,,It isn't easy cooking when you are dead, you don't exist, made entirely of light."
,,That's your excuse for everything, being dead."
Hverjir og hvar?
Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu
,,It isn't easy cooking when you are dead, you don't exist, made entirely of light."
Hér er síða fyrir áhugafólk um snakk - kartöfluflögur og margt annað, t.d. ,,fried chicken skins" Ekki vissi ég nú að það væri selt sem snakk, enda hafnar það á listanum yfir tíu verstu snakktegundirnar. En þarna er ýmislegt áhugavert. Af hverju fæst ekki hér snakk eins og Flavor Blasted Goldfish Xplosive Pizza?
Efnafræðistúdentinn um ástæðuna fyrir því að honum þykja önnur skinkuhorn standa mínum að baki:
Ég sá þessar hér í bókabúð úti í London á dögunum og hugsaði: ,,Aha, þarna er komin jólagjöfin handa efnafræðistúdentinum." Svo sá ég hvers konar ferlíki þetta eru (þær eru yfir 9 kíló báðar saman) og langaði ekki að dröslast með þær heim. Og svo sá ég verðmiðann. 100 pund. Mér þykir afar vænt um drenginn minn en það eru takmörk fyrir öllu.
Ætli sé ekki best að uppskriftirnar hér að neðan verði þær síðustu sem ég birti á þessum vettvangi.
Hér koma uppskriftirnar sem ég lofaði í gærkvöldi. Efnafræðistúdentinn (sem á það til að bregða fyrir sig öðru tungumáli en móðurmálinu þegar hann vill leggja áherslu á orð sín) sagði, þegar hann var að borða, að risotto væri ,,the very definition of comfort food" og ég get vel tekið undir það þótt ég hefði ekki átt neitt hvítvín, hvorki til að hella út í né til að dreypa á meðan ég var að hræra. (En ég átti jú rauðvín.)
Við Gunna systir höfum nú ekki alltaf verið samhljóma í lífinu en þó hefur það heldur farið vaxandi með árunum og áðan tókst okkur, í spurningakeppninni hjá Begga, að koma með sömu ágiskunina á sömu mínútunni.
Hmm, risottogrjónin í krukkunni verða greinilega að duga í kvöld. Ég legg ekkert af stað heim alveg strax og nú er búið að loka Ostabúðinni.
Það helltist yfir mig áðan skyndileg löngun í almennilegt risotto. Svona risotto þar sem ég stend yfir pottinum og hræri nokkurn veginn stöðugt í 20-25 mínútur, svo að grjónin verði mjúk og rjómakennd en samt enn með ,,biti", svolítið þétt undir tönn, eins og risotto á að vera. Með kryddjurtum, parmigiano, smjöri, hvítvíni ... Mmmm.
Ýmsar ytri og innri aðstæður gera það að verkum þessa dagana að efnafræðistúdentinn biður gjarna um ,,comfort food" ef hann er spurður álits, sem ekki er nú alltaf. Reyndar fékk hann ekkert slíkt í gærkvöldi þar sem ég var ekki komin heim fyrr en upp úr hálfátta (blaðið að fara í prentsmiðju) en í fyrrakvöld var ég aðeins fyrr á ferðinni og gat eldað mat sem honum fannst skora hátt á ,,comfort food"-skalanum.
Meira um nöfn: Áhugafólki um mannanöfn og raunvísindi er bent á snjallar nafnatillögur Kínversku mafíunnar.
Ef þið ætlið að stofna fyrirtæki og fara á alþjóðlegan markað en vantar vörumerki, þá er hægt að finna það hér ...
Ég er að velta því fyrir mér af hverju stallsystur mínar hér á Gestgjafanum minnast aldrei á Úlfar Finnbjörnsson á prenti án þess að kalla hann ,,villta kokkinn". Ókei, hann gerir töluvert af því að elda villibráð en mér finnst hann ekkert tiltakanlega villimannlegur.
Boltastelpan á afmæli á sunnudaginn (búhú, barnabarnið mitt er að verða tíu ára, svakalega er ég orðin gömul) og ég þarf víst að fara að leita að afmælisgjöf handa henni. Býst reyndar ekki við að það verði mikil leit, mér var tilkynnt það strax í vor að hana vantaði nýja línuskauta, það væri sko ekki hægt að nota þá gömlu lengur, enda eru þeir bleikir og með mynd af Barbie og engin stór stelpa með sómatilfinningu getur látið sjá sig á svoleiðis. Þannig að sennilega fæ ég hana til að koma með mér í búðir (ef hægt er að finna tíma fyrir slíkt á milli handbolta-, fótbolta- og leiklistaræfinga) og velja línuskauta. Svo þarf ég að fá hana til að gera jólaóskalista, hún er komin á þann aldur að fólk er í vandræðum með að finna gjafir handa henni. Svona stórar stelpur eru að mestu hættar að leika sér að dóti.
Smári, í framhaldi af því sem við vorum að ræða í kommentunum hjá þér, þá eru þetta eiginlega tveir aðskildir hlutir, þ.e. annars vegar að fara fram á greiðslu ef fjölmiðill óskar eftir að birta uppskrift frá manni (sem mér finnst að ætti að vera sjálfsagt mál nema ef þið eruð sjálfir að leita eftir kynningu, en ekki segja ritstjórunum hér hjá Fróða að ég hafi sagt þetta) eða ef fyrirtæki birtir uppskrift sem þið eigið í bæklingi. Mig minnir að Úlli Finnbjörns hafi talað um það á Mat 2002 að hann væri búinn að rekast á nokkrar uppskriftir í bæklingum sem dreift var á sýningunni sem voru teknar orðrétt frá honum án þess að hans nafn væri nokkurs staðar nefnt. Það á auðvitað ekki að viðgangast.
Við systurnar vorum að ræða forstúfaðar tær í kommentunum hér að neðan. Það má vel vera að þetta orð hafi varla tíðkast annars staðar en í okkar fjölskyldu og við höfum nokkuð örugglega haft það frá Andrési önd, sem einmitt var gjarn á að forstúfa tærnar eða fæturna. Og það er líka alveg rétt að sumum er mun hættara við svona slysum en öðrum. Þó held ég að ég hafi mun minna haft af forstúfuðum tám að segja eftir að ég lagði það að mestu af að hlaupa við fót innanhúss. Samt er mér enn nokkuð hætt við að lenda í svona og mig minnir að efnafræðistúdentinn sé ekki alveg laus við forstúfunartendensa heldur.
Stefán er að spyrja lesendur sína hvort þeir tali um uppstúf í karlkyni eða hvorugkyni. Mig minnir að mér hafi fundist uppstúfur svo asnaleg orðmynd þegar ég heyrði hana fyrst að ég hafi bara talið hana hreina dellu, ekki einu sinni sunnlensku (sem var næsti bær fyrir ofan).
Ég var búin að lofa saumaklúbbnum að setja hér þær uppskriftir úr afmælisklúbbnum fyrir norðan sem ekki munu birtast í Gestgjafanum og hér kemur sú fyrsta. Reyndar er þetta hálfgerð Gestgjafauppskrift því ég notaði meira og minna sömu hráefni í sósu með lambaframhryggjarfilleti, sem verður uppskrift að í jólablaðinu, en þó er dálítill munur á.
Ég var að skoða dýrlingaskrá kaþólsku kirkjunnar áðan svo ég væri nú örugglega með réttan dýrling til að heita á fyrir Þórdísi. Og fór þá að hugsa um hver yrði verndardýrlingur minn ef það skyldi einhvern tíma detta í mig að gerast kaþólsk, sem er að vísu frekar ólíklegt þar sem ég er búin að vera trúleysingi í þrjátíuogeitthvað ár. Samt hef ég alltaf verið svolítið hrifin af dýrlingasísteminu hjá kaþólikkum. En þegar ég var að blaða í skránni yfir sérstök viðfangsefni dýrlinganna (eða þannig), þá fann ég ekki margt sem átti við mig.
Mikið er ég spennt að vita hvort ekki verður stóraukin sala á Víkingalottómiðum þessa vikuna. Forstjóri bankans míns sagði jú í Kastljósinu í gær að það væri jafnörugg leið til ríkidæmis að kaupa svoleiðis miða eins og að gera samninginn sem hann þurfti svo að hætta við. Sá hefur ekki mikla trú á sjálfum sér í stjórahlutverkinu.
Það datt ofan á mig kaktus úr gluggakistunni rétt áðan, þar sem ég lá í sakleysi mínu í sófanum. Það var ekki gaman. Til allrar hamingju var efnafræðistúdentinn nærstaddur og bjargaði móður sinni snarlega. Kannski ég flýti mér ekkert að kaupa syngjandi jólatréð.
Ég get ekki einu sinni farið í barnaafmæli án þess að koma heim með matreiðslubækur. En reyndar voru þetta bækur sem Gunna systir keypti handa mér í Kanada fyrir nokkru en hafði ekki tök á að koma til mín fyrr, The Great Nova Scotia Cookbook og Maple Moon, a maple syrup cookbook. Fullt af girnilegum uppskriftum og ég er t.d. búin að sjá uppskrift að hlynsírópsís með makadamíuhnetum sem ég verð að prófa fljótlega.
Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að fara í Húsasmiðjuna eða Byko eða Blómaval eða neina slíka búð á næstunni. Það eru allir með tilboð á bjölluhringjandi og dansandi jólasveinum og syngjandi jólatrjám og ég er alltaf dauðhrædd um að það steypist skyndilega yfir mig svo mikið jólaskap að ég falli fyrir einhverju slíku dótaríi. Ég held ekki, en samt ... Óþarfi að storka forlögunum.