(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

10.6.06

Kjaftagelgjur

Ég held að Sauðargæran, sem er mikill áhugamaður um dýr og ekki síst hákarla og aðrar háskaskepnur úr sjónum, ætti að bregða sér niður á Miðbakka á morgun. Þar er núna hægt að sjá gott úrval af ýmiss konar háfum og nokkrum sérdeilis ljótum sjávarskepnum, svo sem sædjöfli, lúsífer og fleiri kjaftagelgjum. Ég vissi ekki einu sinni að það væri til fiskaættkvísl sem heitir kjaftagelgjur en nafnið á vel við.

Sædjöfull er annars ein sú dýrategund sem er komin einna lengst í að gera karlkynið óþarft. Veit ekki hvernig mér gengur að skýra það út fyrir dóttursyninum.

|

Minnisgóða móðirin

Einkasonurinn kom hér við áðan eftir vaktina á Te og kaffi og fékk að fletta einhverju upp í tölvunni.

Einkasonurinn: -Viltu muna með mér: xxxxxx?

Móðirin: -Jájá.

Einkasonurinn (tveimur mínútum seinna): -Heyrðu, þú þarft annars ekki að muna þetta lengur.

Móðirin: -Það er nú gott því að ég er búin að steingleyma því.

Einkasonurinn: -Þú ert krútt.

Sem hann hefði örugglega ekki sagt ef ég hefði þurft að muna þetta.

|

Barnlaus á barnum

Við mættum náttúrlega á Vínbarinn í gær um leið og var opnað. Það liggur einhvernveginn beint við þessa dagana. Sátum lengi á spjalli við Völu í GV (hún er náttúrlega ekki lengur í GV en verður samt áfram Vala í GV, hvað sem hún segir sjálf). Ég var ekki með Sauðargærunan núna þannig að hvítvínsglösin urðu þrjú. Ekkert pepsí.

Hittum allavega þrjá Eiríka, þar á meðal Eirík Jónsson, sem kvaðst aðspurður ekki vera að koma til starfa hjá Fróða. Annars var fámennt þarna, kannski út af einhverju boltasparki. Samt er búið að setja upp sjónvarp á staðnum og einhverjir voru niðri að horfa á leikinn. Ég veit samt ekki hvernig hann fór. Come to think of it, þá veit ég heldur ekki hverjir voru að spila. Fótboltaáhugaleysi mínu er viðbrugðið.

Eftir rúmlega fjögurra tíma setu á Vínbarnum vorum við orðin svöng og færðum okkur yfir á Galileo, þar sem við þurftum að bíða svo lengi eftir pizzunum okkar að við vorum eiginlega orðin södd af brauðáti. Bjartsýnismaðurinn í hópnum pantaði samt eftirrétti þrátt fyrir eindregin mótmæli mín. Þau byggðust bæði á mati á mettunarstigi viðstaddra og reynslu af eftirréttum á Galileo. Ég hafði auðvitað rétt fyrir mér. En pizzurnar voru ágætar.

Svo enduðum við náttúrlega á Vínbarnum, þar sem ég fékk mér vatnsglas og var komin heim um miðnætti.

|

9.6.06

Bréf

Maður má ekki sjást með pappírsblað í hendi hér frammi við kaffivél, þá er sagt við mann:

-Æi - fékkstu bréf?

En ég hef nú ekki fengið neitt bréf ennþá.

|

8.6.06

Kálhausar

Ég hringdi í Boltastelpuna og spurði hana hvað hún vildi í kvöldmatinn. Hún sagðist vilja kálhausa.

Eftir nokkra eftirgrennslan kom í ljós að hún átti við kálböggla, sem bæði hún og bróðir hennar halda töluvert upp á. Henni verður samt ekki að ósk sinni þar sem faðir hennar og móðurbróðir koma líka í mat. Kálhausarnir bíða betri tíma.

Einhvers staðar á ég uppskrift að grilluðum kálbögglum. Eða við nánari umhugsun er það líklega grillaður kálhaus, fylltur. Ég hef reyndar aldrei prófað hana. Kannski kominn tími til.

|

Döðlurmöndlurhneturrúsínur

Vaknaði klukkan hálfsjö í morgun til að grilla kjúklingapinna af því að við vorum að fara í Ísland í bítið. Jújú, ég hefði alveg getað gert það í gærkvöldi en það er bara svo miklu betra að vera með nýgrillað ...

Bjó líka til sataysósu en það tók reyndar bara fimm mínútur og þessi sósa er bara býsna góð þótt ég segi sjálf frá. Ef maður kann á annað borð að meta sataysósur. Sem ég kann vissulega. Líklega ekkert fyrir Gurrí samt. Gurrí spyr alltaf þegar ég býð henni eitthvað: ,,Inniheldur þetta nokkuð döðlurmöndlurhneturrúsínur?" Sem sataysósa gerir vissulega.

Gurrí er eitthvað í nöp við döðlurmöndlurhneturrúsínur. Ekki mér. Þess vegna veit hún að það er vissara að spyrja.

Þar sem ég mætti eitthvað seinna en venjulega í vinnuna út af útsendingunni og hafði séð áttafréttirnar á NFS átti ég alveg eins von á að nýir eigendur/stjórnendur væru teknir við. Eða að það væri búið að skipta um lás á skrifstofunni minni - sorrí, setja lás, ég hef ekki getað læst á eftir mér eftir að við fluttum hingað upp á fjöll - en allt reyndist með kyrrum kjörum og ég þekkti næstum alla sem ég sá þegar ég kom.

Það er með mig og breytingar eins og Gurrí og döðlurmöndlurhneturrúsínur. Ég vil helst vera laus við þær.

|

7.6.06

Enginn veit sína ævina

Ég var að skrifa nokkurra línu æviágrip sem á að birtast með grein sem ég skrifaði fyrir tímaritið Moving Worlds. Lenti reyndar í mestu vandræðum með það vegna þess að þetta hefti kemur ekki út fyrr en í haust að ég held og hver veit hvar ég verð þá?

En það borgar sig víst ekki að áætla um atvinnu og prófgráður fram í tímann, ekki í textum sem eiga að birtast á prenti. Það fékk jú ágætur borgarfulltrúi að reyna hér um árið.

|

6.6.06

Fyrsta barferðin

Það var úrskurðað í vinnunni í hádeginu í dag, eftir miklar umræður og bölsýnistal, að það væri bara ekkert í stöðunni nema að fara á Vínbarinn um leið og hann opnaði. Ég studdi þá tillögu eindregið eins og ævinlega þegar slíkar tillögur koma upp. Áttaði mig svo á að ég hafði steingleymt að ég hafði lofað að líta eftir dóttursyninum nokkra stund á meðan systir hans útskrifaðist úr Vesturbæjarskóla. Ekkert mál, ég lét bara koma honum til mín á Vínbarinn ... Foreldrar hans létu þess getið að þetta væri í fyrsta sinn sem þau skutluðu syni sínum á bar og skildu hann þar eftir.

Drengurinn fékk svo pepsíglas á meðan ég kláraði hvítvínsglasið mitt og síðan tókum við strætó inn í Kringlu, þar sem ég átti erindi. Hann stakk upp á að við fengjum okkur eitthvað að borða á McDonalds og ég samþykkti eins og hver önnur amma. Síðan fórum við heim til mín þar sem hann fékk að horfa á He-Man.

Hann var hæstánægður með daginn.

|

Bjargvætturinn

Þessi færsla er ekkert um nýjan aðalritstjóra hjá Fróða. Hún er um allt annan bjargvætt.

Úr samræðum okkar dóttursonarins í Borgarfirðinum í gær:

Sauðargæran: -Það er rosalega stór klifrigrind á Hagaborg. Hún nær nærri því út í geiminn.

Amman: -Vá, út í geiminn? Þið þurfið þá að passa ykkur að klifra ekki of hátt og týnast í geimnum.

Sauðargæran: -Við gerum það ekkert. En klifrigrindin nær sko alveg upp í himininn svo að það er dökkblátt efst.

Amman: -En ef þið klifrið samt of hátt, þá þurfið þið sko að passa ykkur.

Sauðargæran: -Nei, amma, ef krakkarnir klifra of hátt í klifrigrindinni, þá kem ég og bjarga þeim.

Amman: -Þú?

Sauðargæran: -Já, manstu ekki, ég er ofurhetja. Svo að ég get fljúgið og náð í þau. Ég fljúgi sko með einum hnefa (kreppir hnefann og teygir handlegginn fram til að sýna). -Ég er Súpermann!

Amman: -Æi, já, því gleymdi ég.

Sauðargæran: -Og svo tek ég sögina og saga ofan af klifrigrindinni svo að hún nær ekkert upp í himininn þar sem er dökkblátt og krakkarnir fara ekki of hátt.

|

5.6.06

Forsætisráðherra - afsakið ...

,, ... áður en forsætisráðherra - verðandi forsætisráðherra - birtist á tröppunum."

Aumingja Halldór. Davíð var titlaður forsætisráðherra af fréttamönnum í marga mánuði eftir að hann hætti. Nú er Halldór ekki einu sinni formlega hættur og það er strax byrjað að kalla Geir Haarde forsætisráðherra.

|

Súpermenn og skotmenn

Var á Króknum um helgina, skrapp reyndar til Akureyrar líka. Það var fínt. Þokkalegasta veður. Hélt mig samt mest inni við. Nennti ekki á ball með Geirmundi og Jóa Færeyingi í Ólafshúsi.

Ég sat við hliðina á ofurhetju alla leiðina suður í dag, var reyndar alltaf að ruglast í því hvort það var Súperman, Clark Kent eða bara Sauðargæran sem sat við hliðina á mér og fékk stöðugar skammir fyrir eftirtektarleysið. Súperman var svo stöðugt að fljúga um loftin blá, eltast við bófa, drepa bláar vélmennisrisaeðlur með tvo hausa, skjóta krókódíla í Portúgal eða elta rjúpu gegnum ský til að gefa henni að borða (,,en hún borðaði samt bara lítið af því að þetta var sko stelpurjúpa").

Annars talar drengurinn yfirleitt meira um að skjóta rjúpur og aðra fugla en að gefa þeim að éta. Við vorum að ræða um það í gær hvaða dýr hann hefði borðað um dagana og það var nú sæmilega fjölbreytt. Hann lagði fram sérstaka ósk um að ég eldaði geitakjöt handa sér hið fyrsta. Svo stakk hann upp á því að ég eldaði álft sem hann mundi veiða.

Amman: -Ég get það ekki, það er bannað að skjóta álftir.

Sauðargæran: -Ó. Nú, ég veiði hana þá bara með háf.

Amman: -Ég held að það sé bannað líka.

Drengurinn glottir íbygginn.

Kannski á hann einhverntíma seinna meir eftir að lauma kolólöglegri álft inn á borð til mín og ætlast til að ég elda hana. En ég held ekki; hef aldrei heyrt sérlega jákvæðar frásagnir af álftaeldamennsku.

|