Efnafræðistúdentinn eldaði þessar fínu koníaksflamberuðu kjúklingabringur með rjómasósu, ofnsteiktum kartöflubátum og spínatsalati handa mömmu sinni. Alveg perfekt steiktar líka, einni mínútu skemur og þær hefðu ekki verið alveg steiktar í gegn, tveimur mínútum lengur og þær hefðu verið byrjaðar að þorna. En hann hefur sans fyrir þessu, drengurinn. Ekki slæmt ...
Núna er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi að horfa á Titanic eða halda áfram að vera í hópi þeirra örfáu sem aldrei hafa séð hana. Eiginlega langar mig ekkert sérstaklega til að sjá hana. Leonardo er náttúrlega ósköp krúttlegur en hann er bara svo ungur og auk þess er ég með fyrrverandi tvífara hans á heimilinu, það dugir mér alveg að horfa á hann.