19.7.08
Stóra spurningin
Ég er ekki enn búin að fara með jólatrésfótinn niður í geymslu. Tók tréð niður á þrettándanum en fóturinn er búinn að vera uppi á þvottavélinni síðan. Alltaf á leiðinni með hann niður.
Tekur því að gera það úr því sem komið er?
Bronsdrottningin
Mikið væri nú gaman að sjá Merlene Ottey á einum Ólympíuleikum enn. Þótt hún sé ólíkleg til að bæta við verðlaunapeningasafnið ...
Á siðustu leikum hefði hún getað verið mamma flestra eða allra sem hlupu með henni í riðli. (Þær tvær sem urðu á undan henni í milliriðli í voru yngri en hún - samanlagt.) Núna gæti hún líklega verið amma sumra keppendanna.
Veit annars einhver hvort Ottey fékk ein Ólympíubronsverðlaunin enn í fyrra, eftir að Marion Jones var svipt gullinu frá Sidney 2000? Þá var Ottey í fjórða sæti ef ég man rétt.
18.7.08
Skúringastúlkan og afmælisdrengurinn
Boltastelpan kom hér áðan og skúraði gólf fyrir ömmu sína af miklum röskleika; þaulvön skúringum bæði heimanað frá sér og úr bakaríinu. Mér skildist reyndar á henni á sínum tíma þegar hún hóf störf í bakaríinu að þá hefði það þótt tíðindi að hún skyldi kunna að skúra, unglingar kunna það víst fæstir.
Annars er hún að fara til Danmerkur á sunnudaginn að keppa á fótboltamóti. Veit reyndar ekki hvað hún kemur til með að spila mikið, er búin að eiga í meiðslum (helvítis íþróttabölið) en er að jafna sig. Þangað til hún slasar sig næst.
Hún verður úti á sjö ára afmæli bróður síns í næstu viku en það verður reyndar líklega ekki hægt að halda upp á það fyrr en um miðjan ágúst vegna fjarveru ættingja. Þegar ég var yngri öfundaði ég alltaf þá sem áttu afmæli á sumrin en nú skilst mér að það sé ekki gott að eiga afmæli um hásumarið. Ekki ef maður er sjö ára allavega. Jafnvel verra en eiga afmæli um jól og áramót.
Ég keypti gjafir handa afmælisdrengnum í London en ætli ég verði ekki að afhenda honum þær núna um helgina því hann verður sennilega norður á Ströndum á afmælisdaginn. Eða á Skagaströnd eða Sauðárkróki, hver veit. Byrjar á S allavega.
Ég verð aftur á móti í bænum.
Hressing handa Ronnie
Fyrst ég minntist á Ronnie Wood í gær, þá er hér uppskrift frá konunni hans, Jo Wood, úr bókinni Naturally. Ef Ronnie fær að koma heim aftur (ekki tæki ég við honum) veitir honum örugglega ekki af styrkjandi súpu:
Linsubauna- og skessujurtarsúpa
1 lítill laukur, saxaður
2 msk jómfrúarolía
250 g litlar linsubaunir, skolaðar
1 l gott grænmetissoð, heitt
2 heilir hvítlauksgeirar
250 g skessujurt, þvegin og söxuð
2 tómatar, flysjaðir, fræhreinsaðir og saxaðir
salt
nýmalaður pipar
Laukurinn látinn krauma í olíunni í þykkbotna potti þar til hann er glær. Linsurnar settar út í og látið krauma í 5 mínútur; hrært oft. Sjóðandi soðinu hellt yfir, hvítlauksgeirunum bætt út í og látið malla undir loki í 20 mínútur. Þá er skessujurt, tómatar og salt sett í pottinn og látið malla í um hálftíma í viðbót. Hvítlauksgeirarnir fjarlægðir og súpan bragðbætt með nýmöluðum pipar og e.t.v. meira salti. Sneið af ristuðu brauði sett á hvern súpudisk og heitri súpu ausið yfir.
17.7.08
Þættir úr pastasögu
Í framhaldi af pastaumræðum hér neðar, þá fletti ég upp í nokkrum gömlum matreiðslubókum að athuga hvaða pastauppskriftir væri þar að finna. (Orðið pasta kemur fyrst fyrir í ritmálsskrá Orðabókarinnar 1978.)
Byrjaði þó á Kvennablaðinu; 1895 er talað um soðsósu sem bera megi fram með makkarónum o.fl. (það er elsta dæmið um orðið makkaróna í ritmálsskránni). 1899 er talað um hvað sé til ráða ef makkarónur eru ofsoðnar og 1902 er fiskisúpa borin fram með makkarónum (þær virðast ekki vera settar út í).
Í Kvennafræðara Elínar Briem, 4. pr. frá 1911 (ég athugaði ekki eldri útgáfur) er t.d. uppskrift að makaróni í jafningi, sem er ,,búið til á sama hátt og kartöflur í jafningi" og sennilega notað á sama hátt. Þar er þó greinilega ekki um litlar, sveigðar makkarónur að ræða, heldur makkarónupípur, því talað er um að makaróníið sé brotið í sundur fyrir suðu.
Hér er líka makarónísúpa, en það er ekki mjólkursúpa, heldur þykk, uppbökuð hveitisúpa úr kjötsoði og sagt að í hana megi láta kjötsnúða eða mjölsnúða. Núðlumjólk er aftur á móti mjólkursúpa krydduð með kanel, áþekk makkarónusúpu/mjólk, en ekki veit ég hvernig núðlurnar voru.
Matreiðslubók Jóninnu Sigurðardóttur (2. útg. 1916 og 3. útg. 1927) - þar er mjólkursúpa/grautur sem heitir makarónuvellingur í eldri útgáfu en í hinni stenglusúpa. Stenglurnar eru brotnar í sundur svo að þetta eru greinilga makkarónupípur líka. Hér er líka uppskrift að kjötsnúðum með makaróní/stenglum en það eru kjötbollur þar sem soðnum og söxuðum makkarónupípum er blandað saman við hakkað, soðið saltkjöt og fleira, bollur búnar til og ,,soðnar í tólg við góðan hita". Svo eru hér (1927) stenglubaut (makkaroní-böff), þar sem stenglurnar eru soðnar í mjólk þar til kominn er þykkur grautur, sem er svo hellt í mót og látinn stífna, skorinn í sneiðar sem eru brúnaðar á pönnu og borðaðar með kartöflum. Stenglubitar í jafningi eru makkarónupípur, soðnar (í hálftíma) og blandað saman við uppbakaða mjólkur- eða soðsósu - þetta er meðlæti með kjötmat, soðnu slátri o.fl. Stenglur í hörpudiskum eru makkarónupípur sem blandað er saman við uppbakaða mjólkursósu ásamt hangikjöti eða fleski, sett í hörpudiska, stífþeyttar eggjarauður settar ofan á og bakað (þetta er fínn veisluréttur). Stenglusalat er saxaðar makkarónur í piparrótarrjóma.
Lærið að matbúa eftir Helgu Sigurðardóttur frá 1934: Makkarónímjólk (undanrenna, makkarónustengur, salt og sykur). Makkarónísalat - makkarónustengur (og hér stendur: Einnig er fallegt að nota makkaróní, sem er í kuðungum eða öðrum smábitum), piparrótarrjómi, ,,1 rauðaldin og grænt".
Helga segir: ,,Oftast er makkaroni í stöngum, stundum í kuðungum eða skeljum. Það er mjög nærandi, frekar ódýrt og létt að melta, ef það er rétt soðið. Það er borðað með kjöti og fiski, einnig haft í súpur og búðinga." ,,Rétt suða" er skv. Helgu 20 mínútur.
Í Matreiðslubók Helgu Thorlacius frá 1940 er uppskrift að tómatsúpu sem er framreidd með hrísgrjónatoppum, ristuðum brauðteningum eða makkaroní, en það er þó ekki í uppskriftinni. Þar er líka makkaroní í jafningi, soðið í saltvatni í hálftíma og áður en það er framreitt er hellt yfir það bræddu smjöri og rifnum osti stráð yfir. ,,Makkaroní má einnig hafa í búðinga, jafninga, salat og ýmsa aðra rétti." Í bókinni er soðið makkaroní borið fram með kálfa-mignons og kannski fleiru.
Heimagert pasta er aftur á móti hvergi að sjá nema í Einföldu matreiðsluvasakveri fyrir heldri manna húsfreyjur.
Mér sýnist á þessu að pasta af ýmsu tagi - undir nafninu makkaróní/makkarónur (og stenglur ef maður er Jóninna) hafi verið notaðar í ýmsa rétti á fyrri hluta 20. aldar, ekki bara í makkarónusúpu/graut, sem var það eina sem ég þekkti þegar ég var krakki.
Skoða þetta kannski betur seinna.
Af perrum og krúttum
Útskýriði nú fyrir mér:
Einhver óþekktur íslenskur gaur á sjötugsaldri er í tygjum við stelpu innan við tvítugt. Hann er ógeð og barnaperri.
Hugh Hefner, sem er rúmlega áttræður, er í tygjum við þrjár kvensur (já, og sjálfsagt fleiri) sem eru 22, 29 og 35 ára. Hann er ógeð og perri.
Ronnie Wood, sem er á sjötugsaldri, stingur af frá konunni sinni í fylliríssvallferð til Írlands með 18 eða 19 ára stelpu. Hann er ekki ógeð og barnaperri. Hann er krútt eða í mesta lagi með hallærislega klippingu og allir dauðöfunda Íslending sem segist hafa hitt hann á kaffihúsi í útlandinu.
Það er eitthvað í þessu sem vefst fyrir mér.
Það er ekki sama pasta og pasta
Vill einhver spreyta sig á að þekkja pastategundir? Ég náði 22 af 24 ...
Það eru engar makkarónur þarna. Þær voru eina pastað sem ég þekkti fyrir 10 ára aldur. Fljótlega eftir það bættist spaghettí við og síðan ekki söguna meir - fyrr en löngu seinna.
Espressóvél fyrir lítil (eða engin) eldhús
Hér er eitthvað fyrir fólk sem langar í alvöruespresso en hefur ekki pláss fyrir espressovél í eldhúsinu sínu (það er ekki pláss í mínu en hún er þar samt). Veit svosem ekkert hvernig tækið virkar en þetta er allavega til ...
16.7.08
Jógúrt-tabúið
Ég fletti upp í A Kipper with My Tea eftir Alan Davidson og í kaflanum Not Yogurt with Fish segir hann frá því að þetta tabú - að jógúrt sé ekki í fiskréttum eða borin fram með fiski - sé þekkt víða á Balkanskaga og í Austurlöndum nær; segir m.a. frá viðræðum við búlgarska næringarfræðinga og matarsagnfræðinga sem allir voru sammála um að þar dytti engum í hug að elda fisk og jógúrt saman en enginn kunni skýringu á því og sama var að segja í öðrum löndum á svæðinu - en þegar kom austur til Indlands gegndi aftur á móti öðru máli, þar er jógúrt oft notuð í fiskrétti.
En það var svo einn af ,,matarnjósnurum" Alans (culinary spies) sem fann skýringuna austur í Íran:
,,The simplified belief which Persians hold is that in food there are two basic qualities to consider, hot and cold (sardi/garmi), and that a balance must be kept between them. When she asked Iranians about fish and yoghurt, they were astonished that anyone would even think it necessary to pose the question, so obvious was the answer: 'Did I not know, they asked, that the Hot and Cold effects of certain foods increase dramatically if they are eaten at the same time? The mixture of honey and sweet melon, for example, is far too Hot, and that of yoghurt and water melon disagreeably Cold. But the worst misalliance, and most frigid marriage, is that between yoghurt and fish.'
Þessi skipting matarins í sardi og garmi, heitt og kalt (hefur auðvitað ekkert með hitastig réttarins að gera) er a.m.k. 2500 ára gömul í Íran og hugsanlega mun eldri. Í grófum dráttum má segja að kjúklingur, smjör og önnur dýrafita, hveiti, sykur, þurrkaðir ávextir og sumir ferskir ávextir og grænmeti sé ,,heitt" en fiskur, mestallt kjöt, hrísgrjón, mjólkurvörur og mestallt ferskt grænmeti og ávextir sé ,,kalt". Þegar máltíðin er undirbúin þarf að gæta þess að jafnværi ríki milli heitu og köldu þáttanna (t.d. eins og þegar eitthvað súrt er borðað með feitu kjöti til að vega upp á móti fitunni). Svo voru hin ýmsu hráefni mismikið köld og heit - jógúrt er t.d. víða á þessu svæði notuð í kjötrétti eins og ekkert sé, kjötið er ekki eins ,,kalt" og fiskurinn.
Jógúrt er upprunnin í Íran eða grannlöndunum og barst þaðan til Balkanskaga og með henni væntanlega tabúið um að hafa hana ekki með fiski þótt skýringin væri týnd. Hugsanlega er (ítalska) tabúið um ost með fiski af þessari rót runnið.
Ostur með fiski?
Af því að ég var að tala um ost með fiski - eða öllu heldur ekki ost með fiski - í kommentum hér ögn neðar, þá datt mér í hug þessi grein og þessi langi umræðuhali.
(Ef þið eruð ekki með aðgang að NYTimes, þá er þetta tilvitnun í greinina: ,,The waiter didn’t yell at me exactly. Rather, he turned to the nearest table and started screaming at them — something about ruining his food, the culture, the country, but then I lost the thread. That was the beginning of the end. In Venice, I was chastised for putting cheese on shrimp rigatoni. In Los Angeles, an Italian waiter looked around anxiously as he shredded some Parmesan onto my plate. “I could lose my job for this,” he said. In New York, the menu at Da Silvano stated in no uncertain terms, “No cheese served on seafood at any time.”" - og svo þetta (og fleira) til mótvægis: ,,A little research, however, turned up the oldest surviving Sicilian recipe — from around 400 B.C. — for fish: “Gut. Discard the head, rinse, slice; add cheese and oil.”")
Alan vinur minn Davidson skrifaði einu sinni grein um tabúið við að nota jógúrt með fiski, sem er algengt á Balkanskaga, við austanvert Miðjarðarhaf og allt austur til Afganistan ef ég man rétt. Ræturnar mátti rekja líklega ein 4000 ár aftur í tímann. Best að fletta þessu upp þegar ég kem heim og rifja upp greinina.
Grænt og ekki grænt
It ain't easy being green ...
Nema fyrir mig þessa dagana. Þegar ég skoða fataskápinn minn er hann orðinn alveg hreint óttalega grænn, flestar flíkur sem ég hef keypt mér að undanförnu eru að minnsta kosti grænleitar, ef ekki bara fagurgrænar eins og bakgrunnurinn á blogginu.
Nú er spurningin, er ég vinstri græn eða hægri græn eða bara væn og græn?
Sennilega ekkert af þessu. Ég skal nefnilega játa að þegar ég hef verið að kaupa mér föt hefur það ekkert verið sérstaklega með umhverfissjónarmið í huga. En kannski er kominn tími til að huga að því og þá mætti byrja á að lesa t.d. þetta hér.
Ætli þetta sé ekki grænast af öllu (og ódýrast auðvitað): ,,The greenest garments are those you already own. No more resources are required to get them to you. No more materials extraction, manufacturing, shipping, retailing, etc. Oh, and no cost to you."
Sem sagt, ekki meiri fatakaup á næstunni - hvorki græn né önnur ...
15.7.08
Fimmtán ára
Stundum finnst mér að ég sé frekar kaldlynd manneskja. Tilfinningadauf allavega. Ég græt ekki yfir (ó)dauðum hundum og klökkna ekki yfir skotnum ísbjörnum. Bregður yfirleitt frekar lítið við hvers konar hörmungar.
En það eru til hlutir sem geta komið tárunum fram í augun á mér. Ill meðferð á börnum þar á meðal. Einkum og sér í lagi kannski þegar það er ekki einstaklingur sem á sökina, heldur ríki. Yfirvöld. Þeir sem eiga að gæta mannréttinda barna og telja sig umkomna að dæma og fordæma aðra fyrir mannréttindabrot.
Og þá er sama hvort í hlut eiga Breiðuvíkurdrengir eða umkomulausir og hræddir útlendir unglingar. Á sama aldri og hún dótturdóttir mín þegar þeir voru teknir.
Þessi strákur hefur þegar eytt nærri þriðjungi ævinnar í Guantanamo og hefur ekki enn verið leiddur fyrir rétt.
Kartöflubóndinn Grímur amtmaður
Það passar reyndar ágætlega að ég skuli einmitt í dag vera að grufla í ævisögu Gríms amtmanns. Hann var nefnilega mikill áhugamaður um garðrækt, stundaði hana af kappi, stakk sjálfur upp garða sína og sáði; ræktaði mikið af kartöflum á Möðruvöllum og - þegar vel áraði - einnig ertur, lauk, hreðkur, rauðrófur, grænar baunir, sniðbaunir og blómkál. Aflaði sér þó takmarkaðra vinsælda fyrir vikið; á fyrri hluta 19. aldar var íslenskur almenningur lítt hrifinn af grasi og kálmeti og vinnufólk forðaðist að ráða sig í vist þar sem garðrækt var mikil til að þurfa ekki að éta kálið. Eða strauk úr vistinni.
Sælkeradagur
Þetta er búinn að vera sælkeradagur so far. Ég er búin að reka áróður fyrir því að vinnufélagar sem fara í utanlandsferðir komi með eitthvað annað en fríhafnarnammi og mætti því sjálf í vinnuna í morgun með krukku af afbragðsgóðum enskum Stilton (,,hvernig tímirðu að gefa okkur með þér?" var ég spurð - en annars hefði ég jú borðað hann allan sjálf, sem er tæpast góð hugmynd).
Og í hádeginu var ég boðin ásamt fleirum á Þrjá frakka að smakka á nýuppteknum kartöflum. Mmm, þvílíkt sælgæti. Kartöflur, ískalt smjör og örlítið salt ... Það þarf ekki meira (en við fengum reyndar meira). Kærar þakkir til Sölufélagsins og kartöflubænda fyrir boðið.
Það er hægt að gera svo margt gott úr kartöflum. En ef maður er með sumarkartöflur, teknar upp fyrir fáeinum klukkustundum, þá finnst mér best að gera sem allra minnst. Bara sjóða þær - og ekki of lengi - strá á þær dálitlu góðu salti (ég á fleur de sel heima sem ég ætla að nota í kvöld), smjör (ólífuolía gengur líka en smjör er betra), kannski svolítið af ferskum kryddjurtum, t.d. basilíku, graslauk, mintu eða timjani, jafnvel dilli - ögn af hvítlauk ef maður endilega vill - sítrónusafa kannski - það þarf ekkert annað. Nema ef vera skyldi glas af góðu hvítvíni.
Ég var leyst út með gjöf: Poka af nýuppteknum kartöflum. Það er á hreinu hvað verður í kvöldmatinn hjá mér, spurning hvort þarf bara nokkuð með þeim? Búin að borða nýjar kartöflur og fisk tvo daga í röð, kannski bara kartöflur og salat?
Þá verður þetta fullkominn sælkeradagur.
Fótsár kona í Pálskirkjunni
Ég fór í messu í Pálskirkjunni á sunnudaginn.
Einhver kynni nú að furða sig á því að trúleysinginn ég sé að sækja messur í útlendri borg en ég á þetta til. Mér finnst menning annarra þjóða áhugaverð og það gildir um kirkjumenningu ekki síður en annað.
Og svo var ég búin að tékka mig út af hótelinu snemma en vélin fór ekki fyrr en um kvöldið og ég var að velta fyrir mér hvernig ég ætti að eyða deginum og mundi þá að ég hafði aldrei skoðað St. Paul's þótt ég hafi ansi oft komið til London. Svo að ég fór þangað, rölti í kring góða stund og fór svo að kirkjunni. En af því að það var sunnudagur voru náttúrlega engar skoðunarferðir en það var að byrja messa. Ég var slæm í ökklunum og með blöðru á fætinum og þegar ég sá að þetta var einhvers konar tónlistarmessa (Nelson-messan eftir Haydn) hugsaði með mér að það væri nú upplagt að sitja og hvíla fæturnar og hlusta á messuna.
Svo að ég fékk afhenta dagskrá og settist. Svo byrjaði messan og allir stóðu upp, það stóð í dagskránni. All stand. Og stóðu og stóðu á meðan prestarnir og kórinn gengu inn og kórinn söng og presturinn tónaði og svo var sungið meira en þá stóð Sit í dagskránni og allir settust. Ég var mjög fegin, fótanna vegna. Svo var sungið aðeins meira og þá kom aftur All stand. Ég stóð upp og gáði í dagskránni hvenær næst stæði Sit.
Það var þremur blaðsíðum aftar.
Þetta hlýtur að vera vitleysa, hugsaði ég, það hefur gleymst að setja inn Sit og All stand hérna einhvers staðar á milli.
Óekkí. Maður átti sko að standa þessar þrjár blaðsíður. Ég settist nú eftir eina og hálfa og var ekki ein um það. Og það var stutt í næsta All stand.
Ég entist samt næstum messuna út. Falleg tónlist og svona. En ég væri sko pottþétt ekki kirkjurækin manneskja ef ég tilheyrði ensku biskupakirkjunni, jafnvel þótt ég væri trúuð.
14.7.08
Tíðindalaust af Inkaslóðum og þorskur með kryddmylsnu
Boltastelpan sat hér áðan og las tölvupóst sem hún hafði fengið frá frænku sinni og vinkonu, sem er að ganga Inkaslóðina með foreldrum sínum og systrum. Kom svo til okkar inn í borðstofu þar sem við vorum að borða kvöldmatinn.
Ég: -Hvað sagði Svava frá Perú?
Boltastelpan (hneyksluð á ömmunni): -Hún var ekkert að tala um Perú.
Nei. Auðvitað. Þegar maður er fimmtán ára og kemst í tölvupóstsamband í Andesfjöllunum er nú um merkilegri hluti að tala en Perú.
Kvöldmaturinn, já. Ég sá nokkuð álitlegan þorsk í Nóatúni, frekar lítil flök, og þar sem ég var þegar búin að setja nýuppteknar kartöflur í körfuna fannst mér líklegt að hann yrði alveg ídeal með. Sem reyndist rétt. Það má nota annan fisk (mæli þó ekkert sérstaklega með ýsu í þennan rétt) en þorskurinn var afskaplega góður. Og kartöflurnar náttúrlega sælgæti.
Börnin voru hins vegar ekkert hrifin. Óttalegir gikkir.
Þorskur með kryddmylsnu
800 g þorskflök, roð- og beinhreinsuð
endi af baguettebrauði eða 1 rúnnstykki
1/2 knippi steinselja
nokkur basilíkublöð (má sleppa)
rifinn börkur af 1 sítrónu
biti af parmesanosti (svona 20-25 g)
nýmalaður pipar
salt
3 msk ólífuolía
Ofninn hitaður í 180°C. Fiskurinn skorinn í hæfilega stór stykki. Brauðið rifið í bita og sett í matvinnsluvél ásamt kryddjurtum, sítrónuberki, parmesanosti, pipar og svolitlu salti (muna að osturinn er saltur) og vélin látin ganga þar til allt er orðið að mylsnu. Olíunni hellt í ofnskúffu eða eldfast mót, fiskurinn lagður í það (roðfletta hliðin upp og þunnir bitar brotnir tvöfaldir) og kryddaður með pipar og salti. Svo er bitunum snúið við (nú eru þeir þaktir olíu) og mylsnunni stráð jafnt yfir þá. Örlítið meiri olíu e.t.v. dreypt yfir. Bakað í miðjum ofni í 10-12 mínútur, eða þar til fiskurinn er rétt eldaður í gegn - mylsnan ætti eiginlega ekkert að vera farin að brúnast en samt orðin dálítið stökk. Borið fram með nýjum kartöflum og salati.
Namminamm.
Ömurleg móðir ...
Eldra barnabarnið: -Veistu það, amma, ég á ömurlega mömmu. Hún vildi ekki leyfa mér að fara til London og eiga á hættu að vera drepin og hún vill ekki leyfa mér að borða kornflex uppi í sófa.
Hmm, mig minnir endilega að móðir hennar hafi einhvern tíma sagt eitthvað áþekkt um mig.
Heim á SagaClass - næstum því
Ég sé að það er víða verið að bölva Iceland Express og örugglega ekki að ástæðulausu. Ég ætla aftur á móti að nota tækifærið og tala vel um Icelandair, vegna þess að þegar ég var búin að koma mér fyrir aftast í troðfullri vél í gærkvöldi var ég spurð hvort mér væri ekki sama þótt ég færði mig úr þrengslunum yfir í SagaClass-sæti (án SagaClass-þjónustu að vísu) fremst.
Mér var alveg sama þótt ég gerði það.
Afskaplega þægilegt fyrir þreytta miðaldra húsmóður sem var að fljúga heim á síðkvöldi eftir stórborgarsvallið. Veit ekki hvort ég hefði getað verið mætt í vinnuna upp úr kl. 8 í morgun að öðrum kosti því að ég var ekki komin heim fyrr en um eittleytið. En þokkalega úthvíld eftir flugið.
Ég hefði samt ekki borgað tuttuguogfimmþúsundkalli meira fyrir sætið. Enda borga ég það sjálf.
Sex á ströndinni í Dubai
Það er þetta með Dubai, já. Ég nefndi um daginn að það væri eins og einhver vildi senda mig þangað. Ég held ekki ég fari samt. Aldrei að vita í hverju maður lendir.
Bresku blöðin skrifuðu um helgina um einhverja breska bisnisskonu sem á víst yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi í Dubai (,,Arab prison" var sérstaklega tekið fram og maður sá fyrir sér einhverja skelfilega holu en kannski er djeilið í Dubai sama lúxusvistarveran og aðrar stassjónir þar virðast vera) fyrir að verið gripin við ,,drunken sex on the beach". Persónulega finnst mér sex on the beach ekkert spennandi hugmynd (helvítis sandurinn smýgur alls staðar), síst af öllu í björtu eins og þetta var víst (maður hefði haldið að sandurinn væri brennheitur) og þá kannski skiljanlegt að þeir séu ekkert of hrifnir í Dubai - en sex ára fangelsi er kannski fullharkalegt. Nóg refsing fyrir konugreyið að fá nafn og mynd í öllum blöðum, karlmaðurinn (líka Breti) hefur hins vegar ekkert verið ákærður.
Í Dubai er nefnilega mjög vinsælt meðal Vesturlandabúa að fara í kampavínsbrunch á einhverju lúxushótelinu í hádeginu: ,,For just over £50, you are served as much Taittinger champagne as you can possibly drink. Or spend an extra £9.50 and you can drink a never-ending glass of Bollinger. To soak up the alcohol, there is an enormous buffet featuring glistening mounds of lobster, seared beef and kangaroo steaks. From the start, there is a raucous party atmosphere. The champagne stops at 3.30pm ... just as a four-and-a-half hour long 'happy hour' starts at the bar."
Og Gunna systir er að fara til Dubai ...
Með hnífa (og gaffla) í London
Ég náttúrlega ekki fyrr komin til London en þar skellur yfir alda hnífamorða - fimm á einum sólarhring eða eitthvað - svo að ég þorði náttúrlega ekkert út af hótelinu og sat þar bara allan tímann og horfði á sápuóperur.
Eða ekki, en ég var frekar róleg í tíðinni samt, enda átti þetta að vera afslöppunarferð. Farin með það að markmiði að gera ekkert nema rölta og skoða og gramsa og smakka. Röltið varð reyndar aðeins minna en til stóð af því að ég var eitthvað stirð í ökklunum en það gerði ekkert til, ég sat þá bara heldur meira á kaffihúsum í staðinn.
Rétt slapp fyrir horn með æðislega flottu silfur-ávaxtahnífapörin með perlumóðurskeftinu sem ég keypti á Portobello Road; ætlaði að taka þau með í handfarangri en á leiðinni út á Heathrow rann upp fyrir mér að maður tekur víst ekki hnífa (og gaffla) með sér í handfarangri nú til dags - mér tókst þó að smeygja þeim í töskuna án þess að vera tekin föst sem líklegur hnífamorðingi - og þetta reddaðist.
Og ég keypti enga matreiðslubók. Þrátt fyrir heimsókn í Books for Cooks, ýmsar aðrar bókabúðir og nokkrar fornbókaverslanir. Ekki fyrir það að ég hafi ekki séð neitt áhugavert ...