(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

18.12.04

Ég sá frétt um að einn starfsmanna Bretadrottningar hefði verið rekinn fyrir að setja jólabúðinginn sem drottningin gaf honum til sölu á Ebay. Mér finnst það nú fullgróft, kannski kann maðurinn bara ekki að meta Christmas Pudding og kunni ekki við að henda honum.

Ég á einmitt jólabúðing frá Fortnum & Mason hér einhvers staðar. En hann er nú ekki gjöf frá drottningunni svo að líklega mundi ég ekki græða mikið á að falbjóða hann.

|

Búin að undirbúa jólin.

Eða næstum því. Allavega eru jólagjafakaupin búin - við gagnlega barnið undum okkur í þau áðan og afgreiddum málið á nó tæm. Reyndar var ég nú búin að kaupa eitthvað í Englandi á dögunum en það sem eftir stóð var semsagt keypt á Laugaveginum og í Skeifunni áðan. Ég kem ekki nálægt Kringlunni og svoleiðis stöðum þegar jólagjafir eru annars vegar. Þá mundi ég örugglega lenda í jólastressi, sem ég er alveg blessunarlega laus við þessi árin. Eins og gagnlega barnið sagði áðan, þegar maður hefur unnið hjá Iðunni fyrir jólin finnst manni allt annað jólastress eintómt hjóm.

Aftur á móti fórum við í Hagkaup í Kringlunni og keyptum í jólamatinn, bara af því að ég var nokkuð viss um að þar fengi ég örugglega allt sem mig vantaði. Það verða semsagt andabringur í matinn hjá mér, líklega með kastaníum og steiktum, rauðum perum og rauðkáli með trönuberjum og einhverju fleiru. Svo freistaðist ég líka til að kaupa nýsjálenska nautalund sem fékkst á nokkuð góðu verði, 2400 krónur kílóið. Hún verður nú kannski ekki í matinn um jólin, kannski um áramótin.

Ég var líka að kaupa ýmislegt sem ég ætla að bjóða upp á á Þorláksmessu. Það verða einhverjir fastir liðir á boðstólum og svo eitthvað nýtt. Kannski minna bakkelsi og meiri matur en stundum áður, maturinn hefur líka alltaf verið vinsælli. Sjáum til.

En svo á ég alveg eftir að kaupa jólahangikjötið.

|

Nokkrir af feitu asnalegu snjókörlunum sem eiga að hanga í svefnherbergisglugganum mínum um jólin eru týndir. Ekki gott mál. Eða það vorum við Sauðargæran sammála um þegar við vorum að myndast við að jólaskreyta í gær. Svo fórum við út og keyptum sverð og skjöld handa honum í Tiger á 200 krónur. Hann óð svo upp Laugaveginn, sveiflaði sverðinu ótt og títt og gólaði: ,,By the power of Grayskull" eða eitthvað í þá áttina. Við mættum einhverjum manni sem dáðist að sverðinu og spurði hvort hann mætti eiga það. Því neitaði drengurinn auðvitað. En sagði örstuttu síðar, þegar maðurinn var horfinn sjónum: ,,Hann mátti samt alveg halda á því."

Svona er hann nú í miklu jólaskapi, blessaður.

|

17.12.04

Segið mér nú eitt: Hvað finnst ykkur vera átt við þegar sagt er að eitthvað sé ,,hitaeiningasnautt"? Þýðir það hitaeiningalaust eða bara mjög hitaeiningalítið? Þýðir snauður sá sem er allslaus eða sá sem á mjög lítið (orðabók gefur báðar merkingar)?

Og í framhaldi af því (ef ykkur finnst að hægt sé að kalla eitthvað hitaeiningasnautt án þess að það sé alveg hitaeiningalaust): Hvað á að miða við? Ef miðað er við undanrennu sem dæmi, þá eru 34 he í 100 ml - er hún hitaeiningasnauð? Meira að segja McDonalds er farið að auglýsa hitaeiningasnauðar máltíðir. Jamm.

|

16.12.04

Einu sinni var mér sögð sú saga að þegar gamla Landsbókasafnið var innréttað hefði það verið haft að leiðarljósi að allir ættu að geta notað það (nema náttúrlega fatlaðir, en það er önnur saga). Þess vegna hefðu menn, þegar að því kom að smíða stólana, farið á stúfana, fundið feitasta manninn í Reykjavík og mælt breiddina á rassinum á honum. Sannleiksgildi sögunnar veit ég ekki en sætin voru allavega vel breið.

Mér datt í hug, þegar ég fékk í pósti jólagjöf frá bankanum mínum áðan, að þar hefði verið beitt svipaðri aðferð. Jólagjöfin er nefnilega svunta. Sjálfsagt eru einhverjir í KB-banka sem hafa rekið sig illyrmilega á þá staðreynd að fullyrðingin ,,one size fits all" stenst hreinlega ekki og þess vegna hafa menn haft vaðið fyrir neðan sig og látið sauma stórar svuntur. Verulega stórar.

Nú er þetta reyndar hin vandaðasta svunta sem ég fékk og þegar ég var búin að stara á hana í forundran nokkra stund rann upp fyrir mér að ef ég bind hana ekki á mig eins og venjulega svuntu, heldur vef henni utan um mig eins og slopp (svona krabbameinsskoðunarslopp, alltsvo) og bind slaufu framaná en ekki að afta, þá passar svuntan ágætlega á mig. En ég er nú ekkert sérlega mjóslegin og veit ekki hvernig þetta fer á grannvöxnu fólki.

|

Móðirin (yfir kjötbollunum áðan að fletta Fréttablaðinu frá því fyrr í vikunni): -,,Knús er besta jólagjöfin." Ertu ekki sammála því, Hjalti minn?

Efnafræðistúdentinn (snaggaralega): -Nei.

Andskotans. Þá þarf ég víst að fara að hugsa.

|

Ég er að skrifa grein um sælkerastaði í London. Og ég vildi að ég væri komin þangað aftur ... ég gat ekki smakkað allt sem mig langaði til og ekki farið á alla staði sem ég hefði viljað fara á.

Og ég vildi að ég hefði getað tekið með mér heim aukatösku með svona 25 kílóum af mat. Þar á meðal nokkrar villibráðarbökur frá Fortnum & Mason.

Þarf bara að reyna að finna afsökun fyrir annarri ferð þangað fljótlega.

|

Gömlu hjónin eiga gullbrúðkaup í dag. Fimmtíu ár.

Þetta er yndislegt líf.

|

15.12.04

Þórdís er að segja frá skemmtilegri tilviljun sem henti hana í gær. Þá rifjaðist upp fyrir mér önnur merkileg tilviljun sem ég varð fyrir rétt áður en ég fór út. Ég fékk tölvupóst frá konu í Ameríku sem ég kannast lauslega við en hef aldrei hitt og hef reyndar ekki hugmynd um hvað heitir réttu nafni (löng saga). En ég hafði ekkert heyrt frá henni í ein tvö ár eða meira.

Svo kom allt í einu póstur frá henni með krækju á þetta vídeó, sem hún hafði einhvern veginn rekist á, og hún spurði (hafði einhverja hugmynd um að íslenska og færeyska væru líkar) hvort það væri nokkur möguleiki á að ég gæti þýtt eitthvað af textanum fyrir hana eða sagt henni eitthvað um þetta.

Ég svaraði strax og sagðist kannast vel við hljómsveitina og vídeóið, færeyska dansinn og allt það, sendi henni krækju á færeyska textann og enska þýðingu, og bætti því svo við að það vildi einmitt svo til að fáeinum klukkutímanum áður hefði ég verið myndatökumanninum/pródúsentinum samferða í lyftu og skipst við hann á fáeinum orðum ...

|

Úbbossí, ég var að átta mig á því að það eru ekki nema átta dagar til Þorláksmessu og ég er ekki byrjuð að útbúa Þorláksmessuskinkuna. Og kemst ekki til þess fyrr en annað kvöld í fyrsta lagi. Ég er hrædd um að nú verði ég að stytta mér eitthvað leið - kannski kaupi ég tvo bóga í staðinn fyrir eitt stórt læri. Það gætu orðið tveir hausar af ET þetta árið.

Það verður semsagt opið hús hér á Þorláksmessu eins og vant er. Allir velkomnir. Að vísu verður skarð fyrir skildi þar sem gömlu hjónin verða ekki á staðnum - mamma var í mjaðmaaðgerð í gær á Akureyri og þau koma því ekki suður um jólin - en ég geri nú ráð fyrir að það verði slæðingur af fólki samt sem áður.

Jóladrumburinn verður meira að segja ekta í ár (allavega annar þeirra) þar sem ég keypti kastaníumauk í London á dögunum til að nota á hann. Og svo elda ég fullt af góðum mat og baka slatta af kökum. Sit svo hér eins og drottning í ríki mínu og tek á móti jólagestum ...

|

Ég gekk einu sinni um með hálfa saumnál í fætinum í hálft annað ár án þess að vita af því. En þessi hér slær það nú alveg út.

|

Trendið í breskri matargerð þessa dagana er, heyrist mér, bresk matargerð. Áhersla á innlent úrvalshráefni og breskar matarhefðir með nútímaívafi. Þetta er hægt að sjá bæði í matreiðslubókum, tímaritum og á veitingahúsum. Ýmis veitingahús sem áður voru meira á frönsku eða ítölsku línunni eru farin að bjóða upp á rétti eins og kedgeree, lambaskanka með bökuðum rauðrófum, roastbeef og Yorkshire pudding. Eða faggots. Og svo er verið að opna ný veitingahús á þessari línu.

Eitt þeirra verður opnað á Boroughs Market eftir áramótin. Það á að heita Roast og eigandinn er Iqbal Wahhab (ég veit, ekki mjög breskt nafn), sem stofnaði The Cinnamon Club sem margir kannast við. Það var nokkurs konar ,,prufukeyrsla" á veitingahúsinu á matarsýningunni sem ég fór á. Þar sem ég var mætt um morguninn fyrsta daginn sem sýningin var opin komst ég að því að það voru fáein sæti laus í hádeginu þann dag, svo að ég fór og pantaði mér lönsj klukkan 12. Og af því að ég er svo óþolandi stundvís mætti ég á mínútunni 12, með allra fyrstu gestum, og það vildi svo til (kannski af því að ég var ein, ég hef tekið eftir því að kona sem borðar ein fær stundum fljótari þjónustu en aðrir af því að allir vorkenna henni svo að vera ein) að ég var fyrsti gesturinn sem fékk mat á borðið fyrir framan mig.

Þannig að ef þetta verður nú heimsfrægt veitingahús, þá get ég með sanni fullyrt að ég hafi verið fyrsti gesturinn. (Nei, ég er ekki með bréf upp á það.)

Og maturinn? Jú, hann var fínn - ,,potted" lax í forrétt (man ómögulega íslenska heitið), gæsabollur með rauðkáli og rúsínum og pera soðin í krydduðu rauðvíni og borin fram með clotted cream á eftir. Vínglas með hverjum rétti og kostaði samtals 23 pund. Góður díll.

|

14.12.04

Mér heyrðist Knútur Bruun segja í sjónvarpsfréttunum áðan að nýja heilsuþorpið hans mundi skapa fullt af afleitum störfum í Hveragerði og nágrenni.

Líklega sagði hann samt ,,afleiddum".

|

Æi, það er alltaf gott að koma heim. Þótt hér sé enginn sem tekur til eftir mig og býr um rúmið. Enginn sem setur ávaxtabakka inn á herbergið mitt og fyllir ísskápinn af míneralvatni. Enginn sem þvær handklæðin ... nei, nú er ég að segja ósatt, efnafræðistúdentinn var akkúrat búinn að þvo fulla vél af handklæðum þegar ég kom heim. Duglegur strákur.

Ég hafði það bara mjög fínt í London, flakkaði á milli sælkerabúða og kaffihúsa og leit inn á nokkur veitingahús og eina matarsýningu. Forðaðist Oxfordstræti eftir bestu getu (þó ekki alveg þar sem hótelið er eiginlega við götuna); fór hins vegar á Boroughs Market, Marylebone High Street, Kensington High Street, King's Road, Elizabeth Street, Soho auðvitað ...

Ég hefði gjarna viljað koma heim með meira af matvöru en nógu var erfitt að komast hjá því að borga yfirvigt af því sem ég var með. Samt - ég keypti m.a. villibráðarböku, söltuð akurhænuegg og gæsalifrarpaté í Fortnum & Mason, þurrkaða ávexti frá The Walnut Tree, nokkrar kryddblöndur í Spice Shop, kastaníumauk og vanilluessens í Selfridges, barberries (vantar íslenskt heiti) og þurrkaðar íranskar plómur í Super Bahar, súmak í Green Valley (þrjúhundruð grömm af príma líbönsku stöffi, sagði ég við efnafræðistúdentinn; honum fannst það ekkert fyndið). Og eitthvað fleira.

En merkilegt nokk, ég keypti bara þrjár bækur. Eða fjórar ef maður telur litla kverið um Majorkamatseldina sem ég keypti á fornbókasölunni á King's Road. Og svo fékk ég jólapakka sem er örugglega bók og nokkuð sennilega matreiðslubók. Ég stóðst ekki The Cuisine of Cambodia þegar ég rakst á hana, átti enga ekta kambódíska matreiðslubók fyrir og í þessari er kafli sem heitir Insects og þar eru uppskriftinar A Platter of Deep and Stir-Fried Insects og Sautéed Red Ants Eggs. Með flottum myndum og allt. Svo keypti ég líka The Fifth Quarter: An Offal Cookbook eftir Anissu Helou; þar er meðal annars uppskrift að þríréttaðri máltíð úr lambshausum - forrétturinn er Poached brain and eyes with fleur de sel. (Svo kemur milliréttur og aðalréttur - engin uppástunga að eftirrétti.) Þetta eru bækur að mínu skapi.

|

12.12.04

Eg er stundum ad kvarta yfir thvi heima ad serverslanir seu dreifdar ut um allt svo ad thegar madur er ad leita ad einhverju serstoku tharf stundum ad fara um allt Stor-Reykjavikursvaedid. Sem er frekar ohentugt fyrir billausa manneskju. I thessu efni ma laera eitthvad af Persum. Eg for i gaer mmed Helen kunningjakonu minni i persneska matvoruverslun a Kensington High Street. Vid hlid hennar var onnur samskonar verslun og sidan enn ein. Allar sambygg[ar og nokkurn veginn sama voruurval i ollum.

-Ekki yrdi eg hissa ef eigendurnir vaeru allir braedur, sagdi Helen. -Iranir eru svona.

Minnti mig a isbudirnar vid Laugalaek.

Svo forum vid og bordudum kvoldmat a ironsku veitingahusi. Fast vid hlid thess var annad. Og svo enn annad. Iranir eru hrifnir af thrennum.

|