þegnar.
Hnúðkál er sama og kohlrabi og það er hægt að gera ansi margt við það. Það er hægt að rífa það niður í salat, skera það í teninga og steikja á pönnu, skera það í sneiðar og steikja eða baka (gott að forsjóða það í nokkrar mínútur ef á að steikja það eða gratínera), skera það í bita og ofnsteikja eitt sér eða með öðru rótargrænmeti, vefja því í álpappír og grilla það, skera það í stauta eða bita og léttsjóða það, nota það í súpu eða grænmetiskássu ... Hnúðkál er gott að bragðbæta t.d. með graslauk eða vorlauk, dilli, esdragoni, engifer, einiberjum, hvítlauk, sinnepi og balsamediki.
Við vorum með blað í sumar (8. tbl.) sem var kallað græna blaðið og þar var töluvert af grænmetisréttum og líka réttir þar sem grænmeti var uppistaðan þótt eitthvað væri af kjöti eða fiski. Svona blað stefnum við á að vera með á hverju ári. Næsta blað þar á eftir, 9. tbl., er svokallað uppskerublað og þar er líka mikið af grænmetisréttum. Reyndar byrjuðum við einu sinni með þátt sem hét ,,grænmetisréttur mánaðarins" en ég held að við höfum fljótt komist á þá skoðun að það væri svo mikið af grænmetisréttum í blaðinu nú orðið að það væri kannski ekki ástæða til að taka einn þeirra út sérstaklega og þegar við fengum utanaðkomandi til að sjá um þetta fyrir okkur skáru þeirra réttir sig ekkert úr. Þetta finnst mér ánægjuleg þróun en betur má ef duga skal og mér finnst ekki ólíklegt að við komum til með að leggja enn meiri áherslu á grænmeti á næstunni (ekki samt í kökublaðinu).
Fylgirit eða önnur umfjöllun um framandi grænmeti og ávexti kemur vel til greina og við höfum reyndar verið að velta slíkum hugmyndum á milli okkar; ég var farin að undirbúa stóran þátt um hitabeltisávexti fyrr á þessu ári en af ýmsum ástæðum varð ekkert af því þá. Ég kem þessu á framfæri.
Ég er sérstök áhugamanneskja um innmat og rétti eldaða úr honum. Reyndar skrifaði ég grein í Gestgjafann fyrir tveimur árum um þetta - ja, reyndar aðallega um svið og eldamennsku á þeim um víða veröld, en svo fylgdu líka með nokkrar uppskriftir að innmat. Þetta er allt hægt að lesa inni á
lambakjot.is og þar ætla ég reyndar að setja inn meira efni um innmat og eitthvað af uppskriftum á allra næstu dögum.
Við erum að plana aukablað eða allavega ítarlega umfjöllun um sykurlaust, hveitilaust, eggjalaust, kolvetnalaust og allt-mögulegt-laust bakkelsi.
Súkkulaði? Væla, auðvitað verður súkkulaðigrein. Því dekkra, þeim mun betra ...
Og svo er hér loksins uppskrift að súpu sem ég var beðin um fyrir löngu. Ekki veit ég hvort hún er neitt lík því sem fyrirspyrjandinn var að leita að en mig minnir að þetta sé ágætis súpa.
Blaðlauks- og kartöflusúpa
50 g smjör
4-5 hvítlauksgeirar
600 g blaðlaukur, aðeins hvíti hlutinn, skorinn í sneiðar
600 g bökunarkartöflur, afhýddar og skornar í bita
1 tsk timjan, þurrkað
nýmalaður pipar
salt
1 l kjúklingasoð (eða vatn og góður kjúklingakraftur)
100 ml matreiðslurjómi
2 msk graslaukur, saxaður (eða steinselja eða aðrar kryddjurtir)
Smjörið brætt í stórum, þykkbotna potti, hvítlaukurinn og blaðlaukurinn settur út í og látinn krauma við vægan hita undir loki í um 15 mínútur; hrært nokkrum sinnum á meðan og svolitlu vatni bætt við ef þarf. Þá er kartöflunum bætt í pottinn ásamt timjani, pipar og salti. Soðinu hellt yfir, hitað að suðu, pottinum lokað og látið malla við vægan hita í um hálftíma. Þá er súpan maukuð í matvinnsluvél eða blandara í nokkrum skömmtum og síðan sett aftur í pottinn. Rjómanum hrært saman við, súpan smökkuð til með pipar og salti og síðan er graslauk, steinselju eða öðrum kryddjurtum stráð yfir og hún borin fram, gjarna með ristuðum brauðteningum.