Peningamaður
Oddur systursonur minn var hér áðan með sinni fjölskyldu; vildi reyndar ekki kjötsúpu en sat inn í stofu og horfði á barnamyndir. Fann þar nokkra smápeninga - aðallega krónupeninga - á stofuborðinu. Kom með þá inn í borðstofu og var eitthvað að dunda sér við að telja þá.
Svo leit hann á mig og spurði: -Nanna, notar þú ennþá klink?
Tókst merkilega vel að láta röddina sýna dálitla undrun á því að ég skyldi vera svona gamaldags að nota smámynt.
En ég þekki drenginn og svaraði því: -Ég er allavega hætt að nota þessa peninga, Oddur minn, þú mátt alveg eiga þá.
Enda er ég að hugsa í milljónum fremur en klinki þessa dagana hvort eð er.