(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

24.4.04

Sauðargæran dóttursonur minn er sannur karlmaður, sem sést best á því að hann er með grilldellu.

Hann var síðustu vikur búinn að tala mikið um grilleldamennsku við foreldra sína og hvetja til þess að grillið (sem hann telur sína eign) yrði dregið fram. Í hvert skipti sem hann kom út á svalir hjá mér benti hann á grillið sem þar stendur og talaði um það.

Hann varð ákaflega glaður þegar grillað var heima hjá honum á sumardaginn fyrsta, fylgdist afar áhugasamur með og hefur gert tilraunir til að ræða grill og grilleldamennsku við jafnaldra sína síðan (,,grillið mitt er stærra en grillið þitt" - eða þannig), við dræmar undirtektir annarra tveggja til þriggja ára barna.

Þegar hann var að leggja af stað í leikskólann í gærmorgun þurfti hann svo mikið að horfa á grillið, nýkomið út í garð, að hann gleymdi að horfa fram fyrir sig og gekk á vegg.

Hann er víst búinn að vera frekar fúll síðustu tvo daga, af því að ekki hefur viðrað til grilleldamennsku. Ég ætti kannski að bjóða honum að vinna með mér í grillblaði Gestgjafans.

|

Efnafræðistúdentinn: - Sko, nú heldur þú því fram að þú vitir allt ...

Ég: - Já, og?

Efnafræðistúdentinn: - ... og geturðu þá útskýrt af hverju naflalóin mín er blá?

Auðvitað gat ég það, og þurfti ekki einu sinni að grípa til skýringar Wil Anderson, þótt hún sé reyndar nokkuð áhugaverð: ,,He claims that the body hates colours, and will expel them through the nearest orifice. So green snot leaves via the nostrils, brown faeces via the anus, yellow urine via the urethra and, yes, blue Belly Button Lint via the belly button."

Nei, ég þarf ekki annað en að horfa á drenginn. Hann er í bláum gallabuxum (eins og nánast alltaf) og bláum bol. Auðvitað er naflalóin blá.

|

Ég er búin að vera gífurlega framtakssöm í morgun, réðist á efri skápana á baðinu og tæmdi þá næstum (ja, allavega einhverjar hillur í þeim), tíndi fram fullt af fötum sem ekki hefur verið gengið í síðustu tólf árin eða lengur, setti í poka og ætla með út í skúr - neeei, ég er sko ekki að fara að henda þessu, eða losa mig við það, ónei, ef þið haldið það þekkið þig ekki fólk með söfnunaráráttu. Svo tók ég dót sem er í neðri skápunum en er ekki notað lengur og færði upp í efri skápana (nei, það fer ekkert oní poka strax, það er ekkert komið að því) og nú er allt í einu pláss í neðri skápunum sem verður þó fljótt að fyllast ...

Spurning hvort ég á að reyna að virkja þessa óvenjulegu framtakssemi mína á meðan hún endist í eitthvað enn gáfulegra, til dæmis í að ljúka nokkrum verkefnum sem ég á eftir að skila af mér.

|

23.4.04

Pósturinn var að koma með bók sem ég er búin að bíða eftir nokkuð lengi, hún lagði af stað til mín einhvern tíma um áramótin en er reyndar að koma frá Höfðaborg svo að ég átti ekkert sérstaklega von á henni fyrr en núna. Cookery in Southern Africa eftir Vida Heard og Lesley Faull, þykk og mikil bók, á sjötta hundrað blaðsíður, sem meðal annars inniheldur kafla eins og Meat and game, Including insects - já, og þar sem bókin er frá apartheid-tímanum er í henni kafli sem heitir Our colourful peoples, how they have influenced our cooking.

Hér eru uppskriftir eða kaflar sem heita nöfnum eins og To clean cow heels (At last a method!); Sheeptail fat and tall tales; Boiled penguin eggs; Various laxative sweets; Beestings custard (suðurafríska útgáfan af ábrystum); og uppskrift sem mér finnst alveg sérstaklega athyglisverð: Artificial asses' milk (For sick people).

Þetta gæti orðið skemmtileg lesning.

|

Elín Alberts fullyrðir að hún hafi heilmikið verið að reyna að koma mér á séns á pressuballinu. Hmm. Eitthvað fóru þær tilraunir nú framhjá mér. Enda held ég að það sé skortur á frambærilegum miðaldra einhleypum karlmönnum í blaðamannastétt.

Eins og ég hef einhvern tíma áður lýst, þá hættir mér mjög til að klæða mig í samræmi við veðrið daginn áður þegar ég legg af stað í vinnuna á morgnana. Klikkaði einmitt á því núna og fór í þunnan og sumarlegan jakka sem Boltastelpan kallar vasaþjófagildruna (vasarnir á honum eru bara plat og eru opnir alveg niður úr þannig að það þýðir ekkert að reyna að seilast ofan í þá - verst að ég gleymi því stundum sjálf að vasarnir eru botnlausir og sting lyklum eða peningum í þá). En það er semsagt alls ekki veður til að ganga heim í slíkri flík. Típískt.

|

Ég asnaðist til að kveikja á sjónvarpinu og það fyrsta sem ég sá var tærnar á Rut Reginalds.

|

22.4.04

Pressuballið var bara ágætt. Þetta var síðkjólaball og þar sem ég er orðin frekar leið á báðum síðkjólunum mínum vissi ég ekki alveg í hverju ég ætti að vera; samstarfskonur mínar voru að grafa fram gamla erfðagripi, fá lánaða eða leigða kjóla eða kaupa þá. Ég á enga erfðagripi, engar vinkonur sem eiga fína kjóla (ekki sem passa á mig allavega), tími ekki að leigja mér kjól og Karen Millen á örugglega ekkert í mínu númeri. Þannig að ég skaust inn í búðina hjá Rauða krossinum á leiðinni heim og fann þennan fína síðkjól þar. Í rauðbrúnum lit sem ég held mikið upp á. Og hann smellpassaði. Ég keypti reyndar líka jakka og tvær blússur og borgaði þrjú þúsund fyrir allt saman. Bestu kaup sem ég hef gert lengi.

|

Gleðilegt sumar, öllsömul.

Ég sé í Fréttablaðinu að ég er orðin trendsetter, Vesturbæjarsamtökin hvetja alla til að baka pönnukökur í dag og bera þær fram á blárósóttum diski. Eins og ég sagði í gær er ég búin að gera þetta á hverjum fyrsta sumardegi undanfarin fimmtán ár.

Í ár verður meira að segja hægt að borða pönnkökurnar úti á svölum, það held ég að hafi ekki gerst í mörg ár. Gæti þó verið misminni, ég er ekki minnug á veður.

|

21.4.04

Það er sumardagurinn fyrsti á morgun. Ennþá. Þótt einhverjir séu að reka áróður fyrir því að færa hann yfir á föstudag eða mánudag. Gott ef ekki aftur á haust af því að það eru svo fáir frídagar á haustin.

Ég vil samt hafa sumardaginn fyrsta kjurran þar sem hann er. Það er nokkuð löng (þúsund ára?) hefð fyrir því að hafa hann á fimmtudegi. Ég er töluvert fyrir hefðir. Það er líka hefð fyrir því í minni fjölskyldu að gera góða hluti á sumardaginn fyrsta. Mamma og pabbi trúlofuðu sig á sumardaginn fyrsta fyrir 51 ári. Ég flutti á Kárastíginn á sumardaginn fyrsta fyrir 13 árum. Og undanfarin fjöldamörg ár hefur á mínu heimili ævinlega verið boðið upp á nýbakaðar pönnukökur á sumardaginn fyrsta og þær eru ævinlega bornar fram á blárósóttum diski. Íslenskara gerist það ekki.

Það eru semsagt pönnukökur á boðstólum á Kárastígnum á morgun fyrir þá sem eiga leið hjá. Samt ekki fyrr en eftir hádegi, ég er að fara á Pressuballið í kvöld og nenni örugglega ekki snemma á fætur.

|

Ljúfu langar að vita hvað og hvernig tagína er. Hér má sjá mynd af einni slíkri. Tagínur eru venjulega úr leir en það eru líka til málmútgáfur. Þetta eru eins konar pottar sem eru notaðir í Norður-Afríku fyrir margs kyns hægeldaða rétti sem einnig ganga undir nafninu tagine. Þetta er venjulega notað á opnum eldi og virkar varla á rafmagni (nema málmtaginurnar) en er mjög vel hægt að nota á gasi.

Það sem einkennir tagínurnar er lögunin, frekar grunn og víð skál og svo keilulaga lok. Það þarf mjög lítinn vökva til að elda í tagínu af því að nær öll uppgufunin þéttist innan á lokinu og drýpur svo aftur niður á matinn. Mér finnst mjög þægilegt að elda ýmiss konar pottrétti, kjúkling, lambakjöt, fisk og fleira í þessu - já, og grænmetisrétti.

Mínar báðar (ein sæmilega stór, önnur lítil) eru grófar og einfaldar en svo eru líka til skreyttar útgáfur, sjá hér.

|

Af mbl.is:

,,Sænski húsgagnaframleiðandinn IKEA hefur nú fengið Gallup til að kanna hve mikið fólk í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku notar svefnherbergin sín til að sofa í, slappa af eða eiga rómantískar stundir. Niðurstöðurnar eru athyglisverðar en m.a kom í ljós að 72% Íslendinga og Svía nota svefnherbergin þegar þeir eiga ástarfundi en aðeins um 20% Kínverja. "

Gott og vel. Það sem mig langar til að vita er: Hvað nota hin 80 prósentin?

|

20.4.04

Efnafræðistúdentinn er að föndra. Klippa og líma. Fyrir skólann. Það hefur hann held ég ekki gert síðan hann var í Melaskóla.

Honum finnst þetta ekkert voðalega gaman, satt að segja.

|

Veit einhver hvað er með Bókavörðuna - er hún að flytja sig um set og þá hvert? Eða er búðin að hætta?

|

Nota bene, grillblaðið. Best ég noti tækifærið og auglýsi eftir hugmyndum, uppástungum og fyrirspurnum varðandi efni í það. Eitthvað sérstakt sem ykkur finnst algjörlega vanta? Þá getið þið komið því á framfæri hér í kommentunum eða sent mér tölvupóst, nannar@isholf.is.

|

Ég er að fara að leggjast í ýmsar tilraunir með grænmetiseldamennsku á næstu dögum vegna frekari verkefna fyrir grænmetisbændur. Kannski ég endi með að gera efnafræðistúdentinn að grænmetisætu af einhverri týpu.

Og þó. Ég þarf nefnilega líka að fara að elda hefðbundinn íslenskan mömmu- & ömmumat vegna myndatöku fyrir bók sem ég var að skrifa. Ekki svo mikið um grænmeti þar. Og svo er grillblað Gestgjafans í aðsigi. Það verður víst ýmislegt annað eldað en grænmeti á næstunni á Kárastígnum.

|

19.4.04

Kvöldmaturinn er farinn að malla í taginunni, ilmar allavega vel - ég hefði kannski átt að hafa grænmetisrétt eftir skrifin fyrr í dag en átti til skagfirskt lambakjöt í ísskápnum sem ég þurfti að fara að nota. Kryddaði það með kóríanderfræi, papriku, kanel og pipar, brúnaði það í taginunni og bætti svo við rauðlauk, hvítlauk, nokkrum timjan- og rósmaríngreinum, gulrótum, tómötum og sítrónum - þetta gæti orðið nokkuð gott. Bæti kannski við spænskri papriku og eggaldini af því að ég á það til, jafnvel örfáum ólífum. Það verður allavega nóg grænmeti í þessu þótt það sé ekki grænmetisréttur ...

|

Svona í framhaldi af því sem ég var að segja hér á undan - það er afskaplega misjafnt hvernig trítment grænmetisætur fá á veitingahúsum og matsölustöðum. Oftar en ekki, þegar ég hef farið með hópi á árshátíð eða einhverja slíka samkomu, hef ég dauðöfundað grænmetisæturnar í hópnum (oftast bara 1-2) því þær hafa fengið mun girnilegri mat en aðrir. Undantekning: Árshátíðin í Skíðaskálanum, þegar allir fengu vondan mat en grænmetisæturnar fóru þó verst út úr því af því að hnetusteikin þeirra (eða hvað það nú aftur var) var borin fram með sömu hálfköldu kjötsósunni og dósabaununum og allir hinir fengu með lambakjötinu.

En ég hefði sannarlega viljað skipta við Jónínu Leós á jólahlaðborðinu núna síðast; allir hinir stóðu í biðröðum til að fá sér þokkalegan en ekkert spes hefðbundinn jólahlaðborðsmat sem var hrúgað saman á diskana þannig að allt fór í jukk, hún fékk flotta séreldaða grænmetisrétti sem þjónninn setti fyrir hana.

Í nokkur ár var ástandið þannig á mínu heimili að annað barnið var grænmetisæta (lacto-ovo-vegetarian, ef ég man rétt) og með mjólkuróþol sem var að vísu ekki búið að greina, en hitt borðaði hvorki grænmeti né ávexti af neinu tagi, nema reyndar Ora grænar baunir, og leit reyndar á allt grænmeti í mat sem beina tilraun til að eitra fyrir sig.

Það var á þessum árum sem ferill minn sem matargúrús hófst fyrir alvöru. Ég var eiginlega tilneydd.

|

Mér finnst alltaf svolítið skrítið þegar einhver segist vera grænmetisæta og svo kemur í ljós að viðkomandi borðar fisk, kjúkling, jafnvel svínakjöt - allt nema rautt kjöt. Grænmetisæta er auðvitað ekki nógu gott orð því bókstafleg merking er náttúrlega ,,sá sem borðar grænmeti" (og guð veit hvað annað), þótt það hafi fengið merkinguna ,,sá sem borðar grænmeti en ekki kjötmeti". Reyndar þekkti ég einu sinni grænmetisætu sem borðaði ekki grænmeti en það er önnur saga.

Líklega vantar okkur nánari skilgreiningar á mismunandi flokkum grænmetisæta. Enska flokkunin er einhvern veginn svona:

Vegetarian - óljóst hugtak, nær í víðustu merkingu yfir þá sem borða ekki (rautt) kjöt

Pescetarian - grænmetisæta sem borðar þó líka fisk og skelfisk

Lacto-ovo-vegetarian - grænmetisæta sem borðar engar dýraafurðir nema mjólkurafurðir og egg

Lacto-vegetarian - grænmetisæta sem borðar engar dýraafurðir nema mjólkurafurðir

Ovo-vegetarian - grænmetisæta sem borðar engar dýraafurðir nema egg

Vegan - grænmetisæta sem borðar engar dýraafurðir, stundum ekki einu sinni hunang

Macrobiotic - grænmetisæta (vegan) sem borðar aðallega grænmeti og korn, eldað sem minnst og helst ræktað á staðnum og borðað skömmu eftir uppskeru (getur verið skrambi erfitt á Íslandi)

Raw foodist - gænmetisæta (vegan) sem borðar matinn hráan (ávextir, grænmeti, hnetur, fræ, spírur)

Fruitarian - grænmetisæta sem borðar eingöngu ósoðna ávexti, korn og hnetur. Sumir halda sig eingöngu við afurðir sem hægt er að nýta án þess að jurtin sjálf þurfi að deyja, svo sem tómata og epli.

Ég held samt ég haldi áfram að vera alæta.

|

18.4.04

Í Everybody Loves Raymond er fjölskyldan að velta fyrir sér tilgangi lífsins. Umræðurnar minna mig á tvo skólabræður mína úr MA. Þeir höfðu komið úr Sjallanum eina vornótt, settust svo uppi á herbergi og héldu áfram að drekka og fyrr en varði voru þeir farnir að ræða tilgang lífsins. Það umræðuefni entist þeim lengi nætur en klukkan hálfsjö um morguninn vildi annar bara fara að sofa, líklega hefur ekki verið veður til að fara út á skólabátnum eða stelast í Lystigarðinn eða fara að vaða í andapollinum eða annað sem fólk gerði gjarna við svipaðar aðstæður. Þá sagði hinn:

- Alltaf vilt þú fara að sofa áður en við komumst að niðurstöðu.

Þannig að sá fyrri settist aftur og þeir héldu áfram að ræða tilgang lífsins. Reyndar ekki nema fram til klukkan sjö. Þá urðu þeir ásáttir um að fara að sofa þótt niðurstaða væri ekki fengin.

Aldrei hefur mér dottið í hug að fara að velta fyrir mér tilgangi lífsins, það er eitthvað svo tilgangslaust.

|

Eitthvað gengur nú á hér frammi, Óskar og Eva María eru að flytja úr risíbúðinni í dag og yfir í næstu götu og það er mikill kassastafli hér frammi á stigapallinum hjá mér - grunnbúðir, sagði Skari áðan - og svo þrammað upp og niður stigana með húsgögn, kassa og dót.

Ferlegt vesen sem það er annars að flytja, ekki síst fyrir fólk með söfnunaráráttu. Ég gaf einhverjar yfirlýsingar þegar ég flutti hingað á Kárastíginn um að nú flytti ég ekki aftur fyrr en á elliheimilið. Eftir að vita hvort ég stend við þær en eftir nokkra daga er ég búin að búa hér í þrettán ár.

|

Dularfullir hlutir í gangi.

Mig langar allt í einu í kókosbollu. Það hefur ekki gerst í mörg ár. Ég þurfti meira að segja að hugsa mig um áðan til að muna hvort kókosbollur eru yfirleitt framleiddar ennþá.

En nú er ég á leiðinni út í Krambúð að kaupa mér kókosbollu. Þótt mér þyki kókosbollur ekkert góðar. Eða mig minnir ekki. Og ég veit með vissu að þær fara ekki vel með hárið á fólki, ekki að ég ætli að klína bollunni á hausinn á mér.

Þetta gæti orðið athyglisvert.

|