Spurning: Hringir pósturinn tvisvar?
Ég var að átta mig á því (já, pósturinn kom rétt áðan) að ég hef aldrei komist að þessu. Annaðhvort svara ég á fyrstu hringingu eða ég er ekki heima. Nú er ég viss um að ég verð ekki í rónni fyrr en ég veit þetta. Bara spurning hvernig ég á að komast að þessu ... Reyndar á ég von á annarri sendingu á næstu dögum og ég var áðan að ákveða að ef dyrabjöllunni yrði hringt ætlaði ég að líta út um gluggann og ef ég sæi póstbíl ætlaði ég ekki að svara, heldur bíða og gá hvort pósturinn hringir nokkuð tvisvar. Svona til að skera úr um þetta í eitt skipti fyrir öll.
En svo rann upp fyrir mér að pósturinn kemur örugglega á morgun og þá er ég hvorteðer ekki heima, er búin að lofa mér á Vínbarinn. Þannig að þetta verður óupplýst.
Það voru nú bara þrjár bækur í þessari sendingu: Saturnalia eftir Lindsey Davis, nýjasta bókin um rómverska einkaspæjaran Falco; Monsieur Pamplemousse Hits the Headlines eftir Michael Bond (höfund bókanna um bangsann Paddington); og egypsk matreiðslubók sem ég er lengi búin að bíða eftir.
Ég opnaði hana af handahófi og að sjálfsögðu er fyrsta uppskriftin sem blasir við mér Fried Lamb Organs. Með flottri litmynd af lambalungum og barka og hálfum tómat til skrauts. Á næstu síðu er Boiled Brain, Breaded Fried Brain og Baked Head of Lamb (Clean the head from the outside. Split in two, keeping the brain inside. This is a difficult task to do at home so it is advisable to ask a butcher to do it.) Svo var uppskrift að ,,Coccyx and Tail Casserole"; ég þurfti nú að fletta coccyx upp, hef aldrei séð það áður í uppskrift á ensku svo ég muni.
Líst vel á þessa bók.