Ég kom við á Hlemmi á leið heim úr vinnunni að kaupa mér nýtt grænakort og sækja nýju leiðabókina. Átti svosem ekki von á súperþjónustu í
ljósi sögunnar.
-Góðan daginn, ég ætla að fá græna kortið, sagði ég.
Konan svaraði engu, heldur stimplaði kort, lagði það á borðið og sagði svo: -5600 krónur.
-Byrjar það ekki örugglega á morgun? spurði ég um leið og ég rétti fram debetkortið mitt.
-Þú baðst ekkert um það, sagði konan.
-En hingað til hef ég alltaf verið spurð þegar ég kaupi kort svona seint að degi hvort það eigi ekki að byrja næsta dag, sagði ég. -Ég hélt það mætti ganga út frá því klukkan hálfsex að maður vilji frekar að kortið taki gildi daginn eftir.
-Ja, þú baðst ekkert um það, endurtók konan.
Ekkert við því að segja líklega.
-En svo þarf ég að fá nýju leiðabókina, sagði ég.
-Þær eru búnar, sagði konan. -Þú getur fengið hverfabækur.
Mig vantar ekki hverfabækur. Mig vantar leiðabók.
Vefsíðan straeto.is er afskaplega óaðgengileg, allavega þessa stundina. Á kortunum sem hanga uppi á Hlemmi eru núna engar tímatöflur. Alls engar. Tímatöflurnar sem eru á einhverjum staurum fyrir utan gefa bara upp brottfarartíma frá Hlemmi.
Hmmm, ætli séu komnar þráðlausar tengingar í vagnana?