10.4.04
Hmm, þátturinn Eldsnöggt með Jóa Fel ætti kannski frekar að heita ,,Eldbrennt með Jóa Fel" eða eitthvað ámóta. Samanber vorlaukinn í síðasta þætti og það sem hann kallar ,,Rösti kartöflur" hér.
En þetta hlýtur að eiga að vera svona því það stendur jú í kynningunni að Jói ætli að leyfa landsmönnum að fylgjast með réttu handtökunum í eldhúsinu ...
Þegar ég var að klæða mig í morgun og opnaði sokkaskúffuna, þá var þar ekkert að finna nema fjólubláu sokkana. Og þegar þeir eru einir eftir, þá er það ævinlega til marks um að nú sé að því komið að bretta upp ermarnar og leita uppi leynilega höfuðstöðvar Sokkaskrímslisins.
Mér skilst að það séu til heimili sem ekki hafa sitt Sokkaskrímsli. En þetta hér er ekki í þeim hópi. Sokkaskrímslið er verulega lúmskt og getur hreiðrað um sig á undarlegum stöðum. Lengi vel var þó vænlegast að leita þess undir rúmi efnafræðistúdentsins og reyndar er það örugglega ekki horfið þaðan með öllu. En þar sem hann er nýbúinn að skipta um rúm og hreinsaði þá allt af gólfinu - svo rækilega að hann henti teppinu - er sú staðsetning ólíkleg að þessu sinni. Þar er í mesta lagi lítið útibú.
Stundum hafa höfuðstöðvar Sokkaskrímslisins fundist á botninum í óhreinatauskörfunni en ég held að svo sé ekki núna, það er svo stutt síðan hún var alveg tóm síðast. Hreinataushrúgan er óvenju stór og þar getur ýmislegt leynst. Og svo eru fleiri staðir ... Einu sinni blekkti Sokkaskrímslið mig rækilega og faldi sig í sokkakörfunni. Það er svona karfa þar sem safnað er öllum stökum sokkum heimilisins, í þeirri von að sokkurinn á móti finnist í einhverri Sokkaskrímslisrassíunni. Ég hendi helst aldrei neinu og þarna eru stakir sokkar af efnafræðistúdentinum frá því að hann var tuttugu árum yngri og notaði tuttugu skónúmerum minna en nú. Ég hef enn ekki gefið upp vonina um að finna sokkinn á móti. Eða jú, en ég fæ mig samt ekki til að henda sokkunum. Allavega, einhvern tíma þegar búið var að gera mikla leit kom upp úr dúrnum að margir af stöku sokkunum í sokkakörfunni voru alls ekki stakir, sokkurinn á móti var þarna líka.
En fjólubláu sokkarnir (sem aldrei eru stakir) eru ákveðið viðmið. Ef sokkamálin eru komin á það stig að ég neyðist til að fara í þá, ja, þá þarf að grípa til róttækra aðgerða. Þannig að í dag má Sokkaskrímslið vara sig.
9.4.04
Jamm, efnafræðistúdentinn hafði rétt fyrir sér, þetta var góður dagur. Við fórum inn í Hvalfjarðarbotn, þar sem Sauðargæran skemmti sér lengi við að henda grjóti út í Botnsá, sem hann hélt að væri sjórinn. Systir hans safnaði steinum. Sáum fjölda fólks við kræklingatínslu í fjörum en tíndum ekkert sjálf, vorum ekki útbúin til þess.
Sauðargæran kom með nýyrði yfir fossa, sem hann sá allmarga á leiðinni. Þar sem hann kallar vatn yfirleitt ,,glas" voru fossarnir dettiglas.
Ég fékk mér saltaða nautatungu í kvöldmatinn og lét efnafræðistúdentinum eftir afgangana af kvöldverðinum í gær. Þá var norður-afrísk/grísk máltíð, kjúklingatagine með sítrónum og ólífum, vel kryddað kindafillet bakað með tómötum, kúrbít og kjúklingabaunum, fetaostsstykki marínerað í ólífuolíu og kryddjurtum og borið fram með plómutómötum, salati og ólífum. Kúskús með sítrónu og ólífuolíu. Nýbakað brauð, reyndar indverskt naanbrauð. Sauðargæran borðaði lítið annað og tilkynnti að þetta væri ekki brauð, heldur piparkökur. Það var reyndar ögn kryddað, en varla svo mikið.
Matur frá suður- og austurströndum Miðjarðarhafsins er enn vinsælli á mínu heimili en sá matur sem flestir þekkja best sem Miðjarðarhafsmat, þ.e. ítalskur, suður-franskur og spænskur matur. Mér finnst líka gaman að vera með marga rétti og setja þá alla á borðið samtímis, eins og gjarna er gert á þessu svæði. Afar fjölskylduvænt og notalegt.
Ég er að fara í bíltúr í góða veðrinu með gagnlega barninu og fjölskyldu hennar. Efnafræðistúdentinn er að fara á Sálumessu Mozarts. Hann er mun menningarlegri en ég.
Þegar maður kemur fram í eldhús að morgni föstudagsins langa, ætlar að fara að hita sér kaffi og uppgötvar að kaffidósin er tóm (af því að efnafræðistúdentinn hellti upp á fulla könnu af kaffi í gærkvöldi í staðinn fyrir hálfa eins og hann var beðinn um), ja, þá er illt í efni. Eða hefði verið það fyrir nokkrum árum. En nú vill svo til að ég bý rétt hjá Krambúðinni, sem er mikil afbragðsbúð, Eysteinn hefur opið næstum hvern einasta dag ársins, og ég þurfti því bara að bíða til klukkan 12 eftir kaffinu mínu. Ég lifði það alveg af. Efnafræðistúdentinn hélt því að vísu fram að ég hefði verið farin að titra. En það eru tóm ósannindi.
Við fengum okkur svo síðbúið morgunkaffi í sól og blíðu á svölunum. Efnafræðistúdentinn úrskurðaði að þetta væri frábær dagur. ,,So far," sagði ég. Gjörsamlega úr karakter fyrir okkur bæði, yfirleitt er ég bjartsýn en hann svartsýnn. En ég er reyndar farin að hallast að hans sjónarmiði, kaffið er farið að virka.
8.4.04
Efnafræðistúdentinn er að útskýra fyrir mér anatómíu sveppa:
- Gerirðu þér grein fyrir því hvað það er sem er verið að éta af sveppum? Sjálfur sveppurinn er bara þræðirnir sem er undir, það sem stendur upp úr moldinni er í rauninni æxlunarfærin. Þannig að það sem þið sveppaæturnar eruð að éta, það er tippið af sveppinum.
Aha. Nú fer ég að skilja af hverju hann borðar ekki sveppi.
Við Boltastelpan sátum hér í gærkvöldi, ég reyndar að spila tölvuleik og hún eitthvað að fylgjast með en var þó greinilega þungt hugsi. Allt í einu sagði hún:
- Heyrðu, amma, þegar þú ert dáin ...
Almáttugur, hugsaði ég, við höfum náttúrlega talað töluvert um dauðann og dánar ömmur að undanförnu og hún hefur auðvitað orðið eithvað vör við það. Hvað skyldi nú vera að brjótast í henni?
- ... má ég þá fá ...
Ha? Strax farin að hugsa um arfinn? Hvað skyldi ég eiga sem hana langar svona mikið í?
- ... tölvuna af því að ég þarf að komast í tölvupóstinn minn?
Það var semsagt bara verið að hugsa um yfirvofandi dauða minn í tölvuleiknum.
7.4.04
Þeir sem lesa Gestgjafann vita að ég er með svona ,,spurt og svarað"-dálk þar. Ég ætlaði að ganga frá honum í dag fyrir næsta blað en aldrei þessu vant eru eiginlega engar spurningar sem liggja fyrir, eða ég hef allavega ekki fengið neinar á borðið hjá mér. Ef einhver hér er með einhverja matartengda spurningu sem mundi passa þarna inn í, blessuð komið með hana - hér eða í tölvupósti. Ég dunda mér þá við þetta yfir páskana. Ef ég kem einhverju í verk. Spurningarnar eru nafnlausar þannig að það er alveg óhætt að spyrja um eitthvað sem þið skammist ykkar fyrir að vita ekki ...
Auglýsingastjórarnir hér hafa eitthvað verið að kvarta yfir því að það sé erfitt að selja auglýsingar núna í dymbilvikunni, sem er kannski ekkert skrítið. En ég sé að það er víðar sem botninn dettur úr viðskiptunum.
Athyglisvert að konurnar ætla að notfæra sér sambönd sín við ,,important clients" eins og lögreglu og saksóknara. Minnir mig á söguna sem Brynhildur Georgía sagði mér þegar ég heimsótti hana í Flensborg forðum daga. Það stóð til að loka gömlu vændiskvennagötunni í miðbænum og færa konurnar yfir í nýbyggð hús í hliðargötu frá aðalgötunni. Þetta vildu þær ekki (dýrara húsnæði, sem mundi þýða innrás melludólga frá Hamborg með yngri og flottari stelpur og þær yrðu að hrekjast úr bransanum) og fóru í kröfugöngu til að mótmæla og fengu lögguna með sér í gönguna. Það dugði, þær höfðu sitt fram.
Eða þetta sagði Brynhildur.
Málfræðilegt spursmál: Er rangt að tala um að hræra einhverju saman við eitthvað annað?
Ég hef alltaf, í öllum mínum bókum, greinum og annarsstaðar, talað um að ,,hræra saman rjóma, smjör og egg í skál" en svo aftur að ,,hræra rjóma, smjöri og eggjum saman við hveiti" og það hefur aldrei nokkur maður gert athugasemd við þetta. Nú eru prófarkalesararnir hér allt í einu teknir upp á að breyta þessu og bera fyrir sig Íslenska málstöð. Ég hugsa nú að ég taki ekkert mark á prófarkalesurunum en hvað finnst ykkur?
6.4.04
Jarðarfarir eru aldrei skemmtilegar. En þessi var tíðindalaus, til allar hamingju.
Ég vona að ég verði ekki mjög gömul, svo að enn verði einhverjir eftir til að fylgja mér. Að ég deyi glöð - eða allavega sátt - og helst um efni fram eins og ég sagði hér um daginn. Að jarðarförin mín verði skemmtileg. Ekkert guðsorð en þeim mun meiri söngur. Kannski ætti ég að gera eins og Stebbi Höski og kaupa líkmannabrennivínið strax. Það varð víst ekkert verra af að geymast í 40 ár, eða hvað það nú var.
Ég sá manninn minn fyrrverandi í fyrsta skipti í átta ár. Það varð fátt um kveðjur.
Ég var að spjalla við barnabarnið á MSN áðan og hún sagðist vera að fara út á eftir með Rakeli vinkonu sinni. Segið mér annars - hvor þágufallsmyndin er réttari, Rakel eða Rakeli? Báðar jafn?
5.4.04
Ætli ég geti stillt mig um að kveikja á grillinu þegar ég kem heim? Líklega ekki. Ekki nema veðri versni til muna næsta klukkutímann. Ég er með kjúklingabringur og svolítið af lambalundum hér í poka - og sítrónur og viti menn, vorlauk. Grillaður vorlaukur með paprikusósu er sælgæti.
Og svo er það bara sófinn og Rómarborg á 1. öld - samsæri, morð, orgíur og gaman.
Æi, nei. Ég var víst búin að lofa að klára einhver verkefni ... Orgíurnar verða að bíða.
En ekki grillið.
Ritstjóri Bleiks og blás kallaði til mín niðri í kaffistofu áðan og sagði að það væri eins gott að engir paparazzi-ljósmyndarar væru nærstaddir. Matargúrúið að háma í sig Sómasamloku. Þetta var að vísu Júmbósamloka en það meikar ekki diff.
Ég hef reyndar orðið fyrir því í búðum að ókunnugt fólk sem greinilega veit hver ég er kemur með kommenta á það sem ég er að kaupa. Það er svolítið skrítin tilfinning.
4.4.04
Sko, nú er ég ekki með Stöð 2 og sé ekki Jóa Fel. En ég var að skoða uppskriftirnar úr nýja þættinum á netinu áðan og var ekki nema hóflega impressed. Getur einhver sem sá þáttinn sagt mér hvort kartöflusalatið var í alvöru skreytt með brenndum vorlauk? Eða er myndin sem þarna birtist bara svo vond að hann sýnist brenndur?
Ég hef semsagt ekki séð þessa þætti og get því ekkert um þá sagt; hef hvorki séð Jóa í sturtunni né við skurðarbrettið. En ég man varla eftir að hafa heyrt eða séð nokkurn mann tala jákvætt um þættina. Ekki eru þessir kokkar hrifnir, svo mikið er víst. Ég er svosem ekki að gera ráð fyrir að þeir væru hressir með neitt sem kemur frá snúðabakara sem er að setja sig í hlutverk kokksins ...
Ég var að koma úr fermingarveislu hjá ungum frænda mínum. Alveg ljómandi ágætt og ég þakka enn og aftur fyrir mig og mína.
Eftirminnilegasta mómentið var samt þegar uppgjafaprófastur og frændi fermingarbarnins hélt ræðu og rifjaði meðal annars upp sína eigin fermingu í Miklabæjarkirkju fyrir 63 árum:
Prófasturinn: - Við vorum ellefu fermingarbræður, það hafði verið ein stúlka í hópnum en við misstum hana ...
Öldruð frænka grípur fram í skelfingu lostin: - Myrtuð?!?
Almenn kátína í salnum.
Prófasturinn, mjög vandræðalegur: - Nei, hérna, misstum hana - við misstum hana suður til Reykjavíkur ...
Og hélt svo áfram með ræðuna, ekki þó án frekari truflana, til dæmis frá miðaldra matargúrúi sem fannst það svo brjálæðislega fyndin tilhugsun ef prófasturinn hefði nú notað þetta tækifæri til að játa 63 ára gamlan glæp upp á sig og fermingarbræður sína að hún gat ekki hætt að hlæja og lá við að hún þyrfti að yfirgefa salinn.