Hvað er þetta eiginlega?
Ég átti smáerindi í Kringluna í dag. Kíkti í leiðinni á útsöluna í Hagkaupum og fann nokkra smáhluti sem mig bráðvantaði (ja ...). Svo rak ég augun í snotran borðdúk sem var á 70% afslætti sem jóladót þótt þetta væri ekkert endilega jóladúkur (allavega engin hreindýr eða stjörnur eða jólatré á honum) og mundi þá að allir stærri dúkarnir mínir eru í ,,dót sem þarf að strauja"-hrúgunni og ég er ekkert á leiðinni að nenna að strauja svo að ég reddaði málinu með því að kaupa bara nýjan dúk. Svona ef ég skyldi sjá ástæðu til að dúka borð á næstunni.
Spurning samt með að nota tækifærið og horfa á áramóta-Silfrið hjá Agli og strauja á meðan. Silfrið hentar vel fyrir straujun, það er reynsla fyrir því. Ég hef bara ekki horft á Silfrið nýlega og þarafleiðandi ekki straujað.
En allavega, þar sem ég stóð við kassann að borga varð ég vör við einhverja panik hjá stelpunni sem var að afgreiða á kassanum við hliðina. Svo kom hún til þeirrar sem var að afgreiða mig með eitthvað í höndunum, sýndi henni það og spurði: -Hvað er þetta eiginlega? Er hægt að borga með svona? Má ég taka við þessu?
-Jaaaá, þetta gildir nú alveg, sagði hin.
-En hvernig geri ég? spurði sú fyrri.
-Æi, það hef ég ekki hugmynd um, sagði hin. -Aldrei fengið svona. Bíddu, ég ætla að ná í (x). Hann kann allt.
Svo lauk hún við að afgreiða mig og fór svo að leita uppi manninn sem kunni allt. Meira að segja að taka við greiðslu með ávísun.