Þessi uppskrift er fyrir Finnboga. Ég er svo lítið inni í germálum að ég set gerupplýsingarnar hér óþýddar.
Þetta er nú eitthvert skyndibrugg; af einhverri ástæðu rifjaðist upp fyrir mér þegar ríkinu var óvænt lokað í einhverju verkfalli, 1975 eða 6 (afgreiðslumenn í ríkin voru ekkert í verkfalli, heldur var lokað svo verkfallsmenn færu ekki á allsherjarfyllirí í aðgerðarleysinu) - allavega, tíðindin bárust í setustofu MA með útvarpsfréttum í hádeginu á föstudegi og 6. bekkur var með partí á laugardagskvöldi. Það varð almennt upphlaup, Jói longneck henti niður pottþéttri slemmu og hvaðeina, en svo var gripið til allra ráða að bjarga partíinu. Gulli brekka keyrði fram allan fjörð að snapa saman brennivín hjá fornbýlum eyfirskum bændum og Steingrímur Sigfússon skrúfaði upp hitann í Steinsbreweryi til að flýta gerjuninni. Það fór engum sögum af gæðum bjórsins en allir urðu fullir á endanum.
Það var enginn rabarbari í bjórnum í Steinsbreweryi samt.
Rabarbarabjór1 gallon sjóðandi vatn
12 meðalstórir rabarbaraleggir
1 msk engifer
3 bollar sykur
,,1 dessertspoon DCL Yeast"
Rabrbarinn skorinn í 5 cm bita og settur í skál (ekki málmskál). Engifer og sykri stráð yfir og sjóðandi vatni hellt yfir allt saman. Látið standa þar til vatnið er ylvolgt en það er gerinu stráð yfir, klútur breiddur yfir allt saman og látið standa á hlýjum stað til næsta dags, ,,the rack above a Rayburn will do". Morguninn eftir er lögurinn síaður og settur á flöskur, helst bjórflöskur, má nota vínflöskur með þéttum korki en þá má bara fylla þær að 3/4 og það verður að binda niður korkinn (þetta stendur í uppskriftinni).
Tilbúið eftir sólarhring sem svaladrykkur sambærilegur við engiferöl. Verður ,,bjórlegri" eftir svona viku en þá geta flöskurnar líka sprungið!
Hmmm.