Bjarni bendir á þá staðreynd að flestir hættulegustu glæpamenn landsins hafi borðað kókópöffs. Ekki ætla ég að bera á móti því. Enda sagði ég þvert nei við Sauðargæruna úti í Krambúð í dag þegar hann benti mér á kókópöffspakka og sagði ,,kaupa þetta". Það dugði þó ekki til að slá á glæpahneigðina. Hann fór beint á nammibarinn og stal sér hlaupi. Þegar hann var skammaður fyrir nammiþjófnaðinn setti hann upp sinn mesta sakleysissvip (sem er mjög sannfærandi en samt ekki alveg eins englalegur og hann var áður en krullurnar voru klipptar af honum) og sagði ,,þetta ekki nammi, þetta er súkkulaði". Sem sagt, bæði þjófóttur og lyginn. Eins gott að hann fær ekki kókópöffs hvunndags, sá yrði þokkalegur.
3.4.04
Ég er búin að komast að því að ég er akkúrat ekkert efni í drykkfelldan blaðamann. Þótt ég eigi víst að heita blaðamaður.
Ég er nefnilega ekki drykkfelld.
Tíð komment um Vínbarinn og aðra slíka staði gætu náttúrlega bent til annars. En ég er bara svo einstök hófsemdarmanneskja. Á sumum sviðum allavega. Og svo kom ég mér upp ansi góðri reglu fyrir fjöldamörgum árum og stend oftast nær við hana: Að drekka ekki annað en vatn eftir miðnætti. (Svona eins og Gremlins - nei annars, þeir máttu ekki blotna og ekki fá mat eftir miðnætti - og það hefur heldur ekki sömu afleiðingar ef ég klikka á þessu.) Og ef ég bregð út af þessu, þá er það meðvituð ákvörðun (nema þegar ég hef gleymt að líta á klukkuna, sem vissulega hefur komið fyrir).
Þetta er fín regla. Hún þýðir að ég vaknaði arfahress í morgunn og gat í dag gert allt það sem ég var að tala um í gær að mig langaði eiginlega mest til að gera þá (nema ég skipti hvítvínsglasinu út fyrir gott kaffi) og haft það verulega notalegt, í staðinn fyrir að liggja rotin í þynnku og sjálfsvorkunn. Ég er að hugsa um að benda efnafræðistúdentinum á að taka upp þennan sið, hann hringdi í mig áðan og sagði eitthvað um að sér liði ,,skár en í morgun". Jamm.
Sauðargæran var hér hjá mér áðan ásamt systur sinni. Hann var með glóðarauga.
Ég: - Hvað kom fyrir þig, Úlfur minn?
Sauðargæran: - Jóel skemmdi mig í skólanum.
Ég: - Hvað segirðu, drengur? Af hverju skemmdi hann þig?
Sauðargæran: - Ég var að elda hann.
Ég: - Elda hann? Í potti?
Sauðargæran: - Já.
Ég: - Nú, þá hefur hann dálitla afsökun.
Frásögnin stangast að vísu á við aðrar heimildir, sem herma að drengurinn hafi verið að elta þennan félaga sinn og þeir hafi rekist saman - en Sauðargæran heldur fast við sína útgáfu.
2.4.04
Mogginn segir frá því að Ian McEwan hafi verið stöðvaður af bandarískum landamæravörðum af því að hann sagði aðspurður að erindi sitt til Bandaríkjanna væri fyrirlestrahald en var ekki með bissnessáritun. Það rifjaðist upp fyrir mér að ég var einmitt nærri lent í því sama þegar ég var boðin til Colorado Springs í hitteðfyrra til að halda fyrirlestra á ráðstefnu, ég asnaðist til að segja frá því í vegabréfaeftirlitinu í Baltimore að erindi mitt til landsins væri fyrirlestrahald og það kostaði mikla skoðun á vegabréfinu og margar spurningar; til allrar hamingju var ég með einhver ráðstefnugögn í veskinu þar sem kom skýrt fram að ég væri heiðursgestur ráðstefnunnar og kæmi sérstaklega frá Íslandi til að halda þessa tvo fyrirlestra (um efni sem ég er ekki sérlega fróð um, en það er nú önnur saga). Á endanum ákváðu verðirnir að ég væri líklega sauðmeinlaus og hleyptu mér inn í landið. Þeir hefðu þó sennilega skipt um skoðun ef þeir hefðu opnað ferðatöskuna mína og fundið harðfisk, fjallagrös og söl sem ég hafði meðferðis til að leggja fram til skoðunar á ráðstefnunni. (Og smökkunar fyrir hugrakka menn en þeir voru nú fáir.)
En af hverju eru bandarísk innflytjendayfirvöld annars á flugvellinum í Vancouver? Eru þeir kannski búnir að setja upp útibú í Leifsstöð líka?
Vínbarinn klukkan fimm. Svo ætlum við á Gestgjafanum að elda saman í heimahúsi. Verður sennilega mjög gaman en akkúrat þessa stundina er ég ekki í nokkru stuði. Langar mest heim að hringa mig upp í sófa með teppi, rauðvínsglas, gott súkkulaði og Ridley Pearson (eða bók eftir hann, öllu heldur; ég hef ekki séð manninn og veit ekki hvurslags karlkostur hann er, en hann skrifar fínar bækur).
En það er víst Vínbarinn. Þar hef ég allavega rauðvínið og ég gæti alveg tekið með súkkulaði þess vegna. En sófinn, teppið og Ridley verða að bíða betri tíma.
Vona bara að það verði ekki mikil reykjarsvæla þar núna.
Af hverju í ósköpunum er ég með hrísmjölspakka í skrifborðsskúffunni minni?
Alzheimerinn er að ná völdum.
En að öðru: Hvað munduð þið kalla þetta eldhústól? Og ekki koma með þýðingu ensk-íslensku orðabókarinnar á reamer, þ.e. ,,úrsnarari". Mér hugnast það ekki.
Ég á svona tól (nema mitt er aðeins snubbóttara). Það er sérlega einfalt og hentugt og ég kalla það bara safapressu eða pressara ef ég þarf nauðsynlega að kalla það eitthvað. En er kannski til eitthvað betra?
1.4.04
Ég fann The Big Red Book of Tomatoes þegar ég settist á hana. Kemur örugglega engum á óvart.
Vissuð þið annars að fyrstu tómatarnir sem bárust til Evrópu snemma á 16. öld voru gulir? Þess vegna heita tómatar pomodoro (pomi d'oro) á ítölsku. Rauðir tómatar sáust ekki í Evrópu fyrr en á 18. öld. Núna eru gulir tómatar farnir að sjást aftur og ég var til dæmis með kjúklingabringur með steiktum gulum kirsiberjatómötum í kvöldmatinn - eða reyndar blöndu af gulum og ljósappelsínugulum, því hvorttveggja var til í Nóatúni á dögunum.
En jæja, Beðmál í borginni að byrja ... Þátturinn heitir Out of the Frying Pan og það er þýtt Úr steikarpönnunni. Af hverju ekki Úr öskunni? Ætli þýðandinn hafi ekki þekkt máltækið - eða á einhver panna eftir að koma við sögu?
Viðbót: Jamm. Þarna kom steikarpannan. Með tilþrifum, strax í upphafi.
Ef einhver veit hvar ég hef glutrað The Big Red Book of Tomatoes eftir Lindsey Bareham er hinn sami beðinn að fræða mig um það.
The Big Red Book of Tomatoes er hvorki stór né rauð. En hún er um tómata. Og mig bráðvantar hana.
Ókei, hér er hugmynd fyrir alla tilvonandi feðga úr Vesturbænum, þ.e.a.s. alla sem langar að verða ríkir. Ég ætla ekki að nota hana sjálf og hún er ókeypis.
Skrifið bók um samkvæmisleiki. Miðað við allan þann fjölda sem kemur hingað inn á síðuna til að leita að þeim - og ég hef ekki gert annað en að skrifa tvisvar eða þrisvar eitthvert nöldur um hvað mér þyki þeir leiðinlegir - þá hlýtur að vera mikill skortur á upplýsingum um slíka leiki og þar með vænlegur markaður. Ég skal meira að segja leggja til danskan bjórfyllirísleik sem ég á að kunna ... ehem, ef ég get rifjað hann upp ...
,,The way I see it, life is a jelly doughnut. You don't really know what it's about until you bite into it. And then, just when you decide it's good, you drop a big glob of jelly on your best T-shirt."
Eins og talað út úr mínum munni.
Aðdáendum Stephanie Plum er hér með bent á að fyrsti kaflinn úr Ten Big Ones er kominn á netið.
31.3.04
Ég vissi svei mér þá ekki að það væru til ,,handaleikarar". Handamódel, mikil ósköp. Hér á Gestgjafanum notum við sko ekki hvaða hendur sem er þegar verið er að mynda eitthvað þar sem hendurnar eiga að sjást. Mínar hendur ganga til dæmis ekki, þær eru ekki nógu fallegar. En að aumingja Jenson Button skuli vera með svona kvenlegar hendur, það er náttúrlega vandamál sem þarf að leysa.
Ég var að elda eggjakökur fyrir næsta tölublað Gestgjafans. Venjulegar ommelettur, bæði einfaldar og fylltar, tortillur, frittötur og soufflé-ommelettur. Þetta gerði allt töluverða lukku hér frammi áðan. Merkilegt annars hvað eggjakökur geta verið góðar. Einhvern tíma las ég það í riti eftir frægan gourmet, man ómögulega hvern, að hann pantaði sér helst alltaf ommelettu á veitingahúsi ef hann ætlaði virkilega að prófa hvað menn gætu í eldhúsinu. Ef ommelettan væri ekki perfekt væri hætt við að sömu sögu væri að segja um ýmislegt annað.
Það er allavega engin tilviljun að sú merka kona Elizabeth David valdi greinasafninu sínu heitið An Omelette and a Glass of Wine. Sú bók hefur verið í uppáhaldi hjá mér frá því að ég eignaðist hana fyrir fimmtán árum eða svo. Reyndar vantaði mig vínglasið með ommelettunni áðan en það verður bætt upp á svölunum heima einhverjar helgar í sumar. Laugardags- eða sunnudagshádegi, sólskin, glas af köldu hvítvíni, baguettebrauð frá Sandholt, dúnmjúk ommeletta með basilíku, góð bók ...
Hvar er annars þetta vor sem Siggi var að spá?
30.3.04
Ég tók netpróf hjá Guardian þar sem valið er fyrir mann ljóð sem passar við dagsformið ... hmm, ég er ekki frá því að þetta geti passað hvað mig varðar. Skrítinn dagur.
Honestly, if you won't even answer the questions properly... you're obviously feeling rather silly today. So here's some verse that's even worse.
The mad gardener's song
He thought he saw an Elephant,
That practised on a fife:
He looked again, and found it was
A letter from his wife.
"At length I realise," he said,
"The bitterness of Life!"
He thought he saw a Buffalo
Upon the chimney-piece:
He looked again, and found it was
His Sister's Husband's Niece.
"Unless you leave this house," he said,
"I'll send for the Police!"
He thought he saw a Rattlesnake
That questioned him in Greek:
He looked again, and found it was
The Middle of Next Week.
"The one thing I regret," he said,
"Is that it cannot speak!"
He thought he saw a Banker's Clerk
Descending from the bus:
He looked again, and found it was
A Hippopotamus.
"If this should stay to dine," he said,
"There won't be much for us!"
He thought he saw a Kangaroo
That worked a coffee-mill:
He looked again, and found it was
A Vegetable-Pill.
"Were I to swallow this," he said,
"I should be very ill!"
He thought he saw a Coach-and-Four
That stood beside his bed:
He looked again, and found it was
A Bear without a Head.
"Poor thing,' he said, "poor silly thing!
It's waiting to be fed!"
He thought he saw an Albatross
That fluttered round the lamp:
He looked again, and found it was
A Penny-Postage Stamp.
"You'd best be getting home," he said:
"The nights are very damp!"
He thought he saw a Garden-Door
That opened with a key:
He looked again, and found it was
A Double Rule of Three:
"And all its mystery," he said,
"Is clear as day to me!"
He thought he saw an Argument
That proved he was the Pope:
He looked again, and found it was
A Bar of Mottled Soap.
'A fact so dread,' he faintly said,
'Extinguishes all hope!'
Lewis Carroll (1832 - 1898)
Ég get tekið undir margt af því sem Julian Barnes segir hér. Til dæmis mundi ég aldrei segja að ég ætti hæfilega margar matreiðslubækur. Ég á ekki nógu margar matreiðslubækur og ég á líka alltof margar. Það er engin mótsögn í því. Og margar af bókunum sem hann nefnir á meðal sinna uppáhaldsbóka eða þeirra sem hann notar mest eru líka í uppáhaldi hjá mér. Margar af ráðleggingum hans um hvaða matreiðslubækur eigi ekki að kaupa get ég vel tekið undir. Þótt ég eigi bækur úr öllum þessum flokkum (nema þessar með þrískiptu blaðsíðunum, ég held að ég eigi engar svoleiðis).
En ég er ekki sammála því að maður eigi að grisja matreiðslubókasafnið reglulega. Allavega gæti ég það ekki. Jú, það er ein og ein bók sem ég mundi ekkert endilega sakna þótt þær hyrfu. En ég ætla ekki að fara að eiga frumkvæði að því að losa mig við þær. Hreint ekki.
Og svo á gaurinn bara í kringum 100 matreiðslubækur. Huh.
Ég sé nú ekki mikið til vorsins sem Sigurður lofaði ennþá, þótt sólin sé eitthvað að reyna að brjótast í gegnum skýjahuluna. Og það er hvítflekkótt jörð hér á Seljaveginum.
Mikið er nú annars gott að grillblaði Gestgjafans - sem við hefðum átt að vera að vinna í núna samkvæmt upphaflegri áætlun - skuli hafa verið frestað um mánuð. Mig langar ekkert sérstaklega til að ösla snjóinn úti á svölum heima hjá mér og grilla. Ekki freistar það mín heldur að grilla hér úti í porti og hlaupa með matinn inn í glerskálann til að mynda hann þar. (Síðast þegar við mynduðum fyrir grillblaðið var komið fram í apríl en það var samt ekki beint grillveður. Ég stakk upp á að við mynduðum grillþættina einhvers staðar sunnar á hnettinum en það hlaut ekki hljómgrunn.)
Nú treystir maður bara á að sólin láti verða af því að skína einhverja apríldaga svo að hægt verði að drífa í myndatökum. Ef einhver er með hugmyndir, fyrirspurnir eða annað varðandi grilleldamennsku, komið því þá endilega á framfæri við mig og ég skal sjá hvað við getum gert. Hvort sem sólin skín eða ekki.
29.3.04
Ákveðnir aðilar eru búnir að éta það sem átti að vera í kvöldmatinn. Eða allavega bróðurpartinn af því.
Ákveðnir aðilar eru í ónáð hjá móður sinni.
Ekki er ég enn búin að komast að því hvað Prédikarinn segir í nýjustu Biblíuþýðingunni en aftur á móti segir menntamálaráðherrann fyrrverandi ,,sókn eftir vindi", allavega hér: ,,Þegar verðbólga og glundroði, sem henni fylgir, ræður ríkjum, brenglast allt verðmætamat og hætta eykst á því, að þeim hlutum sé haldið fram, sem í raun eru sókn eftir vindi."
Í minni Biblíu segir Prédikarinn aftur á móti: ,,En er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni."
Hmm, ég sé að ég þarf að fara að lesa Prédikarann betur.
Ég þarf að losa mig við gamla ísskápinn þar sem ekkert hefur heyrst meira í unga manninum sem hafði lýst einhverjum áhuga á (má maður segja áhuga á? fjandinn, ég hefði ekki átt að fara að lesa SVP) að hirða hann. Nú er spurningin bara, á ég að hringja á bíl og borga fyrir að láta skutla skápnum í Sorpu eða á ég bara að setja hann í undirganginn, skilja eftir ólæst og treysta því að einhver losi mig við hann, eins og dýnuna um daginn?
Eða ætti ég kannski að reyna að hafa uppi á þessum manni, hann vantar greinilega ísskáp samkvæmt mbl.is: ,,Grunur vaknaði hjá starfsmönnum verslunar í austurborg Reykjavíkur á föstudag um að maður sem pantað hafði ísskáp og afhenda átti síðan seinna sama dag úti í bæ, væri með óhreint mjöl í pokahorninu. Því var haft samband við lögreglu og hún beðin að kanna málið. Lögreglan fylgdist síðan með þegar skápurinn var afhentur og hafði tal af viðtakanda en þá kom í ljós að hann hafði brotist inn í viðkomandi íbúð til að taka við skápnum þar. Enda kom í ljós að kortið sem greitt hafði verið með var stolið."
28.3.04
Eins gott að sveppamyndatakan var í gær en ekki í dag. Þetta var allt myndað á borðinu hérna úti á svölum og það er nú þakið þykku lagi af snjó. Ókei, maturinn var að vísu myndaður á hvítum grunni en ég held að snjórinn hefði ekki alveg virkað ...
Ég ákvað að bæta efnafræðistúdentsræflinum það upp að hann hefur verið píndur til óhóflegrar návistar við sveppi síðustu dagana og er að sjóða handa honum danskan hamborgarhrygg í kvöldmatinn. Hann á það skilið. (Auk þess verður hamborgarhryggurinn útrunninn um næstu helgi en það hefur ekkert með þessa ákvörðun mína að gera, ónei.)
Ég er nú samt að hugsa um að hafa sveppasósu með.
Boltastelpan (sem er búin að koma sér upp nýju bloggi á folk.is en ætlar samt að hafa það gamla áfram líka) var hjá mér í gærkvöldi. Eitthvað þurfti hún að komast á netið til að uppfæra bloggið sitt en fannst amman treg til að sleppa tölvunni við hana svo að hún afhenti mér eftirfarandi bréf:
Hæ hæ elsku amma.
Eins og þú veist ertu besta amma alheims en þú verður betri en besta amma alheims ef að þú leifir mér að fara í tölvuna og ég lova að hæta um leið og þú vilt. Ég lova!!
Sendu mér svar í:
Hekla Árnadóttir
lengri sófinn á Kárastíg 9a
101 Rvk.
Iceland
Hún fékk auðvitað tölvuna í hendur nokkur veginn samstundis.
Ég var að hugsa um það áðan þegar ég var að raða síðustu diskunum frá í gær í efri skúffuna á uppþvottavélinni - hvernig fór ég eiginlega að hér áður? Það er býsna mikill uppþvottur sem til fellur þegar verið er að elda tíu ólíka rétti, setja þá á diska fyrir myndatöku og bera þá síðan á borð fyrir fólk. Ég var sífellt að setja í vélina og taka úr henni allan daginn í gær, eða það fannst mér, og samt var ekki allt búið. Eða vélarnar, öllu heldur, því að nýja Fisher&Paykel-vélin mín (sem ég er alltaf jafnánægð með) er í rauninni tvær sambyggðar vélar.
En það eru innan við fimm ár síðan ég eignaðist fyrst uppþvottavél (sem var bölvað drasl en það er önnur saga). Þar áður var ég að notast við efnafræðistúdentinn, sem getur að vísu tekið rösklega til höndum við uppþvottinn ef sá gállinn er á honum, einkum ef hann hefur félagsskap af mér eða öðrum (,,allt í lagi, ég skal þvo ef þú þurrkar og útskýrir fyrir mér á meðan hvernig stelpur hugsa ..."). Það voru stundum ansi háir staflar af leirtaui og pottum í og við vaskinn. Samt tókst mér að gera ótal tilraunir í matargerð, skrifa stóra matreiðslubók, halda fjölmennar veislur ... Uppþvottavélar eru nefnilega ekki ómissandi tæki ef maður hefur aldrei vanist þeim. En þær verða það ansi fljótt.