Eins og þeir sem hafa komið í heimsókn á undanförnum árum vita er ljósið á stigapallinum búið að vera bilað í - tja, ekki tíu ár en líklega ein sex eða sjö. Eða átta. Alkunnugt framtaksleysi mitt á þátt í þessu en þó ekki eingöngu, Skari eða einhver á hans snærum reyndi að gera við ljósið fyrir nokkrum árum en tókst ekki. Síðan er búið að vera myrkur á stigapallinum. Maður venst öllum skrattanum.
En haldiði svo að nýi nágranninn á efstu hæðinni sé ekki bara búinn að taka sig til og gera við ljósið. Ég fékk bara ofbirtu í augun þegar ég kom fram áðan. Svo stendur maðurinn uppi í tröppu beint fyrir framan dyrnar hjá mér og er enn eitthvað að bardúsa. Ekki veit ég hvað.
Ég vona að svona framkvæmdagleði sé ekki smitandi.