(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

4.11.06

London calling ... eða ekki

Þá er fertugsafmælið frá. Gekk ágætlega, held ég bara. Tólf réttir og það var ekkert sem kláraðist alltof snemma og ekkert sem var alltof mikill afgangur af. Þá er ég ánægð.

Mér sýnist samt að London verði að bíða að sinni. Kannski ég breyti miðanum og fari í desember í staðinn. Gæti reynst heppilegra.

Annars hef ég líklega verið búin að afskrifa ferðina ómeðvitað fyrir löngu. Ég áttaði mig á því í gær að ég hafði ekki pantað pressupassa á sýninguna sem ég ætlaði á og ég var búin að gleyma því trekk í trekk að hafa samband við kunningjakonu mína úti, láta hana vita að ég væri að koma og bjóða henni út að borða eins og hún á inni hjá mér. Og sitthvað fleira sem ég hefði þurft að vera búin að gera en gerði ekki.

En jæja, fátt er svo með öllu illt ... Ég missi þá líklega ekki af vínsmakki ritstjórnarinnar eins og allt útlit var fyrir.

|

2.11.06

Perudraugurinn

Fyrst ég var að tala um lykla ...

Þegar ég kom heim í gær settist ég í stólinn í stofunni (eina sætið í stofunni þessa stundina), greip blað og kveikti á standlampanum.

Það gerðist ekkert.

Ég tékkaði á hvort hann hefði dottið úr sambandi. Neibb. Ég slökkti og kveikti aftur og hristi líklega lampann eitthvað í leiðinni. Skermurinn datt ofan í fangið á mér.

Hmm. Það á ekki að geta gerst því að hann er festur með því að peran er skrúfuð föst. Ég leit upp. Engin pera.

Bíddu nú við. Ég sat þarna í fyrrakvöld og þá var örugglega pera í lampanum. Og ég hafði örugglega ekki skrúfað hana úr.

Tveir möguleikar: a) það er draugur á Grettisgötunni, og nú mundi ég eftir konunni sem féll út af svölunum. b) það hafði illgjarn peruþjófur verið á ferð.

Jahá. Ég trúi samt eiginlega voða lítið á drauga. Og ég veit um mann sem er með lykla að íbúðinni og er trúandi til að laumast inn, hnupla ljósaperu frá aldraðri móður sinni og gleyma að láta hana vita. Ég hringdi í hann og spurði hvort hann hefði verið á ferðinni.

Jú, hann játaði það. Hafði reyndar tekið hinn standlampann (sem var perulaus) og peruna úr þessum til að varpa ljósi á einhverja iðnaðarmenn sem ekki gátu lýst sér sjálfir. Og lagði í leiðinni gildru fyrir grunlausa móður sína. Eins gott að þetta var fisléttur tauskermur en ekki níðþungur glerljósaskermur úr sem ég fékk í kjöltuna.

Ég er að hugsa um að heimta af honum lyklana aftur.

|

Lykilmanneskjan

Mér tókst að koma skipulagi á lyklamálin mín í gær. Það var nú afrek. Ég hef nefnilega að undanförnu gengið um með lykla að þremur íbúðum á Skólavörðuholtinu - tveir lyklar fyrir hverja íbúð, plús svo var skipt um lás á tveimur þeirra en ég var enn með gömlu lyklana. Lykla að aðskiljanlegum portum, geymslum, bakdyrum og skúrum fyrir tvær af íbúðunum. Gamla og úrelta lykla að húsnæði Fróða á Höfðabakka, sem ég gleymdi að skila inn þegar skipt var um lás í vor eða fyrravetur. Hugsanlega jafnvel lykla að Seljaveginum, ég er ekki viss. Og nokkra lykla sem ég hef ekki hugmynd um að hverju ganga ... Og flestir þessir lyklar skröltu lausir í vösunum á kápunni minni og það var orðið meiriháttar bíó (skilst mér) að fylgjast með mér leita að rétta lyklinum.

Nú setti ég alla lykla sem ég gæti hugsanlega þurft að nota á næstunni á eina kippu. Nema reyndar lykilinn að bakdyrunum á Grettisgötunni og lyklana að kjallaranum og geymslunni þar. Þannig að ég er bara með níu lykla á mér. Lyklarnir eru meira að segja í skipulagðri röð á kippunni.

Ég er mjög stolt af sjálfri mér.

|

1.11.06

Samningamanneskjan

Gagnlega barnið segir að hér eftir megi ég ekki segja já við neinu nema ræða fyrst við sig eða Boltastelpuna. Sennilega helst Boltastelpuna, sem er mjög kræf í öllum samningum og einkar séð í peningamálum. Best að ég geri hana að umboðsmanni mínum. Þetta er jú barnið sem kom heim úr Portúgalsferð um árið með tveimur evrum minna en hún átti í gjaldeyri þegar hún fór út og það var af því að hún týndi þessum tveimur evrum á flugvellinum á leiðinni heim. Hún mundi sko passa sig að hafa alla samninga skriflega ... Verst að hún tæki örugglega hressileg umboðslaun fyrir vikið.

En jæja, blaðið er komið í hús og mér skilst að búið sé að dreifa því í búðir - reyndar var búið að segja okkur að það yrði ekki gert fyrr en á morgun og við Friðrika fullyrtum það í Ísland í bítið í morgun. Þess vegna kemur það eitthvað seinna til áskrifenda í þetta skipti, ég vona að það endurtaki sig ekki - en áskrifendur fá nú líka fyrsta blaðið frítt svo að vonandi fyrirgefst okkur það.

Ef þið hafið séð blaðið, látið þá endilega vita hvað ykkur finnst - hér eða sendið mér póst á nanna (at) bistro.is.

|

Nóg að gera

Ég hef áður andvarpað yfir eigin skorti á skipulagshæfileikum, sem gera það að verkum að ég þyrfti iðulega helst að gera milljón hluti í einu. Eða allavega tíu, svo allar sanngirni sé gætt.

Til dæmis núna.

Ég held að ég leggi það strax í salt að koma mér fyrir í nýju íbúðinni. Það má bíða. Ákveðin önnur verkefni bíða sjálfkrafa a.m.k. þangað til ég er búin að fá mér nýja heimatölvu.

En það er víst nóg eftir samt. Blað þar sem ég tók við aðstoðarritstjórn í morgun, bók sem ég er að skrifa og á að vera búin að skila handriti að, afmælisveisla sem ég lofaði að sjá um, matarboð sem ég er búin að lofa fólki hægri vinstri ...

Og ég sem er á leið til London í næstu viku.

Ég læri aldrei af reynslunni.

|

31.10.06

Þetta átti ég nú að vita

Hvað er ég annars að blekkja sjálfa mig með því að segja að jólin byrji í desember? Á matarblaði byrja þau sko í október og eru á fullu fram yfir miðjan nóvember ...

Af þeim sem ég hef sýnt Bístró hefur helmingur spurt hvernig hægt sé að gerast áskrifandi. Hinir fá flestir blaðið ókeypis og þurfa ekki að spyrja ...

|

Fyrsta eintakið

Ég var að fá fyrsta blaðið af Bístró í hendurnar.

Það er ... flott. Meiriháttar flott. Finnst mér. En ég er kannski ekki alveg dómbær á það.

Það verður gaman að byrja að vinna á Bístró í fyrramálið.

|

30.10.06

Ísskápsraunir

Mig vantar spýtu og mig vantar sög ...

Nei, reyndar vantar mig bara spýtu, ég á sög. Þarf að saga út plötu sem er 60x60 til að skella undir ísskápinn minn svo að hann komist inn í innréttinguna. Það er nefnilega 8-10 cm hár stallur sem hann á að fara á og hann er ekki alveg nógu djúpur svo að ísskápurinn stóð háskalega tæpt þegar reynt var að setja hann þar og gerði heiðarlega tilraun til að steypast fram fyrir sig þegar snert var við honum.

Þannig að nú er að finna spýtuna. Þangað til stendur ísskápurinn nefnilega á miðju eldhúsgólfinu og tekur því varla að setja neitt í hann af því að svo þarf að tæma hann aftur til að lyfta honum upp á stallinn.

|

Var einhver að tala um nörda?

Ókei, ókei. Það er líklega ég sem er yfirnördinn. Allavega ef marka má úrslitin í keppninni hans Stefáns ...



(Ég er samt ekki svo mikill nörd að ég geti áttað mig á hvernig á að setja inn krækjur á þessari tölvu, sem birtir ekki tákn til þess brúks í Blogger eins og aðrar tölvur. Er það þekkt vandamál eða bundið við þennan eina makka?)

|

Myndarpiltur


Hann er samt ekki bara nördalegur, blessaður drengurinn, hann er töluvert matarlegur líka. Enda ætlar hann að verða mótorhjólakokkur þegar hann verður stór.

|

29.10.06

Það eru ekki alltaf jólin

target="_blank">src="http://atli.askja.org/jol/banner.gif">

Ég sit hér einmitt og þýði bækling sem er uppfullur af jólavörum.

|

Fyrsta nóttin

Jæja, ég er þá loksins flutt - eða svona að mestu; einkasonurinn og skylmingastúlkan hafa verið býsna dugleg við að tína saman alls konar eftirhreytur í dag og selflytja til mín en ýmislegt er eftir enn. Of dugleg eiginlega, þau hafa komið með eitt og annað sem ég ætlaði bara að henda.

Meiri djöfuldómur af drasli sem maður safnar að sér á fimmtán árum. Eða rúmlega það því að auðvitað átti ég eitthvað af dóti þegar ég flutti á Kárastíginn. Kannski bara verra að ég hafði her manns til að flytja fyrir mig þá. Ég hefði verið duglegri að henda annars.

En allavega, ég svaf vel á Grettisgötunni fyrstu nóttina. Vaknaði seint. Það hefði nú ekki tekist á Kárastígnum því að þar mættu smiðir snemma í morgun að rífa niður veggi. Meiri framkvæmdagleðin í þessu unga fólki. Það er að segja tengdadótturinni; ég er hrædd um að einkasonurinn hefði seint átt frumkvæði að slíku.

Fór í Ikea í dag með gagnlega barninu og fjölskyldu til að kaupa eitt og annað, þar á meðal gardínur fyrir svefnherbergið. Svo að ég þurfi ekki að hengja aftur teppi fyrir gluggann. Nema ég þarf að sauma á þær borða og er viss um að ég nenni ekki að gera það í kvöld af því að ég er að fara í matarboð aldrei þessu vant. Þannig að kannski verða það bara teppin aftur.

Og þó, saumavélin stendur reyndar tilbúin á eldhúsborðinu af því að mitt fyrsta verk á nýja heimilinu var að gera við buxur fyrir Boltastelpuna, sem lenti í því óhappi að rífa gat á splunkunýju buxurnar sínar.

|