(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

7.4.06

Eins og þeir sem hafa komið í heimsókn á undanförnum árum vita er ljósið á stigapallinum búið að vera bilað í - tja, ekki tíu ár en líklega ein sex eða sjö. Eða átta. Alkunnugt framtaksleysi mitt á þátt í þessu en þó ekki eingöngu, Skari eða einhver á hans snærum reyndi að gera við ljósið fyrir nokkrum árum en tókst ekki. Síðan er búið að vera myrkur á stigapallinum. Maður venst öllum skrattanum.

En haldiði svo að nýi nágranninn á efstu hæðinni sé ekki bara búinn að taka sig til og gera við ljósið. Ég fékk bara ofbirtu í augun þegar ég kom fram áðan. Svo stendur maðurinn uppi í tröppu beint fyrir framan dyrnar hjá mér og er enn eitthvað að bardúsa. Ekki veit ég hvað.

Ég vona að svona framkvæmdagleði sé ekki smitandi.

|

Það á víst að vera einhver hrekkjavinavika í vinnunni í næstu viku.

Mér finnst þetta asnalegt og ég hrekki fólk ekki. Nema hugsanlega börnin mín af og til. Ég neitaði að draga miða með nafni einhvers til að hrekkja en það var þá dregið fyrir mig. Allt í lagi, manneskjan sem ég á að hrekkja verður ekki hér eftir helgi. Ekki ég heldur nema takmarkað.

Ég vona bara að sá sem á að hrekkja mig verði líka í fríi í næstu viku. Mér leiðist nefnilega líka að láta hrekkja mig.

Já, ég veit. Party-pooper ...

|

6.4.06

Ég var áðan komin út í þvílíkt djúpar pælingar að undrum sætti. Allavega hvað varðar manneskju eins og mig, sem er nú yfirleitt ekki mjög djúpt þenkjandi. Og þessar pælingar tengdust ekki mat nema bara smávegis. Ég segi ekki að ég hafi verið að leysa lífsgátuna en svona næsti bær við. Held ég.

Þá hringdi síminn og þegar símtalinu lauk mundi ég bara ekkert af því sem ég hafði verið að hugsa. Og get ekki með nokkru móti rifjað það upp.

Persónan frá Porlock lifandi komin í þessu símtali. Og það merkilega er að ég sá nákvæmlega eina spurningu í Gettu betur-úrslitunum (entist ómögulega í fleiri, mér leiðist svo Gettu betur). Hún var einmitt um Xanadu.

Ég held ég haldi bara áfram að hugsa aðallega um mat.

|

Sauðargæran kom hér áðan og var meðal annars að segja mér frá nýlegri ferð sinni í Húsdýragarðinn, þar sem hann sýndi víst glöggt hvað hann er með mikið hérahjarta.

-Hann var hræddur við öll dýrin nema selina, sagði móðir hans. -Og refina, því þeir voru sofandi.

-Nei! mótmælti drengurinn ákveðið. -Ég var ekkert hræddur við humarinn.

Ég hef grun um að fyrirhuguð ferð í dýragarðinn í Kaupmannahöfn í sumar muni ekki ganga alveg þrautalaust fyrir sig.

Svo fann drengurinn eftirlíkingu af einvígissskammbyssu sem ég keypti handa frænda hans úti í Tórínó í fyrra og fór að sveifla henni.

-Hvað get ég skotið, amma? spurði hann og lét digurbarkalega.

-Farðu inn á bað og skjóttu krókódílana í baðkerinu, sagði ég.

-Já! sagði drengurinn veiðiglaður. -Sko ... amma, vilt þú koma með mér ...?

-Ég er að bulla, sagði ég, -það eru engir krókódílar í baðkerinu í alvörunni.

-Jaaá, sagði Sauðargæran feginn. -En amma, viltu samt koma með, ef þeir skyldu vera þar?

Ég er reyndar á leiðinni í bað. Vissara kannski að tékka á krókódílunum fyrst. Ef þeir skyldu vera þar.

|

Ég var að hugsa um það í morgun þegar strætó keyrði framhjá Landspítalanum hvað það verður nú frábært þegar nýja hátæknisjúkrahúsið er komið.

Þá er bara hægt að halda öllu liðinu sofandi í öndunarvélum og engin þörf á neinu hjúkrunarfólki.

|

5.4.06

Ekki elda ég í kvöld, svo mikið er víst ... Það stafar þó ekki af karlmannsleysi per se, heldur var ég að elda átta rétti núna áðan og langar bara ekkert að bæta fleiri á mig. Eintómur hversdagsmatur; hakk, pylsur, túnfiskur úr dós, grænmetisréttir ...

Gísli ljósmyndari kom inn í eldhús þegar ég var nýkomin úr búðinni, rak augun í pylsupakka og setti upp hneykslunar- og furðusvip.

-Er þetta það sem mér sýnist, spurði hann.

Ég varð að játa því.

-Er Gestgjafinn kominn niður á þetta stig, sagði Gísli og hristi höfuðið.

Ég hef einu sinni áður reynt að koma pylsurétti inn í blaðið. Bæði uppskrift og mynd hurfu á dularfullan hátt og birtust aldrei. Ég bíð spennt eftir að vita hvernig fer fyrir pylsugratíninu sem ég gerði núna. Að vísu gerði það heilmikla lukku hjá vinnufélögunum svo að það kemst kannski á prent.

|

4.4.06

Ég nenni eiginlega allt of sjaldan að elda handa mér einni núorðið. Sem er náttúrlega ekki nógu gott þegar maður er frægt matargúrú og allir halda að það sé alltaf standandi veisla hjá mér, en sannleikurinn er sá að ég fékk mér flatbrauð með rúllupylsu í kvöldmatinn. (Ekki að neitt sé við flatbrauð með rúllupylsu að athuga, þannig séð. Afbragðsmatur. En maður verður að passa upp á orðsporið.)

Ég kem oft frekar þreytt heim úr vinnunni þessa dagana og þá er það einhvern veginn ekki alltaf fyrirhafnarinnar virði að elda bara handa mér. Ég þarf greinilega að gera eitthvað í málinu og eftir mikla umhugsun (í heilar fimm mínútur) er ég komin að þeirri niðurstöðu að hér sé tvennt í stöðunni. Þá er ég ekki að meina að ég eigi um tvo möguleika að velja, neinei, þetta verður að fara saman. Ég verð að fara að vinna minna og ég verð að finna mér kall.

Ef ég finn mér kall hef ég einhvern til að elda fyrir og þá nenni ég því alveg. Og kallinn tekur einhvern þátt í rekstrinum á húshollingunni (eða ég ætlast allavega til þess) þannig að ég hef efni á að vinna minna og hef tíma til að elda oní hann. Málið leyst.

Nú þarf ég bara að finna kallinn. Tek samt fram að ég er ekki að lýsa eftir honum hér og nú. Það er fullreynt að það þýðir ekkert að auglýsa eftir karlmanni á þessum vettvangi. Ég er búin að gera það margoft og hef engin viðbrögð fengið. Alveg sama hvort ég hef auglýst eftir karlmanni til alhliða brúks, öldruðum milljónamæringi, lagtækum handverksmanni, pípara eða gæsaskyttu.

Eða jú, mér var annars boðin gæsaskytta einu sinni. En bara að láni og það var ekki einu sinni á gæsaveiðitímanum. Lítið gagn í svoleiðis.

Ég þarf greinilega að leggjast undir feld og hugleiða þetta nánar.

|

Herinn fer en Íslendingar fá í staðinn bækur til að lesa sér til um varnarmál.

Það er eitthvað Glistrupskt í þessu.

Bjargaði alveg deginum fyrir mér.

|

Skyndilega langar mig alveg obbosslega mikið í rabarbarasúpu með muldum hörðum kringlum.

Ég fæ hana víst ekki í kvöldmatinn.

Fær maður annars einhvers staðar harðar kringlur nú til dags? Einhvers staðar í Reykjavík, meina ég? Kannski fást þær út um allt, ég hef ekki athugað það af því að mér þykja linar kringlur ekkert sérstakar og síðast þegar ég gáði (það eru nokkur ár síðan) var bara hægt að fá linar alls staðar þar sem ég leitaði.

Og þegar ég nefni kringlur dettur mér alltaf í hug vísa sem ég lærði þegar ég var mjög mjög ung (fyrir þá sem skilja ekki samhengið, þá eru kringlur og hagldabrauð sama fyrirbærið):

Magnús minn á Hofdölum
býr með henni Gunnu.
Hann er eins og hagldabrauð
hringlandi í tunnu.

Linar kringlur hringla náttúrlega ekkert þótt þær séu settar í tunnu, svo að þær virka augljóslega ekki. Það er samt ekki ástæðan til þess að ég vil þær ekki.

|

3.4.06

Þýðandi Svona var það þýðir French kiss sem ,,kyssast á frönsku". Kemur mér nú ekki á óvart. Og drive a mean taxi sem ,,aka lélegum leigubílum".

|

Það er stundum sagt að einhver sé langsoltinn. Ég er aftur á móti svo langsödd að þegar hringt var í mig frá fjölmiðli áðan og ég beðin um að koma í páskaeggjasmökkun, þá baðst ég undan því.

Og þá er nú langt gengið.

|

Ég pantaði mér fiskibollur með kartöflum í hádegismat. Langaði einhvern veginn ekki í neitt annað eftir veisluföngin og smakkið síðustu daga. Bara almennilegar fiskibollur.

Maður er einhvern veginn hálftómur en það er svosem nóg að gera og gott að fara í svolítið annan gír. Ég þarf að fletta blöðum og bókum og velta fyrir mér hvað ég á að gera fyrir Korter í kvöldmat í næsta blaði - það verður helgað hversdagsmatnum (fínt svona á eftir veislublaðinu). Engar stórsteikur eða pinnamatur. Og svo eigum við seinni hlutann af rabarbaraþættinum sem við mynduðum í fyrra, með rabarbara frá Guðnýju og Hildigunni. Eins gott að það er ekki mikið framundan, ég var að átta mig á að það er bara í næstu viku sem við Boltastelpan erum að fara til London.

|

2.4.06

Já, og svo langar mig að vekja athygli á að þetta árið enduðum við bara á Vínbarnum eitt kvöld en ekki öll eða svo gott sem, eins og seinast. Látum aðra bari liggja á milli hluta ...

Ég ætla allavega að vera heima í kvöld. Drekka kaffið sem einkasonurinn var svo vænn að hella upp á fyrir mig þegar hann kom við áðan (nei, hann komst ekki í úrslitin, því er nú andskotans miður), horfa á sjónvarpið, fara snemma að sofa. Þyrfti eiginlega að hreinrita punkta frá fundunum með norrænu kokkunum í gær og dag en nenni því ekki fyrr en á morgun.

|

Þetta var erfitt, satt að segja. Skemmtilegt en erfitt.

Ég var mætt á sýninguna hálfellefu í morgun eftir að hafa verið á galadinnernum og síðan á barnum á Salti framundir þrjú. Aðrir voru mættir fyrr eftir að hafa verið að skemmta sér fram til hálfsjö en það er önnur saga. Þurfti svo á fund með nokkrum norrænum kokkum klukkan tólf; sá fundur breyttist seinna í hádegisverð þar sem við borðuðum rétti úr álfukeppni matreiðslumanna, sem ég hef reyndar ekki hugmynd um hver vann. Í miðri máltíð fékk formaður Klúbbs matreiðslumeistara svo sýnikennslu í ostruopnun hjá fimmföldum þátttakanda í heimsmeistarakeppninni í þeirri grein - það dugði formanninum til að lenda í öðru sæti í þessari list.

Það skemmtilegasta við svona sýningar er annars alltaf fólkið. Ekki maturinn, þótt hann geti verið góður. Að hitta kunningja, kynnast nýju fólki, gera eitthvað skemmtilegt saman ... en það væri allt í lagi að vera tuttugu árum yngri. Fjórir dagar er alveg í lengsta lagi fyrir miðaldra konur.

|