Þegar ég var að skrifa færsluna hér á undan rifjaðist upp fyrir mér atvik frá því að berklafaraldurinn kom upp í MA hér um árið - 1975 líklega - þá sátum við nokkur inni á herberginu hans Helga Skútu og ég fór að tala um að það væri alltaf í mér svolítill óhugur gagnvart berklum af því að amma mín hefði heitið Nanna og dáið úr berklum kornung.
- Það er skrítið, sagði einn vinur minn. - Amma mín hét líka Nanna og dó úr berklum frekar ung.
Eftir smástund höfðum við komist að því að við vorum fjórmenningar.
Sum frekar fátíð nöfn eru auðvitað oft bundin við ákveðnar ættir (eða héröð, í þessu tilviki Þingeyjarsýslu, þar sem Nönnunafnið var lengi vel margfalt algengara en annars staðar) en ég held að Úlfarnir tveir séu alveg óskyldir, eða að minnsta kosti ekki nær en í sjöunda lið. Allavega veit ég ekki um aðra Úlfa af Djúpadalsætt, hvað sem um aðrar ættir drengsins er að segja (þá undanskil ég reyndar Grímúlf bónda í Geirhildargörðum).
Reyndar man ég í fljótu bragði bara eftir einu nafni sem er alfarið bundið við Djúpadalsætt og þekkist ekki utan hennar; það er nafnið Herfríður. Valgerður langalangamma mín lét eina dóttur sína heita Herfríði Jóhönnu í höfuðið á þremur eldri systrum hennar, Herdísi, Hólmfríði og Jóhönnu, sem dóu ári áður en hún fæddist, ég held allar í sömu vikunni. Fimm, fjögurra og eins árs. Hún var skæð, barnaveikin. Herfríður litla lifði ekki nema árið og af systkinunum ellefu komust aðeins þrjú þau elstu upp.
Guðrún systir Valgerðar langalangömmu lét dóttur sína heita Herfríði en hún lifði stutt. Tvö af börnum Guðrúnar gáfu svo dætrum sínum Herfríðarnafn og þær stúlkur komust báðar upp og önnur lifir enn. En fleiri hafa nafnberar ekki verið.
Mér finnst Herfríður tilkomumikið nafn en held að ég mundi ekki nota það sjálf.