Ömmur og reynsla
Dóttursonurinn er í heimsókn um helgina og við röltum saman í bæinn. Fórum inn í bókabúð og ég var að fletta matreiðslubókum eða einhverju ámóta og hann var eitthvað að grúska við næsta borð. Þegar ég gekk til hans varð hann frekar skrítinn á svipinn, enda reyndist hann hafa verið að fletta kynlífsstellingabók.
- Sjáðu amma, sagði hann og þóttist vera hneykslaður. - Er ekki skrítið að gefa út svona bækur?
- Ja ... sagði ég. - Við gefum þær út.
- Ó, sagði drengurinn.
- Og ég var einmitt að vinna í þessari, lesa textann yfir og stytta hann og svona.
- Þú? sagði hann vantrúaður. - Af hverju varst þú látin gera það?
- Ja ... ætli það sé ekki bara af því að ég er svo vön, sagði ég.
Svo sá ég svipinn á drengnum og flýtti mér að bæta við:
- Að lesa yfir svona texta, meina ég.
- Sjúkkit, sagði barnabarnið. - Ég hélt ...
- Af því að ég er svo gömul og lífsreynd, sagði ég.
Svo ræddum við það ekki meir.