(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

20.7.07

Álfar og draugar

Ég minnist öðru hverju á búálfa hér og kenni þeim gjarna um eitt og annað. Þar með er ekki sagt að ég trúi á búálfa. Né heldur nokkra aðra álfa. Og hef aldrei gert, ekki einu sinni þegar ég var lítil. Ekki einu sinni þegar Stebbi afabróðir var að segja okkur frá álfkonunni sem hann sá þegar hann var lítill við stóra steininn uppi í Hólfi.

Ég veit svosem ekki hvort Stebbi trúði sjálfur þessari álfkonusögu sinni. Hann sagði mikið af sögum. En ef svo var, þá er hann líklega sá eini sem ég hef nokkurn tíma þekkt sem lagði minnsta trúnað á tilveru álfa.

Þess vegna skil ég aldrei hvers vegna fólk keppist við að telja útlendingum trú um að Íslendingar séu álfatrúar, svo gott sem allir með tölu. Jújú, það er sjálfsagt einhvers staðar (allavega í Hafnarfirði) eitthvað af fólki sem trúir að álfar séu til en það hefur ekki orðið á vegi mínum.

Sjálf hef ég engu meiri trú á tilvist drauga en álfa en ég svosem þekki alveg fólk sem hefur séð afturgöngur. Eða svipi eða hvað það vill kalla það. Einhvernveginn finnst mér það þrátt fyrir allt rökréttara en þetta með álfana. Ekkert líklegara, samt. Bara einhvern veginn eðlilegri trú.

Þar sem ég hef enga trú á tilvist drauga hef ég náttúrlega aldrei séð draug. (Nema hugsanlega einkasoninn á helgarmorgnum þegar hann var yngri.) En ég veit þó alveg hvernig manneskju líður sem hefur séð draug (eða telur sig hafa séð hann). Ég mætti nefnilega einu sinni manni sem ég var sannfærð um að væri nýdáinn, ein á löngum og dimmum gangi seint um kvöld.

Það var ekkert þægilegt.

Löngu seinna reyndi ég aftur á móti að mana á mig draug. En það hefði ég reyndar ekki gert nema vera nokkuð viss um að ekkert slíkt væri til.

|

Matvandi gaurinn

Hana, þar datt Sting út af listanum yfir fólk sem ég gæti hugsað mér að bjóða í mat.

Eða nei, reyndar ekki, hann var þar aldrei. Leiðindagaukur.

Ég mundi samt ekkert móðgast þótt einhver kæmi með nesti í matarboð til mín (það hefur reyndar enginn gert hingað til nema eldra barnabarnið). Ef fólk er með sérþarfir er það þess vandamál, ekki mitt. Grænmetisætur undanskildar, ég er alveg til í að gera eitthvað fyrir þær - og ég er jafnvel til í að muna eftir að hafa eitthvað sem inniheldur ekki hneturmöndlurdöðlurrúsínur ef Gurrí skyldi koma - en þeir sem vilja ekki ger, hvítt hveiti, sykur, mjólkurvörur, ost, egg, fisk, kjöt, kjúkling, innmat, grænmeti ... þeir geta bara passað sig sjálfir. Eða komið með nesti.

Eða allavega látið mig vita fyrirfram.

|

19.7.07

Uppþvottur, kótelettur, fótbolti, Harry Potter og kalkúnar

Haldið að blessuð uppþvottavélin sé ekki komin í gagnið og farin að þvo á fullu, þökk sé mínum ágæta uppáhaldstengdasyni. Reyndar skildist mér á einkasyninum, sem var honum til aðstoðar, að þeir mágarnir hefðu eitthvað (eða töluvert) hrist hausinn og tuðað yfir því uppátæki mínu að fá mér svo stóran vask að þeir ætluðu varla að komast að til að athafna sig við kranaskiptingar og skólptengingar - en það fyrirgefst nú líklega eins og fleira.

Og nú veit ég allt um kaldavatnsinntakið. Líka að það er sérinntak fyrir íbúðina á jarðhæðinni. Því komst ég að um kvöldmatarleytið þegar konan þar bankaði til að gá hvort vatnið mundi ekki fara að koma bráðum - hún var nefnilega vatnslaus enn. En ég gat nú reddað því með nokkrum símtölum við tengdasoninn.

Við kjötborðið í Nóatúni helltist yfir mig skyndileg löngun í lambakótelettur. Fyrir mína hönd og einkasonarins, sem kom í mat - venjulega kemur hele familíen á fimmtudögum en Boltastelpan átti að mæta ásamt móður sinni út í KR á matartíma til að máta búning fyrir Danmerkurferðina á laugardaginn svo að þau koma annað kvöld í staðinn. Stoppa sennilega ekki lengi, stúlkan þarf að fara snemma að sofa og rífa sig svo upp til að mæta í flug. En hún er reyndar vön að vakna snemma eftir að hafa borið út Moggann um tíma.

Hún er til allrar hamingju ekki Harry Potter-aðdáandi (sorrí, nörd) svo að hún neyðist ekki til að standa í biðröð við Pennann á föstudagskvöldið. Það geri ég ekki heldur. Ég les að vísu Harry Potter en ég ætla nú bara að bíða eftir að gæðadrengirnir hjá Póstinum færi mér hann heim að dyrum.

Sem minnir mig á: Hvar eru bækurnar sem ég á von á? Hvar er bókin um sögu kalkúnans, til dæmis? Þessi sem ég er nýbúin að frétta að mín er getið í (líklega ekki sem helsta átórítets Íslendinga á sviði kalkúnaræktar þó - en mér finnst samt að höfundurinn hefði átt að senda mér eintak.) Í Saulheim kannski? Vonandi ekki, þetta á að hafa farið með póstinum ...

|

Búálfar í kranastuði

Uppáhaldstengdasonurinn er heima hjá mér að tengja uppþvottavélina (vonandi). Leiðbeiningarnar sem hann fékk hjá mér varðandi kaldavatnsinntakið voru einhvernveginn svona:

-Þú ferð inn í geymsluna með ónýtu hurðinni og bleytunni á gólfinu og þar til hægri er pípukraðak í allar áttir og að minnsta kosti fjórir svona vatnslokar (þetta er til viðbótar miklu fleiri lokum í þvottahúsinu). En það er auðvitað enginn af þeim, þeir eru allir fyrir heitt vatn. Þar fyrir innan eru hillur og ef vel er að gáð sérðu pípu sem liggur upp þarna á bak við. Hún er köld þannig að þetta er trúlega kaldavatnsinntakið. Þarna blasir enginn vatnsloki við en ef þú ýtir til hliðar hjólsöginni á efstu hillunni (hvað sem gamla konan sem á geymsluna gerir nú við hjólsög), þá kemur í ljós frekar vænlegur loki. Best að prófa hann ...

Svo að nú bíð ég spennt eftir að vita hvort þetta virkar.

Nema tengdasonurinn hringdi áðan. Ekkert búinn að fara niður en var staddur í eldhúsinu mínu og sá hvergi deilikranann sem á að koma undir vaskinn í staðinn fyrir gamla vatnslokann þar. Hvergi nokkurs staðar. Ég var algjörlega sannfærð um að ég hefði ekki farið með hann út úr eldhúsinu en stakk upp á ýmsum stöðum að leita á. Jafnvel ísskápnum.

Eftir ítarlega leit hringdi hann aftur og hafði ekkert fundið - en á meðan við vorum að tala fann hann kranann. Í pottaskápnum.

Þetta ætla ég að skrifa á búálfana.

|

18.7.07

Það kemur allt með kalda vatninu ...

Eftir ítarlega vettvangskönnun (Nanna stendur á þvottahúsgólfinu, horfir á pípu- og kranafrumskóginn, klórar sér í hausnum og veit ekki sitt rjúkandi ráð) og skipulega skjalaleit (Nanna eyðir heilu kvöldi í að fara í gegnum uppsafnaða pappírsbunka síðasta árs í árangurslausri leit að teikningum af húsinu sem hugsanlega gætu sýnt hvar kaldavatnsinntakið er) og miklar og djúpar strategískar pælingar (Nanna veltir því fyrir sér hvort sé eitthvert vit í að hringja í pípara sem er ekkert endilega víst að gangi neitt betur en öðrum að finna kaldavatnsinntakið í húsið) hugkvæmdist mér að lokum snilldarráð sem væntanlega kemur að gagni í leitinni miklu að kalda vatninu:

Ég hringdi í fyrri eiganda íbúðarinnar. Sem var auðvitað með þetta allt á hreinu og vísaði mér á rétta staðinn.

Vonandi. Það kemur í ljós ...

|

Lukkupakki

Fjárinn sjálfur, af hverju fæ ég aldrei neitt svona þegar ég kaupi mér matreiðslubækur og dippidútta á Ebay?

Spurning samt hvaða umsögn ég ætti þá að gefa seljandanum. Ég skrifa gjarna ,,item just as described" ef það á við. ,,Item even better than described" gæti kannski átt við í þessu tilviki ...

Kannski ég bjóði í brauðmylsnubakkann og burstann sem ég er að sverma fyrir og krossleggi svo puttana og vonist eftir lukkupakka.

|

17.7.07

Þið vitið þetta allt hvort eð er ...

Ég var klukkuð ... en það hefur nú gerst nokkrum sinnum áður, klukkfaraldur fer jú reglulega um bloggheima - og þar sem ég er búin að blogga í nærri fimm ár, stundum oft á dag, þá vita fastir lesendur flest um mig sem ég á annað borð vil að fólk viti og því nenni ég ekki fyrir mitt litla líf að reyna að rifja upp einhverjar staðreyndir um sjálfa mig sem fáir vita. Þá væri ég líka hugsanlega fljótt komin út í eitthvert djúsí stöff og Ellý Ármanns mætti fara að vara sig.

Þannig að ég er að hugsa um að vísa bara í fyrri klukk. Til dæmis hér og hér - já og jafnvel hér og hér líka.

Nema ég ætla ekki að sverja af mér Sean Connery í þetta skipti.

|

Algleymi

Mér tókst að gleyma bæði símanum og peningaveskinu heima í morgun.

Uppgötvaði þetta þegar ég var komin niður á Laugaveg á leið upp á Hlemm og bölvaði þegar ég sá að ég kæmi þá líklega hálftíma of seint í vinnuna af því að ég þyrfti að snúa við til að sækja dótið. Eins og ég hef áður sagt fara allir fimm vagnarnir sem ég get tekið frá Hlemmi á sömu tveimur mínútunum og svo er 28 mínútna bið í næsta vagn.

En svo áttaði ég mig á því að það var tilgangslaust að snúa við og eins gott að skunda upp á Hlemm og skrapa saman klink úr vösunum í strætó.

Ég gleymdi nefnilega húslyklunum heima líka.

|

16.7.07

Svalandi

Af því að það er útlit fyrir þokkalegt veður áfram eitthvað fram eftir vikunni, þá er hér ein hugmynd fyrir svaladrykki:

Prófið að frysta vínber og setja út í ávaxtasafann eða sangríuna í staðinn fyrir klaka. Eða kannski skera t.d. nektarínur í báta og frysta. Svo borðar maður bara hálffrosna ávextina á eftir.

Svo má líka frysta vínber og narta í þau í staðinn fyrir nammi. (Eða ekki í staðinn fyrir, þetta er nammi.

|

Þegar stórt er spurt ...

„Hef ég drepið hund eða hef ég ekki drepið hund? Hver hefur drepið hund og hver hefur ekki drepið hund? Hvenær drepur maður hund og hvenær drepur maður ekki hund? Fari í helvíti sem ég drap hund. Og þó."

Skyldi fólk læra eitthvað af þessum Lúkasarkertavökuhysteríufarsa?

Varla.

|

15.7.07

Fótboltakakan


Hér er afmæliskakan http://www.blogger.com/img/gl.link.gifsem stóra systir gerði handa (næstum) sex ára bróður sínum. Sjálfur lagði hann sitt af mörkum og gerði skyrtertu. Næstum aleinn.

Afmælisveislan fór annars afskaplega vel fram í rjómablíðu, flestir sátu allan tímann úti í garði og afmælisdrengurinn var hæstánægður, enda fékk hann m.a. heilt fótboltamark að gjöf. Og föðurbróðir hans tautaði þegar hann leit yfir gjafirnar: ,,Þetta er líklega meira Playmo en ég eignaðist nokkurn tíma."

|

Alltaf í boltanum ...

Í dag heldur Sauðargæran upp á sex ára afmælið sitt.

Reyndar verður hann ekki sex ára fyrr en eftir viku en þá verður systir hans komin á alþjóðlegt knattspyrnumót í Danmörku og því var ákveðið að hafa veisluna núna. Veðrið er þannig að veitingar verða aðallega í grillpylsuformi en systirin kom þó hingað í gær og bakaði fótboltatertu handa litla bróður sínum. Víkingur-KR.

Ég hef ekkert á móti fótbolta, þannig séð. Þótt ég hafi eiginlega ekki haft neitt gaman af honum nema rétt þegar Brassarnir voru upp á sitt besta fyrir 20-25 árum eins og Illugi skrifaði um í Fréttablaðinu í gær. En stundum finnst mér afkomendurnir (það er að segja barnabörnin; börnin mín eru ekki svona) sýna boltanum óþarflega mikinn áhuga.

En ég ætla nú samt að gefa drengnum fótbolta-Playmo í afmælisgjöf, ekki einhver uppeldislega útpæld þroskaleikföng. Og ég gaf honum fótbolta í jólagjöf, ekki uppbyggilegar barnabókmenntir. Svo að ég er alvarlega meðsek í þessu.

Þessar ömmur.

|

Sérðu ekki kommentin?

Best ég setji þetta hér líka:

Ég veit að einhverjir hafa lent í því á síðustu mánuðum að sjá ekki komment við færslurnar, bæði hjá mér og einhverjum öðrum bloggurum. Ég veit svosem ekkert af hverju þetta stafar en mamma og pabbi höfðu einmitt lent í þessu og þegar ég var fyrir norðan um daginn prófaði ég að skipta IE út fyrir Firefox á tölvunni þeirra og þá var allt í lagi. Kannski hefði dugað að hlaða niður nýjustu útgáfu af IE en þar sem ég nota sjálf yfirleitt Firefox nennti ég ekki að standa í því ef það skyldi svo ekki virka. Þau eru heldur ekki með neina háhraðatengingu (sem stendur reyndar til bóta, það er víst verið að leggja ljósleiðara um allan Krókinn) svo að það tók drjúgan tíma að sækja Firefoxinn.

Veit ekki hvort þetta leysir öll vandamál. En í þessu tilviki dugði það.

|

Bleikir steinar

Jæja, það situr þá kona fyrir Norðvesturkjördæmi á næsta þingi eftir allt saman.

En það hefði nú mátt gerast öðruvísi.

|