Við efnafræðistúdentinn fórum og mótmæltum svolítið í tilefni dagsins. Síðan röltum við sem leið lá upp á Beyglugerðina, þar sem við höfðum mælt okkur mót við gagnlega barnið og fjölskyldu hennar. Við þessi fullorðnu fengum okkur beyglur og kaffi en börnin kusu fremur aðrar veitingar.
Ég var í mjög flegnum bol eins og mér hættir til að klæðast í góðu veðri og jafnvel stundum þegar ekki viðrar til. Sauðargæran rak augun í brjóstaskoruna, potaði puttanum í hana og tilkynnti: ,,Það er gat á ömmu!" Sá er efnilegur.
Boltastelpan hafði fengið leyfi til að eyða afmælisdegi ömmu með henni svo að hún fylgdi okkur efnafræðistúdentinum heim á leið. Reyndar með smáviðkomu í Agadir á Laugaveginum, þar er allt á 40% afslætti núna og ég féll fyrir lítilli taginu og stórri marokkóskri skál sem ég gaf sjálfri mér í afmælisgjöf. Og í Krambúðinni, þar sem við þremenningarnir fengum okkur ís, líka í tilefni dagsins.
Ég veit ekki enn hvað verður í afmælismatinn, ég var að hugsa um að elda önd sem ég á í frysti en Boltastelpan er afar mótfallin þeirri hugmynd. Bróðir hennar vill fá bjúgu. Hmm.