Stundum les maður eða heyrir ókunnugleg orð sem geta hljómað eins og hálfmisheppnuð eða klúðursleg þýðing yfir á íslensku, oftastnær þá úr ensku. Kemst svo að því seinna að orðið er góð og gild íslenska - eða að minnsta kosti gamalt í málinu, sem þarf svosem alls ekki að þýða það sama. Það sem er gamalt þarf ekkert endilega að vera skárra, þótt kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins virðist reyndar hafa verið á þeirri skoðun.
Beggi flaskaði til dæmis á þessu um daginn með orðið hríð(ar)fastur, sem óneitanlega minnir á orð eins og snowbound. Og svo rakst ég áðan á Málefnunum umræðu um orðið dauðamaður, sem sást víst í einhverri Moggafrétt og var haft um dauðadæmdan fanga í Texas (dead man, heitir það á ensku, sbr. Dead Man Walking). Þetta var kallað afkáralegt nýyrði og fleira. Afkáralegt kannski, en ekki meira nýyrði en svo að Hallgrímur notaði það í Passíusálmunum:
Ertu guðs son? þeir sögðu.
Svaraði drottinn: Já.
Djarfir þann dóm á lögðu:
Dauðamaður er sá.
Þetta hefst nú af því að vera með Hallgrímskirkju í návígi við eldamennskuna upp á hvern dag: Maður þekkir sína Passíusálma.