Auðvitað held ég með Moldövunum.
Við ömmurnar stöndum auðvitað saman.
Kannski það sé samsæri ...
Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu
Það hringdi maður áðan og spurði hvort ég væri ekki örugglega sú Nanna sem hefði verið að panta tertu hjá sér.
Ég var að skoða auglýsingu frá Rúmfatalagernum sem var borin út núna í vikunni og þar sá ég meðal annars þetta:
Eitt sem ég gleymdi að nefna með Fjalaköttinn: Ég var nokkuð ánægð með vínseðilinn. Þarna er verið að bjóða upp á ágætt úrval af vínum á hóflegu verði (svona miðað við íslensk veitingahús) og tekið fram við hvert og eitt vín með hverju vínþjónninn telur að það henti best, þannig að það þarf enginn að óttast að gera sig að fífli jafnvel þótt hann sé ekki í för með Þorra Hringssyni eða einhverjum ámóta víngúrú ...
Fór á veitingahúsið Fjalaköttinn í gærkvöldi (á meðan allir hinir voru að horfa á Evróvisjón, heyrist mér) og fékk þar alveg ágætis mat, góð vín og mjög góða þjónustu. Umhverfið spillti heldur ekki fyrir og ég get alveg mælt með staðnum. Mjög ánægjulegt kvöld eftir erfiða vinnutörn.
Langur dagur í gær. Ég mætti í vinnuna upp úr átta og fór ekki heim fyrr en hálftvö í nótt. Blaðið er reyndar ekki alveg búið enn. En þetta er nú allt að koma.
Ég sé fram á að verða í vinnunni eitthvað fram eftir kvöldi, grillblaðið er á lokasprettinum og fer vonandi að mestu leyti frá okkur í kvöld. Jæja, blessaður drengurinn sveltur allavega ekki, það er svo mikið til að borða heima eftir grillmyndatökuna í gær - kótelettur, kjúklingur, hamborgari og fleira og svo er enn einhver afgangur af nautalundinni, merkilegt nokk.
Ég var í stuttu útvarpsviðtali áðan þar sem rætt var um fífla og fleira. Ég bíð (óspennt) eftir að heyra alla fimmaurabrandarana sem afkomendur mínir munu hafa að segja um fíflaviðtöl og þess háttar.
Ljósmyndarinn kom fyrir rest. Áður en maturinn varð ónýtur. Efnafræðistúdentinn fékk kvöldmatinn sinn. Allir sáttir. Meira að segja ég en það er bara vegna þess að það eru til jarðarber og hvítt súkkulaði. Ég kann frekar vel að meta jarðarber og hvítt súkkulaði. Líka ljóst og dökkt súkkulaði, reyndar. Já, og hindber. Og bláber og brómber og ...
Fyrirsætur þola alveg að bíða í klukkutíma málaðar og uppdressaðar ef ljósmyndarinn tefst án þess að láta á sjá að ráði. Eða það ímynda ég mér, ég er svosem ekkert inni í fyrirsætubransanum. Nema náttúrlega það sem ég hef lært af að horfa á Americas Next Top Model.
Við fórum í fyrstu pikknikferð sumarsins í dag. Mín fræga pikknikkkarfa (2. útgáfa) var auðvitað með í för og við borðuðum nestið á Þingvöllum í sólskini, næstumþví logni og sæmilegum hlýindum. Sauðargæran var mjög kátur með þetta allt saman, sá steinrunnin tröll í hverjum kletti og var að skima í kringum sig eftir útilegumönnum, einkum þó í Henglinum, þar sem við fórum Nesjavallaleið heim.
Við dóttursonurinn bökuðum eplaskífur í morgun. Hann hrærði deigið, ég steikti skífurnar. Svo sporðrenndi hann að minnsta kosti tíu stykkjum. Ætlaði að borða seinustu tvær skífurnar sem eftir voru líka en ég sagði honum að hann skyldi geyma þær til að bjóða foreldrum sínum þegar þau kæmu að ná í hann til að sýna hvað hann væri duglegur bakari. Sem hann líka gerði, þau fengu tvær eplaskífur og bara búið að bíta í aðra.