(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

26.7.03

Áður en ég gleymi því alveg: ég var ekki búin að svara fyrirspurn varðandi geymslu á lambalæri sem ég fékk um daginn og þar sem ég á erfitt með að senda tölvupóst heiman að frá mér eins og er, þá kemur svarið hér, ég vona að það skili sér: Jú, það ætti að vera í góðu lagi að geyma lærið til jóla, svo framarlega sem það hefur ekki beðið of lengi áður en það var fryst.

Bless á meðan.

|

Ég er semsagt að fara norður núna á eftir og verð líklega ekki nærri nettengdum tölvum næstu dagana - þó er aldrei að vita. Tek reyndar tölvuna með en það er af því að ég ætla að reyna að vinna eitthvað. Skrifa einhverjar greinar og semja texta sem ég er búin að taka að mér að skrifa. Sennilega verður mér ekkert úr verki en það er allt í lagi að vera svolítið bjartsýn.

Þetta gæti annars orðið í síðasta skipti sem ég kem á Smáragrundina, allavega til að vera þar einhvern tíma. Gömlu hjónin eru nefnilega að byggja - það er að segja, þau eru að kaupa íbúð í blokk sem verið er að byggja fyrir aldraða suður í mýrinni rétt hjá Skaffó. Mér skilst að hún eigi að vera tilbúin næsta vor, hvort sem það gengur nú eftir.

Ég er nokkuð viss um að ég veikist fyrir norðan. Það gerist næstum alltaf. Móðir mín býr í gróðurhúsi (eða reyndar ekki, en húsið er stappfullt af pottablómum) og ég er örugglega með ofnæmi fyrir einhverju af þessum gróðri. Reyndar hefur ástandið skánað eftir að hún hætti að rækta tómata í glugganum á gamla herberginu mínu, svo að kannski leggst ég ekki í rúmið í þetta skipti. En ég er þegar byrjuð að hnerra, sennilega bara af því að ég veit á hverju ég á von. Einhverjum af þessum plöntum - til dæmis japanska trénu sem er fyrir löngu búið að yfirtaka eitt hornið í stofunni alveg - bjargaði hún reyndar upphaflega frá mér þegar ég var alveg að því komin að drepa þær. Einu pottaplönturnar sem þrífast hjá mér eru þær sem geta séð nokkurn veginn algjörlega um sig sjálfar og eru ódrepandi með öllu. Það veit mamma og það er gott, þá þarf ég ekki að óttast að hún reyni að koma einhverjum af þeim fyrir hjá mér þegar þau minnka við sig. Eins og pabbi er alltaf að reyna að gera við bækurnar.

Ekki að ég hafi neitt á móti bókum. Síður en svo. Pabbi er semsagt byrjaður að skipta bókunum á milli okkar systkinanna smátt og smátt og er margbúinn að bjóða mér hinar og þessar bækur sem ég væri meira en til með að eiga. En ég hef bara ekki pláss. Ég á nógu erfitt með að koma mínum eigin bókum fyrir og í hvert skipti sem ég eignast nýja bók (og það gerist oft), þá þýðir það einfaldlega að einhver önnur bók verður að víkja. Allavega ofan í kassa.

Þetta bjargast auðvitað allt þegar efnafræðistúdentinn flytur að heiman. Þá verður herberginu hans breytt í bóka/vinnuherbergi. Gallinn er að þetta er ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Hann verður eins og Jesús Kristur: Býr heima fram yfir þrítugt og ef hann gerir eitthvað er það kraftaverk.

|

25.7.03

Ég var að átta mig á því að það er kannski óvenjulega alþjóðlegt andrúmsloft hér á Kárastígnum í kvöld. Fyrir utan náttúrlega þessi tuttugu kíló af kryddi frá öllum heimshornum, sem eru enn út um allt í eldhúsinu (að ógleymdu suðurafríska rauðvíninu sem ég er að dreypa á með spænska manchego-ostinum), þá er Kínverska mafían í heimsókn, efnafræðistúdentinn segir sögur af allsberum Spánverja í heita pottinum í Sundhöllinni með miklum tilþrifum, og svo er Boltastelpan hér einhvers staðar, sennilega að spila fótboltatölvuleik með strákunum. Hún er nefnilega hálfur Skoti og svo er víst hægt að finna bæði dansk/þýska gyðinga og indverska sjómenn á meðal forfeðra hennar. Efnafræðistúdentinn er hálfur Vestmannaeyingur en það telst kannski ekki með.

Ég er hins vegar að hverfa úr þessu alþjóðlega andrúmslofti í bili og fer í Skagafjörðinn í fyrramálið.

|

Nú vantar mig álit:

,,Aðalatriðið er uppskriftirnar"

eða

,,Aðalatriðið eru uppskriftirnar"

Ég tek fram að sjálf mundi ég forðast það eins og heitan eldinn að skrifa svona.

|

Um kynferðislegt hlutverk karlmannsskónna, af femin.is:

,,Karlmennirnir gengu um stoltir á hinum támjóu og löngu skóm og voru sér meðvitaðir um táknrænt gildi skóna enda voru þeir ósparir á vaxefnin til að auka gljáa skónna. En þeir höfðu annað notagildi. Með tánni veittist þeim hægðarleikur að smokra henni undir pilsfald kvenfólksins og sér í lagi þegar konan sat andspænis þeim. Þannig gátu þeir kitlað kvensuna enda vel til fallið í pörunarleik kynjanna."

Skyndilega er ég farin að líta Leningrad Cowboys allt öðrum augum.

Og hvað með hárgreiðsluna?


|

Við vorum uppi í Odda í gær að skila af okkur næsta Gestgjafablaði í prentun. Þetta er ,,græna blaðið" svokallaða, þar sem aðaláherslan er á grænmeti og grænmetisrétti. Ég er t.d. með þátt um grænmetisbuff og þess háttar í blaðinu og þar á meðal falafel. Það var einmitt verið að biðja mig um uppskrift að falafel á dögunum og ég ætla að laumast til að setja þessa uppskrift hér inn þótt blaðið sé ekki komið út.

Í Egiftalandi, þar sem falafel er upprunnið, eru bollurnar yfirleitt gerðar úr hestabaunum, ful nabed, en í Sýrlandi, Líbanon, Jórdaníu og Ísrael er líklega mun algengara að nota kjúklingabaunir og mínar eru þannig. Því miður á ég ekki 'aleb falafel, sem er sérstakt tól (dippidúttur) til að móta bollurnar, en ég rúlla þær bara á milli lófanna í staðinn og það virkar ágætlega. Bara passa að hafa maukið ekki of þykkt, þá verða bollurnar þurrar.

Það má auðvitað nota niðursoðnar kjúklingabaunir en mér finnst falafel sem gert er úr ekki alveg fullsoðnum baunum vera betra. Þótt það kosti að ég þurfi að leggja þær í bleyti daginn áður, sem ég nenni annars yfirleitt ekki.

Falafel

250 g kjúklingabaunir, þurrkaðar
1/2 laukur, saxaður
6 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 tsk kóríanderfræ, möluð
2 tsk kummin, malað
1-2 msk steinselja, söxuð
safi úr 1/2 sítrónu
nýmalaður pipar
salt
2 msk hveiti eða heilhveiti
1 l olía til djúpsteikingar


Baunirnar lagðar í bleyti daginn áður en á að nota þær og þær látnar standa í kæli. Vatninu er svo hellt af þeim, þær settar í pott og hellt yfir svo miklu köldu vatni að það fljóti a.m.k. 2 cm yfir. Soðnar í 20 mínútur og síðan hellt í sigti og látið renna af þeim (gott að geyma soðið). Settar í matvinnsluvél ásamt lauk og hvítlauk og vélin látin ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Kryddað með kóríander, kummini, steinselju, sítrónusafa, pipar og salti. Hveitinu hrært saman við og vætt í deiginu með baunasoði eftir þörfum (einnig mætti hræra einu eggi saman við). Deigið á að vera svo þykkt að auðvelt sé að móta það. Svo eru rúllaðar úr því kúlur með hveitistráðum höndum – þær ættu að vera á stærð við golfkúlur eða örlítið minni. Olían hituð í potti eða á djúpri pönnu og bollurnar steiktar við góðan hita þar til þær eru dökkgullinbrúnar á öllum hliðum. Snúið oft á meðan svo þær steikist jafnt. Látið renna vel af þeim á eldhúspappír og síðan eru þær bornar fram heitar með hreinni jógúrt og t.d. tómötum og gúrkum, eða góðu grænmetissalati, eða með hummus og grænmeti. Einnig má bera bollurnar fram í pítubrauði ásamt grænmeti og jógúrt, e.t.v. kryddaðri með ferskri mintu og örlitlum chili-pipar.

|

24.7.03

Það eru til ýmis húsráð sem eiga að koma í veg fyrir táraflóð þegar verið er að saxa lauk. Á sínum yngri árum setti efnafræðistúdentinn til dæmis alltaf á sig sundgleraugu þegar hann var skikkaður í laukskurð og dugði ágætlega. Sjálf er ég ekkert sérstaklega næm fyrir laukgufum og hef ekki haft mikinn ama af þessu, þótt það hafi vissulega komið fyrir.

En nú gæti farið svo að allt táraflóðið heyrði sögunni til, ef er að marka þessa frétt. Það er að segja, nema auðvitað þegar maðjur vill borða laukinn hráan og hafa bragðið skarpt. Þetta ætti hins vegar varla að hafa mikil áhrif á bragðið af lauk sem er eldaður. Kannski er samt bara verið að hverfa aftur til fortíðarinnar með þessum ræktunartilraunum, því að miðað við hvað sumar fornþjóðir (Rómverjar til að mynda) virðast hafa borðað mikið af hráum lauk, þá er talið að laukur þeirra tíma hafi veri miklum mun mildari en venjulegur laukur er nú á tímum.

|

Þetta er þörf uppfinning.

Ætli þeir eigi svona til í Byko?

|

Það er nú erfitt að standast svona áskorun ... Líklega þekkir hún mig einmitt mjög vel.

|

Þar sem kommentakerfið hjá prímusaviðgerðamanninum var niðri þegar ég reyndi að óska honum til hamingju með afmælið áðan, þá kemur afmælisóskin hér, á nokkrum völdum tungumálum:

Inuuinni pilluarit!
Huttida Habba Subashayagalu!
Droonkher Tashi Delek!
Wszystkiego najlepszego zokazji urodzin!
Wadhdiwasachya Shubhechha!
Vsechno nejlepsi!
Feneligiz Cunumplegeanagonos!


... og svo framvegis.

|

Ég er nú vön að takmarka mig við svona eitt netpróf á mánuði en þegar ég rakst á þetta próf, sem er þar að auki samið af einhverjum sem kallar sig dipndotts (dippidúttar er eitt af mínum uppáhaldsorðum), þá stenst ég það ekki:


sgt. pepper
Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band


Which Beatles Album Are You?
brought to you by Quizilla


Sem minnir mig á: veit einhver hvernig á að finna rostunginn sem á að vera falinn á myndinni? Ef hann er þar þá. (Mig minnir að ég hafi einhvern tíma fyrir mörgum árum fundið hann. Eða var það kannski Paul?)

|

23.7.03

Dálítið skemmtileg pæling um blogg og fegurð og kvenleika.

|

Það kemur varla nokkrum á óvart ef ég segi að ég er afskaplega hrifin af kryddi. Matur án krydds er næstum óhugsandi en þannig hefur það auðvitað ekki alltaf verið. Þegar ég var krakki átti mamma pipar og karrí í skúffu í eldhúsinu, kanel, negul ... ætli það hafi verið fleira? Ég hugsa ekki. Núna á ég marga tugi kryddtegunda og sumar eyðast ansi hratt. Krítarfararnir færðu mér þurrkaðar kryddjurtir og saffran í gær, það var það eina sem ég bað um.

Og áðan kom hingað maður með líklega kringum tuttugu kíló af kryddi og kryddblöndum í þremur stórum pappakössum. Fimmtíu til sjötíu mismunandi tegundir. Kryddlyktin í eldhúsinu er næstum eins og í litlu kryddbúðinni við Blenheim Crescent, beint á móti Books for Cooks ... Það er stundum gaman að vera ég.

|

Hádegismaturinn var haggis í boði Guðrúnar Hrundar, sem er nýbúin að vera í Glasgow. Ég útbjó mashed neeps 'n' tatties til að hafa með. Það vantaði bara a wee dram til að setja punktinn yfir i-ið. En ansi gott samt.

|

Raftækjaverslunin Fönix mætti nú alveg uppfæra vefinn hjá sér ... ja, eða öllu heldur, setja eitthvað inn á hann.

|

Jamm ...

Democrat
Threat rating: High. The Bush administration is
concerned that it may not get a second term.
Therefore, we are going to change the rules so
that each Democrat vote only counts as 0.2
votes because Democrat is a shorter word than
Republican


What threat to the Bush administration are you?
brought to you by Quizilla

|

22.7.03

Í mjög fínum veislum í útlandinu tíðkaðist (og tíðkast kannski enn, ég veit það ekki, er svo sjaldan boðin í mjög fínar veislur í útlöndum) að sérstakur butler eða einkennisbúinn þjónn stendur við innganginn að veislusalnum og kallar hástöfum nafn og titil gestanna sem eru að ganga inn, ,,Lord and Lady Finkelstein-Whatnot" eða eitthvað álíka. Þetta datt mér í hug áðan af því að ég var að lesa um breskan hefðarmann sem hét (í alvöru) Leone Sextus Denys Oswolf Fraduati Tollemache-Tollemache-de Orellana-Plantagenet-Tollemache-Tollemache og var majór (það hvað Tollemachenafnið er margendurtekið þýðir væntanlega að forfeður hans hafi verið mikið í því að giftast innbyrðis, rétt eins og mínir forfeður) - allavega, ég var að reyna að ímynda mér aumingja butlerana sem hafa lent í því að kynna þennan ágæta mann. En reyndar eru nú margir breskir höfðingjar sem heita svona nöfnum ekkert að flagga þeim öllum hversdags. Sir Ranulph Fiennes heitir til dæmis réttu nafni Ranulph Twistleton-Wykeham-Fiennes.

Svo eru aðrir sem eru síst að stytta nöfnin, eiginlega frekar þvert á móti. Ég á til dæmis matreiðslubók (án ártals, ég giska á 1930-40) eftir danska frú að nafni Aase de Neergaard. Það hefur henni ekki þótt nógu fínt, þrátt fyrir ,,de"-ið, svo að framan á kápunni stendur Aase de Neergaard, födt Krag-Juel-Vind-Frijs. Svo að öllum sé nú ljóst að það er engin venjuleg fröken Jensen sem skrifar bókina. (Á titilsíðu er reyndar enn hnykkt á, þar stendur ,,födt Comtesse Krag-Juel-Vind-Frijs"). Og titillinn er í fullkomnu samræmi við þetta: Mine egne opskrifter. Lille kogebog for gourmet'er. Það á semsagt að vera á hreinu að þetta eru ekki hvaða uppskriftir sem er, þetta eru prívatuppskriftir Krag-Juel-Vind-Frijs greifynju sjálfrar, og þær eru náttúrlega ekki fyrir hvern sem er. Bara fyrir ,,gourmet'er".

Verst að ég skuli ekki geta leikið þetta eftir. En því miður er varla eitt einasta ættarnafn að finna í öllum mínum ættartölum, hvorki fín né ófín, og lítið á því að græða ef ég færi að reyna að púsla saman nöfnunum á Gíslunum úr föðurættinni minni og Eiríkunum úr móðurættinni. Það yrði aldrei virðuleg runa.

|

Ég er að elda kjöt í karríi handa Krítarförunum. Boltastelpan kom með mér heim til að hjálpa mér við eldamennskuna og var búin að lýsa því margsinnis hvað hún ætlaði að vera dugleg og hvað það yrði gaman að vera með mér af því að við höfðum ekki sést í hálfan mánuð. Þremur mínútum eftir að við komum hingað var hún farin upp til Skara og Evu að horfa á vídeó með Matthildi.

Sauðargæran á tveggja ára afmæli í dag. Hann fékk loftpressu frá foreldrum sínum. Þau höfðu hins vegar ekki alveg áttað sig á að loftpressan er sko ekki bara þykjustu, hún gengur fyrir rafhlöðum og framkallar bæði hávaða og titring. Sauðargæran er búin að elta fólk út um allt hús með loftpressu að vopni og hamast á hinum ýmsu líkamshlutum þess. Eins gott að þau gáfu honum ekki keðjusög.

Annars á ég svosem eftir að kaupa afmælisgjöf handa honum. Hmm.

|

Í tilefni fréttar um að fiskneysla dragi úr líkum á Alzheimer, þá er hér fiskuppskrift gærkvöldsins. Ekki veitir mér af. Það má alveg nota dálítið minni ólífuolíu en hún er náttúrlega rosalega holl líka.

(Ef einhver er enn á kolvetnakúrnum má setja annað grænmeti í staðinn fyrir kartöflur. En ég var einmitt að sjá frétt um það á Sky í gærkvöldi að stóraukin hætta væri á nýrnasteinum hjá þeim sem væru á svoleiðis kúr. Ég fékk einu sinni nýrnasteina. Einu sinni er meira en nóg, svo að ef mig vantaði ástæðu til að sneiða hjá kolvetnakúrnum (sem mig vantar ekki), þá dugir þessi fullkomlega.)

Fiskur í tómat-paprikusósu

700 g ýsuflök (eða annar fiskur), roðflett og beinhreinsuð
nýmalaður pipar
salt
600 g kartöflur
3 msk ólífuolía
1 dós tómatar, saxaðir
1-2 paprikur, gjarna gular
1-2 vorlaukar
2 msk sólþurrkaðir tómatar og hvítlaukur (mauk frá Sacla; mætti líka vera rautt pestó)
nokkur basilíkublöð (má sleppa)


Fiskurinn skorinn í stykki, kryddaður með pipar og salti og látinn liggja smástund. Kartöflurnar afhýddar, skornar í bita og soðnar í saltvatni þar til þær eru rétt meyrar. Á meðan er ofninn hitaður í 200°C. Eldfast fat penslað með 1 msk af olíu, fiskbitunum raðað í það og kartöflubitunum dreift yfir. Söxuðu tómötunum hellt jafnt yfir. Paprikurnar fræhreinsaðar, skornar í ræmur og dreift yfir. Vorlaukurinn saxaður og dreift yfir. Sólþurrkaða tómatmaukið hrært með afganginum af olíunni (2 msk), meiri pipar og salti, og blöndunni dreypt jafnt yfir fiskinn og grænmetið. Sett í ofninn í 15-20 mínútur, eða þar til fiskurinn er rétt eldaður í gegn. Basilíkan söxuð og dreift yfir örfáum mínútum áður en fiskurinn er tekinn út.

|

Ég fór að velta því fyrir mér áðan hvað veldur því að stundum sér fólk ekki langeinföldustu lausnina á einhverju þótt hún blasi við öllum öðrum. Eða kannski er ,,einföldustu" ekki rétta orðið, því slík lausn felur oft í sér að í staðinn fyrir að endurtaka einhvern mjög mjög einfaldan verknað (ýta stöðug á sama takkann á lyklaborði, eitthvað slíkt) þarf að gera eitthvað sem er kannski örlítið flóknara en vinnur verkið á hundrað sinnum styttri tíma. Maður bara sér það ekki fyrr en einhver bendir á það.

Ég gæti sagt margar svona sögur af sjálfri mér en það dæmi sem ég man samt best eftir var strákur sem ég þekkti einu sinni. Ég sat á móti honum við borð í sjoppunni í Varmahlíð; hann hafði verið að borða franskar af pappadiski og var búinn með skammtinn en var enn svangur. Einhver annar, sem líka hafði keypt sér franskar en hafði svo enga lyst, ýtti til hans diskinum sínum og sagði honum að hann mætti eiga frönskurnar. Strákurinn fór að tína þær yfir á diskinn sinn með tannstöngli. Eina í einu, hægt og rólega. Ég horfði á nokkra stund og spurði svo hvers vegna hann tæki ekki einfaldlega diskinn og hellti kartöflunum yfir á sinn disk. Hann leit á mig, leit á diskinn, svo aftur á mig, sagði ,,Andskoti ertu snjöll," og tók diskinn með kartöflunum, hvolfdi þeim yfir á sinn disk og borðaði þær svo. Með tannstönglinum.

Nokkrum mánuðum seinna var þessi strákur skorinn upp við heilaæxli og eftir að ég frétti það hef ég alltaf kennt því um. En reyndar gerðist atvikið á sunnudegi um verslunarmannahelgi. Það gæti líka verið skýring.

|

21.7.03

Þegar ég kom heim beið eftir mér póstkort sem Boltastelpan hafði skrifað daginn eftir komuna til Krítar. Það kom þó á undan henni (flugvélin er komin í loftið fyrir nokkru). Það kemur ekkert á óvart að textinn er allur um mat og ketti. Framan á kortinu er aftur á móti mynd af ævafornri svartklæddri grískri kerlingu að baka daktyla-brauð í útiofni. Efnafræðistúdentinn fékk líka tvö póstkort, bæði eru skreytt myndum af grískum karlfauskum. Grikkir verða mjög myndrænir með aldrinum.

|

Ég hef oft nefnt staðalímyndir að undanförnu og þegar ég var að rölta í vinnuna áðan fór ég að hugsa um eina slíka, sem ég passa kannski ekki nógu vel inn í. Það er ömmuímyndin. Ég er nefnilega búin að vera í fríi frá ömmuhlutverkinu í hálfan mánuð en nú er von á fjölskyldunni frá Krít í kvöld og ég geng inn í það aftur. Og ég er bara ekki alveg að standa mig þar, ekki ef ég skoða staðalímyndina.

Í langflestum þeim bókum sem ég las þegar ég var krakki, og las fyrir börnin mín þegar þau voru lítil, og núna fyrir barnabörnin, þá hafa ömmur verið tiltölulega einsleitur hópur, að vísu alltaf með undantekningum. Þetta kemur fram bæði í texta og ekki síður í myndskreytingum.

Ömmur eru gráhærðar og hrukkóttar með gleraugu. Ókei, ég er með gleraugu, en ég er tiltölulega hrukkulítil og það er ekki eitt grátt hár í hausnum á mér. (Ömmur segja heldur ekki ókei í tíma og ótíma en það er önnur saga.)

Ömmur eru alltaf heima, þær vinna ekki úti. Ég reikna með að vera á vinnumarkaði í tuttugu til tuttugu og fimm ár í viðbót og verð trúlega orðin langamma þegar ég hætti.

Ömmur dunda sér við að steikja kleinur, baka pönnukökur, prjóna fyrir framan sjónvarpið og dútla sér í garðinum. Kleinur og pönnukökur, jújú. En ég spila tölvuleiki og flakka á Netinu í stað þess að prjóna og reyta arfa.

Ömmur fara á fund í kvenfélaginu eða félagi eldri borgara. Ég fer á Vínbarinn eða Næsta bar.

Ömmur lesa ævisögu Jóns Baldvins, Húsfreyjuna og minningargreinarnar í Mogganum. Ég kaupi ekki Moggann og les þessa dagana aðallega um svall, svik og svínarí í Róm til forna. Og matreiðslubækur náttúrlega, en það er alveg bærilega ömmulegt.

Ömmur horfa á dýralífsþætti, Maður er nefndur og The Bachelor (allavega þessar sem vinna með mér). Ég horfi eiginlega ekki á neitt þessa dagana nema Red Dwarf og The Young Ones á BBC Prime.

Ömmur eru gamlar. Sko. Í fyrra var ég í heimsókn hjá gagnlega barninu mínu og þá kom Boltastelpan dótturdóttir mín heim úr skólanum og bekkjarsystir hennar með henni. Boltastelpan taldi ástæðu til að kynna mig fyrir vinkonunni og gerði það með orðunum: ,,Þetta er amma mín. Hún er fjörutíu og fimm ára." Bekkjarsystirin leit á mig og sagði svo: ,,Mamma mín er eldri en þú." Bætti svo við eftir andartaksþögn: ,,Og ég á tvo yngri bræður."

Mér leið eins og ég hefði hrapað niður um mörg þrep í ömmuvirðingarstiganum, enda held ég að það hafi verið tilgangurinn.

Ég held að það sé langt í að ég verði einhver myndabókaamma.

|

20.7.03

Beanz Meanz Heinz ... Heinz er að keyra núna gömlu svarthvítu baunaauglýsingarnar sínar í breskum sjónvarpsstöðvum og láta áhorfendur kjósa um hvort eigi að halda í slagorðið ,,Beanz Meanz Heinz" eða skipta því út fyrir eitthvað nútímalegra. En ég veit ekki - línurnar ,,A million housewives every day pick up a tin of beans and say Beanz Meanz Heinz" var einróma kjörinn besti auglýsingasöngur allra tíma fyrir nokkrum árum. Ég veit það nú ekki en mér fannst allavega gaman að heyra hann og sjá gömlu auglýsinguna í sjónvarpinu áðan.

Annars reyndi Heinz fyrir nokkrum árum að skipta slagorðinu út fyrir ,,Beanz Buildz Britz". Það virkaði ekki.

|

Ég sá að á spjallþræðinum Sjálfstæðar konur á femin.is var mikið verið að velta því fyrir sér í dag hvenær eiginlega ritstjóri Fréttablaðsins fengi sunnudagsmoggann sinn. Eitthvað vegna þess að sumar höfðu ekki fengið blaðið fyrr en í morgun, eins og Fréttablaðið, og voru að pæla í hvort Mogginn væri kominn í svona desperat samkeppni við blaðið. Ef ég blandaði mér einhvern tíma í umræður þar á bæ, þá hefði ég svosem getað upplýst þær um að hann var að kaupa Moggann úti í Krambúð um hálftvöleytið í dag. Maðurinn hefur greinilega ekki miklar áhyggjur af samkeppninni fyrst hann er ekki einu sinni áskrifandi.

|

Ég á fullt af gagnslitlum heimilistækjum og allskyns dippidúttum. En þetta tól hef ég ekki séð fyrr. Og myndi sennilega ekki kaupa ef ég rækist á það.

|

Það er að hefjast einhvers konar nafngjafarathöfn í garðinum hér beint fyrir neðan svalirnar og mér til skelfingar er verið að útbýta blöðum, sem ég geri ráð fyrir að þýði fjöldasöngur. - Jæja, það er nú kannski allt í lagi, mér sýnist þetta bara vera einn stakur texti.

Sjálf var ég að enda við að baka alveg hreint ljómandi góðar bláberjamúffur í morgunmatinn og uppskriftin kemur hér á eftir.

Breaking News: Nafn barnsins hefur nú verið afhjúpað (bókstaflega; Matthildur stóra systir svipti yfirbreiðslunni af skilti með nafninu). Nýi nágranninn heitir Júlía Óskarsdóttir.

Það er semsagt hægt að fá hræódýr amerísk bláber í Nóatúni núna (eða var fyrir helgi) og hvað sem um Betty Crocker má segja, þá eru þessar betri; þetta er samt algjör grunnuppskrift og hægt að breyta út af henni á ýmsan hátt. Múffurnar verða léttar og frekar lausar í sér en mjög góðar, sérstaklega á meðan þær eru enn volgar. Ég á múffuform úr málmi sem ég set pappírsformin í en það er hægt að baka þær eingöngu í pappírsformum (tvöföldum) en setja þá kannski aðeins minna deig í þau og hafa múffurnar ögn fleiri.

Bláberjamúffur

125 g smjör
1 egg, stórt
150 ml mjólk
1/2 tsk vanilla (essens eða dropar)
225 g hveiti
2 tsk lyftiduft
100 g sykur
150-200 g bláber


Ofninn hitaður í 210 gráður. Smjörið brætt og síðan er því hrært saman við egg, mjólk og vanillu. Hveiti, lyftidufti og sykri blandað saman og síðan hrært saman við mjólkurblönduna. Best er þó að hræra ekki meira en þarf til að deigið verði kekkjalaust. Bláberjunum blandað saman við með sleikju. Skipt á 12 múffuform og bakað í miðjum ofni í 18-20 mínútur, eða þar til múffurnar hafa lyft sér vel og eru gullinbrúnar. Bestar heitar eða volgar.

|