(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

20.10.07

Tómatar, vanilla og chili

Sit hérna og berst við að upphugsa uppskrift að tómat-vanillu-chilisósunni sem ég ætla að hafa með fiskinum í kvöld (átti að vera hlýri, ég sá svo álitlegan hlýra í fiskborði fyrir nokkrum dögum, minnti að það hefði verið í Nóatúni, fór þangað áðan en svipurinn sem kom á báða drengina sem voru við afgreiðslu þar þegar ég spurði um hlýra benti eindregið til þess að þann ágæta fisk hefðu þeir aldrei heyrt nefndan fyrr, svo að ég gafst upp og keypti steinbít) - en allavega, ég er búin að bíta í mig að það verði tómat-vanillu-chilisósa með og setti hann Sigga minn í Ríkinu í mikinn vanda við að velja handa mér viðeigandi vín með réttinum. (Við urðum á endanum ásátt um að fyrst ég væri í tilraunastarfsemi í eldamennsku væri upplagt að vera með tilraunastarfsemi í vínvali líka - meira um það þegar í ljós kemur hvernig til tókst á báðum vígstöðvum.)

En tómat-vanillu-chilisósa er ekki eitthvað sem ég finn í fljótu bragði í mínum sextán hundruð og eitthvað matreiðslubókum (slík uppskrift er þar samt örugglega, vandinn er að finna réttu bókina) þannig að ég spila hana bara eftir eyranu. Er búin að sjóða vanillustöng í vatni með hvítvínsskvettu, nú þarf ég bara að búa til góða tómat-chilisósu og sjá svo til með kryddunina.

Þetta er skemmtilegasta eldamennska sem ég get hugsað mér.

|

Þau eru mörg vandamálin

Ég er með margrétta matarboð í kvöld. Og þar sem Boltastelpan tók ekki líklega í að vera gengilbeina hjá mér og ég þarf því að sjá um það sjálf að bera á borðið ætlaði ég, þegar ég var að dekka borðið áðan, að þverbrjóta allar reglur um að það eigi aldrei að vera fleiri en þrír hnífar hægra megin við diskinn og svo framvegis (já, ég sagði að þetta væri margréttað). Ég hef nefnilega reynslu af því að ef ég legg ekki öll hnífapörin strax, þá gleymi ég að setja þau sem ég sleppi þegar þar að kemur og gestirnir byrja að borða fiskinn með kjöthnífapörunum eða þaðan af verra. Sem er náttúrlega miklu pínlegra en ef maður leyfir sér að hafa fjóra hnífa (og eina súpuskeið) hægra megin. Liggur í augum uppi.

En svo mundi ég að ég sé að fá einn reyndasta þjón landsins í mat, meðal annarra. Það gengur náttúrlega ekki að ég eyðileggi orðspor mitt með svona grundvallarmistökum.

Þannig að ég verð bara að treysta því að ég muni eftir að setja fisk- og kjöthnífapörin á réttum tíma. Æ, æ.

Og svo kom næsta vandamál: Ókei, ég veit að þegar maður leggur deserthnífapörin fyrir ofan diskinn (eða á ská við efra vinstra hornið í þessu tilviki), þá eiga teinarnir á gafflinum að snúa til hægri. Allt í lagi með það. En hvort á að vera fyrir ofan, gaffallinn eða skeiðin? Það gat ég með engu móti munað. Svo að ég fór að lesa mér til og komst að því að gaffallinn á að vera fyrir ofan. Sem auðvitað var þveröfugt við það sem ég var búin að leggja. Nema hvað.

Og þegar ég var að lesa mér til um þetta allt saman rakst ég á ýmsa gullmola, til dæmis þennan: ,,If there is not a fish course then don't put out the fish forks and knives."

Jahérna. Eins gott að hafa það á hreinu ...

Nei, ég er eiginlega ekkert byrjuð á þessum tíu réttum. Þeir eru aukaatriði. Kaffið verður allavega ágætt, einkasonurinn kom í gærkvöldi með poka af Vilcabamba frá Ekvador.

|

18.10.07

Það eru næstum alltaf jólin

Jólin eru ábyggilega löngu komin í Ikea - en ég á sjaldan erindi í Ikea eftir að búðin var flutt út á land svo að ég hef ekki séð það enn. En hitt veit ég að þegar ég kom í Hagkaup í Skeifunni í dag mættu mér fyrst af öllu jólakúlur og skreytingar. Reyndar ekki búið að skreyta búðina en farið að selja skreytingar semsagt.

Og þegar ég kom heim og leit á tölvupóstinn beið þar þýðingaverkefni,
Tiger-bæklingur upp á 19 blaðsíður, þar af 16 jólatengdar. Þannig að ég verð að setja mig í jólaskap á næstu dögum.

Og í vinnunni í gær var ég að skoða kápuna af ítölsku útgáfunni á Röddinni eftir Arnald, sem var mjög jólaleg ... eða ekki, en það var allavega jólasveinn á henni.

Æi, já, og þegar ég kom heim í gær kveikti ég á sjónvarpinu og voru þá ekki jólin í Leiðarljósi og allir voða djollí og kátir og miklir vinir. Lásu jólaguðspjallið og allt.

Kannski maður ætti bara að bregða sér í Ikea.

Eða ekki.

|

PollýNanna

Þegar ég skreiddist fram úr í morgun og opnaði ísskápinn sársvöng rann upp fyrir mér að ég hafði steingleymt að kaupa mér eitthvað til að borða í morgunmat. En af manneskju að vera sem þoooolir ekki Pollýönnu og hefur aldrei gert get ég verið ótrúlega mikil pollýanna í mér svo að ég hugsaði: ,,nú, frábært, þá nota ég tækifærið og fer í blóðprufuna sem ég þarf hvort eð er að fara fastandi í" - steðjaði svo niður á Landspítala og skemmti mér við að láta stinga í mig nál og dæla úr mér slatta af blóði.

Svo þarf ég að panta mér tíma hjá hjartalækni. Og af því að ég er frekar svartsýn af bjartsýnismanneskju að vera (nema það sé öfugt), þá er ég viss um að hann sér strax að kransæðarnar eru svo stíflaðar að ég ætti að vera löngu dauð, hringir beint á sjúkrabíl og lætur leggja mig inn. En (og hér kemur bjartsýnis/pollýönnuelementið til sögunnar) þá náttúrlega er ég líka stikkfrí þegar kemur að flutningunum vestur á Bræðraborgarstíg. Mér leiðast flutningar.

|

16.10.07

Kynjamunur á tippum

-Þú vilt skrifa tippi með ufsíloni, er það ekki? sagði ég við einn höfundinn okkar um daginn. -Æ, jú, auðvitað, þú ert karlmaður. Útskýrði svo fyrir honum að karlmenn skrifa helst typpi, konur miklu frekar tippi. (Jújú, það er fullt af undantekningum - en þetta er meginreglan.)

Þetta þótti honum merkilegt, hafði ekki áttað sig á þessu. Ég fékk svo skyndilega bakþanka - maðurinn átti eftir að ganga frá formálanum þar sem hann nefndi mig á nafn og ég sá fyrir mér að nú yrði mín kannski getið fyrir það eitt að hafa verið með kenningar um kynjamun á tippastafsetningu. Svo að ég flýtti mér að segja honum (sem er reyndar dagsatt) að ég vildi helst alls ekki láta þakka mér eitt eða neitt í formála, væri þeirrar skoðunar að það ætti ekkert að þakka fólki sérstaklega fyrir að vinna vinnuna sína. Á Iðunni strikuðum við starfsfólkið iðulega nöfnin okkar út úr handriti ef höfundar ætluðu að fara að ausa þakklæti yfir okkur á prenti. (Og svo voru náttúrlega bækur sem maður vildi ekkert endilega leggja nafn sitt við - en það er allt annað mál.)

Þar sem höfundurinn var að breyta formálanum fram á síðustu stund var ég ekki í rónni fyrr en bókin var örugglega komin í prentsmiðju í Finnlandi. Svo ég væri pottþétt ekki borin fyrir neinum tippastafsetningarkenningum ...

|

Læknagrúppían

Fór til heimilislæknisins míns í dag til að ráðfæra mig við hann um ýmsa kvilla og áhyggjuefni sem fylgja því að vera miðaldra kona með böns af aukakílóum. Hann tók mér ljúfmannlega eins og hans er von og vísa (enda frændi minn), reyndi sjálfur að lækna mig en tókst ekki, gaf mér reseft, sagði mér að fara í blóðrannsókn og gaf mér tilvísun á einn sérfræðing og ábendingu um annan (sitthver kvillinn alltsaman).

Ég er búin að komast að því að mér líkar svo vel við lækna upp til hópa að ég á örugglega eftir að eyða efri árunum mikið til í læknisheimsóknir. Jafnvel gæti ég freistast til að ljúga upp á mig aðskiljanlegustu meinum og sjúkdómseinkennum svo ég fái tækifæri til að kynnast sem flestum læknum.

Ég hef nú ekki kostað heilbrigðiskerfið svo mikið hingað til ... hmmm, þetta er annars farið að hljóma eins og mér finnist ég þurfi að fara að taka eitthvað útá alla skattpeningana sem ég hef borgað í gegnum tíðina. Nei, ekki alveg - en ég get allavega fullvissað alla tilvonandi lækna mína um að ég verð frekar jákvæður sjúklingur.

|

15.10.07

mac´n´cheese

Kvöldmaturinn hér á bæ var valinn eftir veðri. Sem var skítkalt og napurt þegar ég var á heimleiðinni. Reyndar var ekkert kalt í strætó en þar var ég - í öllu mínu veldi - rétt að segja dottinn í fangið á blásaklausum Norðmanni af því að strætó tók svo skarpt af stað áður en ég náði að setjast.

En semsagt, kvöldmaturinn var ostamakkarónur með pylsubitum. Sem urðu vel brúnir og stökkir í ofninum. Mmm. Ekki kannski alveg megrunarfæði samt.

Svo horfði ég á viðtalið við foreldra búlimíusjúklingsins og síðan matarþáttinn á RÚV, sem var um offitu og megrun.

|

Til í allt

Ég sendi út matarboð í gær til fáeinna gamalla samstarfsmanna. Og þar sem hann Villi er einn boðsgesta var ég að hugsa um að hafa fyrirsögnina á boðsbréfinu ,,Til í allt - með Villa". Fattaði svo að það gæti misskilist og hætti við.

Stundum er gott að hafa vit fyrir sjálfum sér. Það mættu nú ýmsir íhuga þessa dagana.

|

Hægri og vinstri heyrn

Ég er heyrnarlaus á vinstra eyranu þessa dagana. Þeir sem eiga við mig brýnt erindi eru vinsamlega beðnir um að bera það upp frá hægri.

Skrifborðið mitt snýr hins vegar þannig að allir koma vinstra megin að mér ...

En allt í lagi á meðan ég missi ekki heyrnina á báðum eyrum samtímis, eins og vissulega hefur komið fyrir. Og á meðan ég borða ekki epli.

Og nei, það dugir ekki bara að skafa eyrnamerginn úr hlustinni.

|

14.10.07

Millahverfið

Ég hef áður skrifað eitthvað um ört hækkandi húsnæðisverð hér á reitnum mínum - hvað sem um Njálsgötuheimilið og áhrif þess á íbúðaverð í hverfinu má segja, þá virðast þau áhrif ekki ná hingað norðurfyrir Grettisgötuna.

Ég hef aðallega talað um nýja húsið á Stjörnubíósreitnum en nú sé að það er verið að auglýsa íbúð hér útá næsta horni, við Snorrabrautina. Mikið niðurgrafin kjallaraíbúð, tvö herbergi, 64 fermetrar. Töluvert endurnýjuð og þokkalega útlítandi. Ósamþykkt, trúlega vegna lofthæðar, sem ekki er mikil.

Og hvaða verð er svo sett á íbúðina? Jú, 18,9 milljónir.

Ég keypti mína fjögurra herbergja 94 fermetra ágætlega förnu þriðjuhæðaríbúð á 19,7 milljónir fyrir rétt rúmu ári, sem ég held reyndar að hafi verið nokkuð gott verð. Hvað ætli ég fengi fyrir hana núna ef ég tek mið af þessu? Þrjátíu milljónir?

Það skondna er annars að í síðustu viku var ég að yfirfara próförk þar sem þessi íbúð (Snorrabrautaríbúðin alltsvo) kemur nokkuð við sögu og er meira að segja lýst dálítið og sagt frá fréttnæmum atburðum sem þar urðu.

|