Mér fannst Tórínó mjög fín borg til að slappa af í. Ástæður:
1) Það er fullt af fínum kaffihúsum í Tórínó. Og stutt á milli þeirra.
2) Maður þarf ekkert sérstaklega að stressa sig á veðrinu út af öllum súlnagöngunum; getur verið alltaf í skugga og þarf ekki að hafa áhyggjur af að sólbrenna og ef fer að rigna sest maður bara á næsta kaffihús. Úti eða inni.
3) Mér fannst Tórínó frekar afslöppuð borg; það kann að vera reginmisskilningur en þannig virkaði hún á mig.
4) Og síðast en ekki síst: Það er ekkert í Tórínó sem maður
verður að sjá. Fullt af áhugaverðum hlutum, það vantar ekki, en ekkert sem maður nagar sig í handabökin fyrir að hafa misst af. Ég spurði Ítali sem ég hitti í Asti hvort þeir gætu bent mér á eitthvað sem ég yrði að skoða í Tórínó og svarið var alltaf: ,,Sko, þú
getur skoðað ..." Þannig að maður getur með góðri samvisku leyft sér að gera ekki neitt nema rölta á milli kaffihúsa.
(Nú spyr kannski einhver: En hvað með þetta fræga Tórínólíkklæði? Er það ekki eitthvað sem allir verða að skoða?
Sko, í fyrsta lagi hef ég mjög takmarkaðan áhuga á blessuðu líkklæðinu. Í annan stað sá ég eftirlíkingu af því en það var óvart. Og í þriðja lagi verður það víst næst til sýnis almenningi árið 2025 og svo lengi hefði ég aldrei nennt að bíða.)