(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

10.1.04

,,Einn frægasti Belgi allra tíma er 75 ára í dag," var sagt í sjónvarpsfréttunum rétt áðan. Það segir nú sitt að þessi einn frægasti Belgi allra tíma hefur aldrei verið til. Það er nefnilega ekki að ástæðulausu að til er samkvæmisleikur sem heitir ,,nefnið tíu fræga Belga" en ekki t.d. ,,tíu fræga Hollendinga".

|

Heilsu efnafræðistúdentsins hrakar stöðugt, streptókokkarnir blása á pensilínið og halda áfram að belgja út eitlana og loka hálsinum nokkurn veginn fullkomlega, og nú er yfirlæknir líknardeildar búinn að húsvitja í tvígang. (Reyndar er drengurinn ekki á grafarbakkanum, vitjanirnar eru vegna persónutengsla.) Það ríkir undarleg þögn á heimilinu þar sem efnafræðistúdentinn er hættur að koma upp jái eða neii, hvað þá lengri ræðum.

Ég var samt ekki betri mamma en svo að ég yfirgaf hann um tíma í dag (þó ekki fyrr en ég hafði fullvissað mig um að hitinn væri eitthvað farinn að lækka), fór í vinnuna og lauk við að flytja hafurtask mitt yfir ganginn. Reyndar á ég eftir að skipuleggja niðurröðun í bókahillur en það má bíða.

Svo skrapp ég í Hagkaup með gagnlega barninu og Sauðargærunni, sem sagði um leið og hann sá mig: ,,Amma, þú ert með gleraugu!" Ég held að hann hafi ekki verið að taka eftir því í fyrsta sinn á tveggja og hálfs árs ævi sinni að ég er með gleraugu, öllu heldur hefur hann ekki kunnað nafn á þessu fyrirbæri áður og þurfti að láta mig vita að nú vissi hann hvað gleraugu heita. Hann er á svo skemmtilegum aldri núna, blessaður, fer mjög ört fram að tala og jafnvel hægt að fara að rökræða við hann. Og kenna honum að elda, eins og glöggt kom í ljós þegar hann bjó til uppstúfið með mér á nýársdag.

|

9.1.04

Efnafræðistúdentinn er mállaus vegna hálsbólgu og hefur varla getað sagt orð í þrjá daga. Hann hefur allavega aldrei verið jafnfámáll síðustu 22 árin. Núna talar hann við mig með bendingum og SMS-skilaboðum (þar sem ég á ekki gemsa slær hann þau bara inn í sinn og sýnir mér án þess að senda).

Og af hverju er sirka önnurhver færsla sem ég skrifa núna uppfull af spurningamerkjum í stað íslensku stafanna? Af hverju bara önnurhver? Og hvernig laga ég það án þess að skrifa allt saman aftur?

|

Mér tókst næstum því að klára flutningana. Það er að segja, ég flutti allar bækurnar og þá er nú ansi mikið búið. Skrepp vestur eftir um hádegi á morgun og flyt það sem eftir er. Á reyndar eftir að sjá hvort ég fæ fleiri bókaskápa, ef það gengur eftir getur verið að ég fari með eitthvað af matreiðslubókum héðan og geymi þær í vinnunni. Allavega pláss fyrir þær þar og það væri að sumu leyti þægilegra; ég er hvort eð er alltaf að bera þessar bækur fram og aftur. Reyndar kom ég með nokkrar heim með mér núna en það er af því að ég þarf að skrifa grein(ar) um helgina.

Annars rakst ég á ýmsar bækur sem áttu lítið skylt við matreiðslu þegar ég var að tæma hillurnar; bækur sem ég mundi ekkert eftir og veit ekkert hvaðan eru komnar eða hvernig lentu hjá mér. Gætu þó hugsanlega verið úr gömlu Iðunnardóti, ég skal ekki segja. Þar á meðal kver sem heitir Leiðbeiningar um hænsnarækt, gefið út 1915. Og kynfræðslubókina Hamingjusamt hjónaband - Takmörkun barneigna frá 1929, með formála eftir H.G. Wells.

|

Hvern fjandann á það að þýða að láta kaffivélina vera bilaða í allan dag? Að vísu er kaffivélin niðri á þriðju hæð í lagi en til að komast þangað þarf maðu að klöngrast yfir böns af iðnaðarmönnum og þeirra hafurtaski.

Þess vegna ætla ég að byrja flutningana yfir í nýju skrifstofuna núna. Nenni ekki að standa í því á morgun ef ég þarf að vera kaffilaus.

|

Ég var að kaupa inn í Nóatúni í gær og fann engar gular baunir, þær voru ekki hjá öllum hinum þurrkuðu baunategundunum. Svo að ég stoppaði starfsmann og spurði hvort ekki væru til gular baunir. Jú, hún hélt það nú, teymdi mig að niðursuðudósarekkanum og benti.

- Þetta er maís, sagði ég. - Mig vantar gular baunir. Alvörubaunir.

Hún horfði á mig og var eitt spurningarmerki í framan.

- Svona eins og maður notar í baunasúpu, sagði ég. - Saltkjöt og baunir, sjáðu til.

Þá rann upp fyrir henni ljós.

- Ertu að meina svoleiðis baunir, sagði hún og fannst greinilega sérkennilegt að einhvern vantaði svoleiðis baunir og sprengidagurinn langt undan. - Þær eru hérna.

Svo teymdi hún mig að kryddhillunni; þar voru nokkrir pokar af gulum baunum á neðstu hillu, við hliðina á grófa saltinu. Ég skil nú ekki af hverju þær eru ekki hafðar með öðrum baunum, en látum það vera. En hvers vegna í ósköpunum eru allir farnir að kalla maískorn gular baunir? Mér finnst þetta vera frekar nýlegt, allavega eru ekki mjög mörg ár síðan ég tók fyrst eftir því og fannst það þá frekar sérkennilegt. Ég man ekki eftir að hafa heyrt maís kallaðan annað en maís eða maískorn hér áður fyrr. Enda er maís náttúrlega alls óskyldur baunum. (Reyndar eru gular baunir strangt til tekið ekki baunir, heldur ertur, en ég held að stúlkan hefði ekki skilið mig neitt betur ef ég hefði spurt um gular ertur.)

|

8.1.04

Ég á enn betra eintak af þessari bók en hér er verið að auglýsa á 175 dollara. Spurning hvort ég fer að hætta að elda upp úr henni, allavega vissara að passa hana vel fyrir sósuslettum ... Þetta er skrambi góð bók en ég mundi ekki borga þetta verð fyrir hana. Meira að segja kiljuútgáfan kostar í kringum 100 dollara.

Ég eignaðist bókina fyrir þremur árum eða svo á 16 dollara en held að það hafi verið algjör tilviljun. Ég var búin að vera með hana á ,,wants"-lista hjá Powells nokkuð lengi, fékk svo tölvupóst um að False Tongues and Sunday Bread hefði komið inn og væri á þessu verði. Þá vissi ég að innbundin eintök voru að seljast á ca. 100 dollara hjá fornbókasölum og fór samstundis inn á vefinn hjá Powell's, bókin var enn til, og ég pantaði hana án tafar því að ég var nokkuð viss um að fleiri hefðu fengið samhljóða tölvupóst. En þar sem þetta var að morgni dags á Íslandi voru hugsanlegir bandarískir kaupendur í fastasvefni og ég fékk bókina - sennilega hefur einhver nýliði hjá Powell's verðmerkt bókina vitlaust og fengið skömm í hattinn fyrir. En ég eignaðist góða matreiðslubók sem ég hef notað mikið.

|

Smiðirnir voru ekkert búnir þegar ég kom aftur og hausverkurinn ekki horfinn. En þar sem ég þurfti beint í eldhúsið að saxa og hakka og steikja og sjóða - var að elda átta súpur og pottrétti fyrir myndatöku - þá slapp ég við að heyra lætin í þeim og mátti ekki vera að því að vorkenna sjálfri mér út af hausverknum. Endaði reyndar með því að ég var svo önnum kafin að ég gleymdi honum og mundi ekkert eftir honum fyrr en ég gat loksins gert smáhlé núna áðan. Þá var hann að sjálfsögðu löngu horfin. Eldamennska er flestra meina bót.

Og nú þarf ég að fara heim og elda enn meiri súpu handa efnafræðistúdentinum, sem er ekkert skárri í hálsinum og treystir sér ekki einu sinni til að kyngja linsubaunum. Nú þarf ég að elda einhverja rennislétta rjómasúpu handa greyinu. Kannski aspassúpa í þetta skipti. Sjáum til.

|

Samkvæmt galdraprófi Eddu er ég rammgöldrótt. Akkúrat núna væri gott að kunna að beita einhverjum fælugaldri, það er verið að bora og smíða hérna beint fyrir neðan mig og ég er með leiðinda hausverk og má ekki við því.

En ég er reyndar á leið út í Nóatún að versla fyrir súpueldamennskuna í dag. Þegar ég kem aftur verða smiðirnir vonandi búnir eða hausverkurinn horfinn. Helst hvorttveggja, auðvitað.

|

7.1.04

Hvernig stendur á því að þýðandi Bráðavaktarinnar áttar sig ekki á því að alderman er titill, ekki nafnið á manninum?

|

Ég lenti í því áðan að muna ekki nafnið á syni mínum. Það er nú ekki gott afspurnar.

Ég fór í apótek að ná í pensilín handa efnafræðistúdentinum, hann hafði sjálfur farið með reseftið þangað fyrr um daginn. Afgreiðslukonan var að ljúka við að afgreiða einn viðskiptavin en á undan mér var kona með lítinn strák. Afgreiðslukonan tók bréfpoka og kallaði upp ,,Hjalti," og við konurnar tókum báðar viðbragð. En þetta reyndist vera hennar Hjalti, ekki minn. Svo kom röðin að mér. Það fannst ekkert lyf fyrir Hjalta Nönnuson. Hún fór á bakvið og leitaði, sló nafninu upp í tölvunni, leitaði aftur frammi, spurði lyfjafræðinginn. Ekkert fannst og ég var farin að halda að meðalið hefði lent ofan í pokanum hjá hinum Hjaltanum. Hún spurði hvort ég væri örugglega í réttu apóteki og ég var nokkuð viss um það. Hún var búin að rétta mér síma til að hringja í drenginn þegar lyfjafræðingurinn kom með poka og spurði hvort sjúklingurinn héti nokkuð Rögnvaldur Hjalti. Þá áttaði ég mig allt í einu á því að það er víst sama hvað stendur á lyfseðlinum, nafnið sem prentað er á miðann sem límdur er á lyfið er víst alltaf eins og það er í þjóðskrá ...

Öðru máli gegndi þegar ég var krakki og Friðrik læknir neitaði að bekenna að ég héti Nanna, eða kannski var það Bang apótekari og konurnar í apótekinu sem heyrðu nafnið aldrei rétt. Ég fékk lyfjaglös sem merkt voru Anna, Hanna og jafnvel Unnur. Ekki Nanna.

En ég er viss um að mamma var samt alltaf með það á hreinu hvað ég hét. Reyndar mismælti ég mig líka einu sinni þegar ég var að gefa upp nafn sonarins á læknabiðstofu fyrir mörgum árum og sagði að hann héti Hjalti Rögnvaldsson. Það kom mjög skrítinn svipur á konuna í afgreiðslunni þegar móðirin þurfti að leiðrétta sig.

|

Þetta er eiginlega alveg skelfilega grámyglulegur dagur. Hálka, rok og regndropar. Skítaveður semsagt. Ég sit hér innan um stafla af matreiðslubókum og skoða uppskriftir að matarmiklum súpum og pottréttum. Ekta notalegheitamat (get ég notað það orð um ,,comfort food"?) Elda örugglega eitthvað svoleiðis í kvöldmatinn; efnafræðistúdentinn getur bara borðað súpuna/sósuna og sleppt kjöt- og grænmetisbitum ef hann verður enn jafnslæmur í hálsinum. Nema kannski bý ég bara til þykka linsubaunasúpu, potage Esau (linsubaunir, beikon, gulrætur, laukur, blaðlaukur, hvítlaukur o.fl., allt mjög smátt skorið og látið malla saman í soði af skinku eða hamborgarhrygg) eða eitthvað ámóta. Hann hlýtur að geta kyngt því.

Rétt áðan greip mig skyndileg löngun í sínalkó. Þetta gerist sirka á sex vikna fresti af einhverri dularfullri ástæðu (annars drekk ég ekki mikið af gosdrykkjum) og ef löngunin hellist yfir mig hér í vinnunni, sem oftast er, þá skýst ég niður í 10-11 og kaupi mér sínalkóflösku. Þá skal það ekki bregðast að Steini er á kassanum. Ég er viss um að hann er farinn að halda að ég sé sínalkófíkill.

|

6.1.04

Breiðvarpsafruglarinn minn var að uppfæra hugbúnaðinn áðan og mér datt í hug að það gæti þýtt að búið væri að bæta við stöð eða stöðvum. Skrollaði í gegnum allar stöðvarnar og viti menn: Það var komin ný stöð og það engin ómerkileg músík- eða íþróttastöð, ekki heldur pólska stöðin sem ég frétti einhvern tíma að ætti að senda út þarna: Onei, það var stöð fyrir mig. BBC Food, hvorki meira né minna.

Ég: - Vá maður, matarþættir 18 tíma á sólarhring.

Efnafræðistúdentinn: - Andskotinn. There goes my mother. Ég fæ aldrei aðgang að sjónvarpinu aftur.

|

Efnafræðistúdentinn bað um sterka paprikusúpu og fékk hana - rauð paprika ristuð undir grillinu og hýðinu flett af, laukur og hvítlaukur kraumaður í ögn af ólífuolíu, hálf dós af söxuðum tómötum, hvítvínsskvetta, allt maukað í matvinnsluvélinni og sett aftur í pottinn, rjómi, pipar, salt, harissa (sterkt chilimauk frá Túnis). Gott fyrir hálsinn, magann og sálina. Ég borðaði baguettebrauð og riojaskinku með, sjúklingurinn treysti sér ekki í neitt nema súpu.

|

Vesalings efnafræðistúdentinn er svo slæmur í hálsinum að hann treystir sér ekki til að borða neitt í föstu formi. Þannig að það verður súpa í kvöldmatinn. Hmm. Ég á reyndar töluvert af aspas en langar ekki beint í aspassúpu. Gulrótasúpa, krydduð með engifer? Sætar kartöflur með kummini? Eða verulega krassandi hvítlaukssúpa, hún ætti að geta rekið burt hvaða aumu streptókokka sem er ... Best að leyfa honum að ráða.

|

Það er einhvers konar ,,musical chairs"-dæmi í uppsiglingu hér hjá fyrirtækinu, allir (eða ansi margir allavega) að skipta um skrifstofur, flytja sig á milli hæða ... Ég flyt nú bara yfir ganginn. Er semsagt að fara að standa upp úr (fyrrverandi) ritstjórastól Bleiks og blás og yfirgefa lyftukompuna sem hefur verið skrifstofan mín í hálft annað ár. Bara gott eitt um það að segja, nýja skrifstofan er sirka 250% stærri.

Þetta verður líklega í tólfta skiptið á sautján árum sem ég skipti um skrifstofu og flyt mig með allt mitt hafurtask og þar á meðal þann hluta af bókasafninu sem ég geymi í vinnunni (og gæti stækkað með stærri skrifstofu). Samt hef ég bara unnið hjá tveimur fyrirtækjum á þeim tíma. Og skrifstofurnar hafa verið af öllum stærðum og gerðum, frá turnherberginu á Bræðraborgarstígnum, þar sem ég hélt Jóni Óttari í gíslingu sællar minningar, eða stóru skrifstofunni hér á Seljaveginum þar sem ég var meira að segja með (skelfilega ljótan) sófa og gat lagt mig í vinnunni (eða hefði getað ef sófinn hefði ekki alltaf verið undirlagður af bókum og handritastöflum) og yfir í þessa ágætu lyftukompu. Sem nær reyndar yfir tvo aflagða lyftustokka sem hafa verið sameinaðir, svo að hún er ekki alveg jafnlítil og ætla mætti.

|

Af hverju er ekki Queer eye á Skjá 1 í kvöld? Eða er ég að misskilja eitthvað?

En það er ekkert nýtt undir sólinni, það má sjá hér: Qveere eye for thye medieval man.

|

5.1.04

Ég hafði alls ekki ætlað mér að gera frekari innkaup á áramótaútsölunni hjá amazon.co.uk en síðan vildi svo til að í tengslum við getraunina hjá Begga fór ég að athuga hvort eðalmyndin Zardoz, sem ég hef alveg örugglega nefnt hér áður, hefði verið gefin út á DVD. Og þá vildi einmitt svo til að hún er á útsölu og ég stóðst ekki að panta hana. Fyrst ég var að gera pöntun hvort eð var, þá bætti ég nokkrum við - The Royal Tennenbaums, Big Lebowski (við mikinn fögnuð efnafræðistúdentsins, sem rak mér rembingskoss fyrir vikið) og disk með úrvali úr The Goodies (nei, ekki Goonies), sem sumir kannast kannski við af BBC Prime. Reyndar held ég að uppáhaldið mitt, þorskastríðsþátturinn þar sem þremenningarnir fara til Íslands, stela síðasta þorskinum og lenda svo í sjóorrustu við Íslendinga á The Serpentine (minnir mig), sé ekki í þessu safni, því miður. En ég held að það sé ýmislegt skemmtilegt þarna engu að síður.

|

Fyrst ég minntist á hann afa minn hér á undan ... Það er alveg rétt hjá Siggu, hann hló mikið og innilega og ég var einmitt að hugsa um það um daginn að ég ætti eiginlega ekki neina almennilega mynd af afa því að hann er ekki hlæjandi á neinni þeirra. Reyndar reifst hann líka mikið og skammaðist, var fljótur upp og fljótur niður, og okkur systkinunum var oft meinilla við hann af þeim sökum en lærðum þó fljótt að láta skammirnar sem vind um eyru þjóta. Þó man ég einu sinni að fjandskapurinn entist nógu lengi til að við og Hörður frændi stofnuðum bandalag gegn honum, grófum gryfju í moldarflagi utan við hlóðaeldhúsið, fylltum hana af leðjudrullu og stráðum svo þurri mold yfir; ætluðum svo að láta afa ganga í þessa gildru og festast í drullunni. Planið klikkaði hins vegar af því að við höfðum gleymt að ráðgera hvernig ætti að láta afa ganga í gildruna, gryfjan var ekki á venjulegri gönguleið og okkur datt engin tylliástæða í hug til að teyma hann þessa leið. Eftir mikið ráðabrugg sem skilaði engum árangri gáfumst við upp og þetta endaði náttúrlega með því að við lentum flest eða öll í eigin gildru og sukkum sennilega í eðjuna upp fyrir stígvélin. Mamma var náttúrlega ekki mjög hrifin af þessu brölti því að auðvitað lenti á henni að þrífa af okkur.

Afi var mikill gleðimaður. Um áramótin 1974-5 var hann hjá okkur á Króknum. Upp úr miðnætti á gamlárskvöld fórum við systurnar, 16 og 17 ára, að búa okkur af stað á ballið í Bifröst. Þá rann allt í einu upp fyrir afa að hann hafði aldrei farið á áramótaball á Króknum. Þetta fannst honum ótækt; hann var rúmlega hálfáttræður, nýlega orðinn langafi, og átti þetta eftir ... Svo að hann fór með okkur Gunnu á ballið. Þetta var hið skemmtilegasta ball, afi manna hressastur, mikil gleði og mikið sungið (að vísu vorum við afi þar ekki framarlega í flokki, bæði jafn ólagviss). Ballið var búið klukkan 4 og það tók þennan venjulega klukkutíma að koma fólki út því það þurfti mikið að syngja. Einhverntíma á þeim tíma hvarf afi og ég taldi víst að hann hefði farið heim, líklega fengið far með einhverjum. Svo þegar loksins hafði tekist að koma öllum út og útséð um að manni yrði boðið í partí rölti ég heim. Og vaknaði líklega um ellefuleytið á nýársmorgni við það að móðir mín stóð yfir mér og spurði: ,,Hvar er hann afi þinn?" Hann var semsagt ekki kominn heim. Birtist þó um hádegisbil, eilítið framlágur. Seinna kom upp úr dúrnum að honum hafði verið boðið í samkvæmi (enda mun meiri stuðbolti en dótturdóttirin) og þar hafði hann haldið uppi fjörinu til klukkan níu um morguninn.

|

4.1.04

Ég var að koma úr 41 árs afmæli (það er að segja, Dagur systursonur minn varð eins árs á nýársdag - jú, hann á örugglega eftir að heyra einhverja nýárs-Dags-brandara á komandi árum) og móðir hans varð fertug í dag. Mamma hafði á orði að það væri sérkennileg tilfinning að eiga núna fjögur börn á fimmtugsaldri en þó enn undarlegra að elsta barnabarnið verður þrítugt á árinu.

Ingólfur bróðursonur minn leit framan í ömmu sína og talaði um hvað hún væri ótrúlega lík Gollum; tók þó fram að líkindin sæjust eingöngu í svipnum sem Gollum setti upp þegar hann væri búinn að beita einhverjum bellibrögðum sem aðrir hefðu fallið fyrir. Ég er ekki viss um að drengurinn hafi bætt neitt úr skák með því. Efnafræðistúdentinn rifjaði þá upp hvað honum hefði alltaf þótt langafi þeirra líkur Yoda. ,,Var hann grænn?" spurði Ingólfur. Ég flýtti mér að mótmæla því að Jón í Dal hefði verið grænn, frekar þá rauður ef hann skipti litum. Ég veit sveimér ekki hverskonar hugmyndir þessir drengir gera sér um áa sína.

|

Mikið er ég annars fegin að ég skuli ekki vera strangtrúaður gyðingur. Nógu væri nú erfitt að fara eftir öllum mataræðis- og eldunarreglunum og eiga tvöfaldan skammt af öllum áhöldum, pottum og diskum (má ekki nota það sama fyrir kjötmeti og mjólkurmat), en svo eru allar hinar reglurnar. Ég vissi til dæmis ekki fyrr en ég las um það einhvers staðar áðan að orþódox gyðingar mega ekki nota lykilkort til að opna dyr að hótelherbergjum sínum á hvíldardögum. Ef þeim tekst ekki að finna hótel sem notar gamaldags lykla verða þeir því að vera um kyrrt á herberginu allan hvíldardaginn, skilja eftir ólæst (ég las bréf frá einum sem stakk bréfmiða í raufina á læsingunni til að hurðin læstist ekki) eða sofa í lobbíinu. Og ég var að lesa bréf á póstlista þar sem mikið var rætt um hvort leyfilegt væri á hvíldardögum að ganga nálægt húsum þar sem hreyfiskynjarar gætu kveikt ljós eða sett af stað myndavélar. Og ég hafði alls ekki gert mér grein fyrir því að ef maður sér orþódox gyðingakonu berhöfðaða, þá er hún það í rauninni alls ekki, hún er með hárkollu (sem einhver gæti nú sagt að væri að fara á bakvið lögmálið en er víst í lagi að dómi sumra rabbína).

|