Já, kannski ...
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?
Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu
Já, kannski ...
Mikið er ég nú annars heppin að búa á Kárastígnum. Róleg gata, fínir nágrannar og allt það, en það er samt ekki þess vegna. Það eru kyrrlátar götur og gott fólk út um allt. Nei, mér finnst ég vera heppin vegna þess að ég get farið út á góðviðrisdegi eins og núna, rölt á milli búða og á hálftíma er ég kannski búin að koma við í Heilsuhúsinu að kaupa til dæmis kryddjurtir eða kornmeti, í Pipar og salt að kaupa Darjeeling-te, hjá Jóa í Ostabúðinni að kaupa osta og grafinn hrossavöðva eða hráskinku, í Te og kaffi að kaupa ómalað kaffi, í Vínberinu að kaupa súkkulaði, í Bernhöftsbakaríi að kaupa brauð, og á heimleiðinni kem ég kannski við í Aski Yggdrasils og kaupi grænmeti eða ávexti. Reyndar mundi ég aldrei ná þessu á hálftíma en það er aðallega vegna þess að á flestum stöðum dvel ég yfirleitt við og skoða hvað er til. Fiskbúðin er ekki alveg inni í hringnum og Filippseyjar ekki heldur, en þetta er svosem ekki mikið úr leið. Ekki Ríkið heldur og ég geng hvort eð er framhjá því á hverjum degi. Og svo er Krambúðin handan við Skólavörðustíginn fyrir allt þetta hversdagslega.
Ég á verkfæri sem Eldfjallinu þykir mikið þing, það er kleinuhringjajárn til að brúka þegar kleinuhringir eru stungnir út. Það er ekki þar með sagt að maður geti ekki búið til kleinuhringi án þess að eiga svona tæki, maður þarf bara eitthvað til að stinga út hring sem er kannski um 8 cm í þvermál (ég nenni ekki að leita að reglustiku) og svo eitthvað til að stinga út gat í miðjunni, kannski 1 1/2 2 sm í þvermál. Það er reyndar hægt að stinga sveru sleifarskafti eða öðru slíku í gegnum deigið en það gat helst ekki eins vel opið og það sem er stungið og kleinuhringirnir standa varla undir nafni. Auk þess hefur Eldfjallið það embætti að plokka ,,gatið" úr kleinuhringjunum þegar ég er búin að stinga og þykir það virðingarstaða.
Mágur minn gerði einhvern tíma á menntaskólaárunum þá merku uppgötvun að dómgreind manna hrakaði þegar þeir drykkju. Ég hef svosem aldrei spurt hvað varð til þess nákvæmlega að hann sá þennan stórasannleik. En ef þetta hefur ekki verið á hreinu fyrr, þá sannaðist það rækilega einhversstaðar í austurborg Reykjavíkur núna í morgunsárið.
Efnafræðistúdentinn skildi vesalings móður sína eina eftir heima og fór í tenóraferð upp í Borgarfjörð þar sem tilgangurinn var (held ég) að syngja, drekka, skemmta sér og grilla, ekki endilega í þessari röð. Sennilega hefur hann tekið að sér að sjá um matseldina, allavega hringdi hann sirka fimm sinnum á stuttum tíma áður en lagt var af stað úr bænum til að fá leiðbeiningar um kryddun og grillsteikingu á ribeye-steikum (sko, bandstrik!), leiðbeiningar um hvar rósmarínið væri að finna í ísskápnum og sitthvað fleira.
Mig vantar álit frá íslenskufræðingum og ég veit að þeir eru þónokkrir sem lesa þetta stundum.
Núna gat ég eldað það sem ég ætlaði að gera í gærkvöldi en varð að fresta af því að efnafræðistúdentinum lá svo mikið á.
Doktorinn náttúrlega sendi frá sér blogg á sömu mínútu og ég póstaði mínu, hann hefur líklega fengið hugskeyti um áhyggjur mínar af lífi hans og heilsu. Og svo kom í ljós að nýi þátturinn fer ekki í loftið fyrr en í fyrramálið svo að ég hefði ekki getað heyrt hann þótt ég hefði haft áhuga. En ég held að útvarpsvekjarinn minn haldi áfram að vera stilltur á Rás 2, það er svo notalegt að vakna við Davíð Oddsson og Sigurð Líndal og Sverri Hermannsson og ... æi, ég man ekki hverja ég hef verið að vakna að undanförnu. Eða vakna ekki, ég er búin að sofa yfir mig allavega einu sinni í þessari viku.
Ég kom við í Eymundsson í Austurstræti á leiðinni heim og keypti mér auðvitað matreiðslubók, en það er önnur saga. Þar rakst ég á frambjóðandann ægifagra, Kolbein Proppé, sem var að kaupa sér Vegahandbókina. Hann þarf náttúrlega að rata um kjördæmið, blessaður, og geta rætt um kennileiti og sögustaði við sunnlenska bændur af nokkrum kunnugleika.
Ég geri mér alveg grein fyrir að kjúklingabaunir er alls ekki gott heiti. Baunirnar tengjast kjúklingum ekki neitt. Þetta eru ekki einu sinni baunir. Ekki heldur ertur, svo að það bjargar svosem engu að kalla þetta kíkertur eða eitthvað slíkt. Þetta eru fræ af einhverjum runna. Þær eru góðar samt.
Bretar vilja setja hunda í öryggisbelti og Svíar eru að láta elgi fá farsíma, segir Mogginn. Hvað er eiginlega í gangi?
Ég held að ég hafi gefið yfirlýsingu um það eftir sprengidaginn í fyrra að það væri alveg sama hvað ég eldaði mikið af baunasúpu eða hvað ég bakaði margar bollur, þetta kláraðist alltaf. Það stóðst reyndar ekki nema að hálfu leyti í ár, það var smáafgangur af bollunum (enda var bollukaffið óvenju seint, sumir voru búinir að raða í sig bollum og sumir bolluhakkarar liðinna ára gátu ekki mætt), en baunasúpan kláraðist auðvitað þótt ég syði hana úr hálfu kílói af baunum og þremur lítrum af vatni. Þó voru ekki nema fjórir fullorðnir í mat.
Ég fékk skrítna sendingu í póstinum í gær, eyðublað til að fylla út með persónuupplýsingum um mig í tilefni þess að ég varð stúdent 1977 og jafnframt tilboð um að kaupa einhverja skruddu með æviágripum tvöþúsundogeitthvað manns sem útskrifuðust með stúdentspróf á árunum 1977 og '78, og átti að kosta bara tæpar tíuþúsund krónur, sem var víst kostaboð af því að þetta var með 30% afslætti. Hmpfh.
Stundum óska ég þess að ég væri Nigella eða Jamie eða Delia eða Rick Stein eða Gordon Ramsey eða einhver annar af þessum frægu útlensku kokkabókahöfunum. Ekki af því að þau fá svo margar millur fyrir bækurnar sínar að þau geta látið sér finnast hvað sem þeim sýnist um Bónus. Eða Big Food Group eða hvað þetta heitir allt saman þarna í Englandi. Eins og ég hef áður sagt hefði ég ekkert á móti milljónunum en þær eru ekki málið. Nei, það er þetta með að þurfa að vinna fyrir milljónunum. Eða, í mínu tilviki, öllu lægri fjárhæðum. Þau komast nefnilega léttar út úr því en ég.
Það eru einhverjir tuttugu þrjátíu kassar af bollum á borði hérna beint fyrir framan skrifstofudyrnar hjá mér. Eins og mig langar nú lítið í bollur. Nema kannski í kvöldmatinn, best ég hringi í efnafræðistúdentinn og athugi hvort hann vill heldur kjötbollur eða fiskibollur. Fínt að elda eitthvað hversdagslegt og reyndar hef ég líklega ekki eldað neitt sem heitið getur síðan á ... tja ... hmm ... jú, miðvikudaginn var það víst. Og svo saltkjöt og baunir á morgun. Og munið að það þarf ekki að leggja baunirnar í bleyti, þannig að það er óþarfi að panikera þótt það gleymist í kvöld eða fyrramálið. Ég legg þær aldrei í bleyti og enginn hefur kvartað enn.
Ég var beðin um bolluuppskriftir, sem er ágætt til að ná sér niður eftir veisluhöld undanfarinna daga. Ég veit ekki hvers konar bollur var verið að meina en hér eru nokkur sýnishorn:
Eiginlega átti helgin að vera búin núna, ég byrjaði á að baka 80 bollur í morgun, fór svo suður í Smáralind að undirbúa áhugamannakeppnina, smakkaði og dæmdi 12 rétti, aðstoðaði við tiltekina á eftir, rauk svo beint heim að setja rjóma og krem á bollurnar, fékk fjölskylduna í bolluveislu ... og nú er ég allt í einu á leiðinni í fjórréttaðan kvöldverð í Grillinu.
Frétt dagsins er að kvöldið endaði ekki á Vínbarnum, ég fór heim eftir dinnerinn í Perlunni. Sem stóð reyndar allt of lengi, ég skil ekki af hverju þarf að líða hálftími á milli rétta. Síst þegar ekki er byrjað að borða fyrr en eftir níu.