Af miðbæjarrottu að vera gerði ég sæmilega víðreist út fyrir 101 í dag, fór bæði út á Seltjarnarnes og inn í Kringlu, en morguninn fór í rölt um heimilistækjaverslanahverfi Reykjavíkur (flestar heimilistækjaverslanir er að finna á tiltölulega litlum reit frá Sætúni inn á Suðurlandsbraut) að skoða uppþvottavélar. Á því ferðalagi bar það helst við að á stéttinni fyrir utan Konditori Copenhagen gekk ég beint í flasið á nýbökuðum (pun intended) forsetahjónum, geislandi af hamingju, sem voru að koma úr bakaríinu með eitthvert hveitibrauðsdagagúmmulaði með laugardagskaffinu og voru að gægjast ofan í bakkelsispokana. Settust svo inn í skutlu og létu bílstjórann aka sér heim í sveitasæluna. Geri ég ráð fyrir. Þetta var allt í samræmi við hugmyndir Þórdísar um morgunkaffi þeirra heiðurshjónanna.
Ekkert bar til tíðinda í Kringluleiðangri mínum annað en það að ég ákvað að taka leigubíl heim þegar ég sá að það var farið að rigna. Ég var varla sest inn í bílinn þegar annar leigubílstjóri kom aðvífandi, sótsvartur af reiði, barði fast á gluggann hjá mínum bílstjóra, reif opna hurðina og hellti sér yfir hann. Taldi sig hafa átt stæðið, skildist mér, og þar með rétt til farþegans (mín). Minn bílstjóri snaraði sér út og svaraði fullum hálsi og um tíma virtist allt stefna í slagsmál. Það hefði þá verið í fyrsta sinn í mörg ár sem tveir karlmenn hefðu slegist um mig. En til þess kom ekki, því miður liggur mér við að segja.