Ég er greinilega ekki nógu mikill
foodie (það er reyndar orð sem mér finnst álíka hallærislegt og matgæðingur).
Ég hef aldrei borðað í eldhúsi á fínum veitingastað (og langar ekkert sérstaklega til þess) - eða jú, ég lýg þessu, ég var í smakki í eldhúsinu á Silfri um daginn, en það er ekki alveg að marka.
Ég man ekkert sérstaklega eftir að hafa borðað ,,ironic food". Ef ég hef gert það, þá fattaði ég það ekki og þá er það ekki að marka.
Ég hef ekki pantað neitt sem er ekki á matseðlinum nema þá fyrir börn og grænmetisætur. Aldrei fyrir sjálfa mig. Mér er samt einstöku sinnum boðið upp á eitthvað sem er ekki á seðlinum.
Ég kann ekkert kokkaslangur og mundi ekki nota það þótt ég kynni það.
Ég þekki slatta af kokkum og þeir eru ágætir en ég mundi ekki láta kalla á þá úr eldhúsinu til að sýna hvað við erum miklir vinir.
Feiti. Hmm, ég á eina eða tvær sortir af ólífuolíu og smávegis argan-olíu - og ég á andafeiti í krukku í ísskápnum - en ég er ekkert að gera mér far um að sýna fólki þetta sérstaklega.
Mólekúlamatreiðsla er skemmtilegt fyrirbæri en ég kann samt betur við gamaldags kokkarí.
Ég er tiltölulega nýbúin að eignast almennilega hnífa og þeir voru ekkert rándýrir. Enda er ég kona.
Ég hef aldrei farið í sælkeraferð til Víetnam eða aðra fjarlæga staði. Væri reyndar til í það samt. Ef einhver byði mér.
Ég hef borðað á nokkrum Michelin-stöðum (ekki mörgum) og þeir eru ekkert endilega betri en aðrir. Allavega geri ég mér ekkert far um að safna þeim.
Nei, ég er ekki matgæðingur.