Ormamjólk
Svona í tilefni af stóra spaghettímálinu, þá langar mig að gamni að skjóta hér inn uppskrift að fersku pasta úr Einföldu matreiðsluvasakveri fyrir heldri manna húsfreyjur, sem kom út árið 1800 en hefur líklega verið skrifað að mestu í Noregi veturinn 1783-1784. Veit svosem ekki hversu algeng pastagerð var hjá íslenskum heldri manna húsfreyjum snemma á 19. öld - en uppskriftina höfðu þær allavega. Þetta er nú bara makkarónusúpa en kallast hér ormamjólk, sem er kannski ekki mjög lystvekjandi.
,,Handa 5 eður 6 mönnum eru tekin 2 egg og slegin vel í sundur með fullum tekoppi af vatni í skál; svo er þar saman við hrært, svo mikið af hveitimjöli, sem það getur viðtekið, uns það er orðið að hörðu deigi; það er síðan vel hnoðað og á hreinu borði eður fjöl með kefli útflatt svo þunnt, sem allramest verður, litlu af hveiti sáð undir og ofan á, svo það ekki loði við, og er því oft snúið, hveiti ásáð, og keflað sem þynnst. Þetta þunna deig er nú skorið sundur í eins og 2ja fingra breiða enda, og eru 3 af þeim lagðir hvör ofan á annan, og mjög þunnt ásáð af hveiti yfir og undir og á milli þeirra, svo hvörgi loði við. Svo eru þessir endar skornir upp með velbeitum knífi þvert yfir um, eður þó nokkuð skáhallt, svo fint og mjótt, sem verður, og því betri eru þeir, sem mjórra og skáhallara er skorið. Þegar allt deigið er þannig uppskorið, er þessum mjóu tægjum ruglað lauslega saman á diski, á þær sáð litlu af hveiti, svo ekki loði hvör við aðra; en þegar mjólkin sýður, eru þær látnar útí, ásamt litlu af steyttu kaneli og sykri, kemur þá á þær bugða eða snúningur, svo líta út, sem ormar innan um mjólkina, af hvörju hana nefna má ormamjólk."
Því má bæta við að þessi réttur er til í danskri matreiðslubók frá 1710, ef ég man rétt, svo að pastagerð var hreint ekki óþekkt á Norðurlöndum fyrr á öldum.