(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

26.10.07

Skeiðahitarar

Ég er alltaf að vonast eftir að ákveðinn hlutur dúkki upp á ebay og leita þess vegna reglulega að honum þar. Árangurslaust enn sem komið er. Þessi hlutur er úr emaleruðu silfri. Og það bregst ekki að ég slæ alltaf inn ,,email" í leitina, ekki ,,enamel".

Annars er ég líklega bráðum komin með nóg af ættarsilfri í bili. Mig vantar samt ennþá skeiðahitara. Þeir eru að vísu til en ég er alltaf að bíða eftir að finna einhvern á skaplegu verði. En þetta eru afskaplega eftirspurðir gripir (það eru virkilega til fleiri furðufuglar en ég) og nógir um boðið, þannig að verðið fer alltaf yfir það sem ég tími að borga.

Og þegar ég hef boðið í einhvern fæ ég alltaf a.m.k. einn eða tvo tölvupósta frá einhverjum sem eiga einmitt svona skeiðahitara og eru til í að selja mér, hvað vil ég borga fyrir, bara hafa samband og þeir selja mér hann off-ebay ... yeah, right. Ég er nú eldri en tvævetur.

|

Síðumúlinn kvaddur

Þetta er síðasta færslan úr Síðumúlanum - ég er búin að pakka niður og byrja að vinna á Bræðraborgarstígnum á mánudagsmorgun. Að læknisráði.

Bara ég samt; hin flytja seinna.

|

25.10.07

And then there were none (nema í íslensku útgáfunni)

Ég skil eiginlega alls ekki fólk sem skilur ekki - eða þykist ekki skilja - að foreldrum blandaðra eða svartra barna skuli sárna útgáfa bókarinnar Tíu litlir negrastrákar. Textinn er nú nógu slæmur - en ég var búin að gleyma hvað myndirnar eru gróteskar og sýna strákana sem hálfgerð skrímsli.

Sko. Tíu litlir negrastrákar var til heima þegar ég var lítil. Mér fannst hún frekar skemmtileg og ég kann a.m.k. meiripartinn af kvæðinu enn utanbókar.

En þá hafði ég heldur aldrei nokkurn tíma séð mann sem var öðruvísi á litinn (og segi frá því hér þegar það gerðist fyrst). Svertingjar voru eitthvað sem maður las um í bókum (og hétu þar oftast negrar eða niggarar eða surtar eða þaðanaf verra) og voru allajafna vafasamir karakterar (eða þaðanaf verra). Ekki mikið af myndum af þeim í bókum - jú, Jói í Ævintýraeynni, það var nú ljóti bófinn, og kannski fáeinir aðrir, yfirleitt skítugir, heimskir og óttalegar bleyður - og svo negrastrákarnir hans Muggs. Þeir voru varaþykkir og afmyndaðir og svakalega ljótir (og ævintýralega heimskir, auðvitað). Kýrnar voru aftur á móti tiltölulega eðlilegar hjá Muggi, það sá ég því að beljur þekkti ég náttúrlega vel. Svo að líklega hef ég dregið þá ályktun að negrastrákarnir væru eðlilegir líka. Miðað við negra, sko. Sjónvarpið var ekki komið svo að ekki sá maður öðruvísi litt fólk þar. Í dagblöðunum voru aðallega myndir af hvítum körlum.

En það eru bara aðrir tímar núna. Leikskólarnir eru fullir af allavega litum börnum. Ein í saumaklúbbnum á hálfnígerískan en alíslenskan ömmustrák. Af-og-til-kærasta Sauðargærunnar er fædd í Kína. Ísland er ekki lengur alhvítt.

Ég held að Muggur hefði teiknað allt öðruvísi myndir núna.

Mér finnst ekkert að það eigi að banna bókina. Mér finnst bara að fólk eigi ekki að kaupa hana.

Allavega ætla ég bara rétt að vona að enginn fari að gefa Sauðargærunni bókina.

|

Strætórísottó

Ég þurfti að hitta mann uppi á Höfða áðan. Hélt ég rataði nú þangað með strætó en þá var auðvitað búið að breyta öllu sísteminu.

Ég villtist samt ekki í Kópavoginn á heimleiðinni eins og gerist næstum alltaf þegar ég hætti mér upp í strætisvagna á ókunnugum slóðum. Merkilegt hvað margir vagnar leggja leið sína um Kópavoginn (ég er viss um að Kópavogsbúar eru algjörlega á öndverðum meiði en svona horfir málið við mér).

Mig langar í rísottó í kvöldmatinn. Það á eitthvað svo vel við. Eiginlega tekur því ekki að elda það fyrir einn en ég held ég láti það samt eftir mér. Út af hvítvíninu, skiljiði.

Rísottó með villisveppum og spænskri skinku. Með hrúgum af nýrifnum parmigiano reggiano.

|

24.10.07

Kerlingarraus

Ég fór að hitta hjartalækninn áðan. Það fór alveg ljómandi vel á með okkur og hrifning mín af læknum minnkaði ekkert við þessa heimsókn. Hann var helst á því að orsökin fyrir öllum mínum umkvörtunarefnum væri að ég hefði ekki haft vit á að hætta hjá Fróða þegar flutt var upp á Höfða á sínum tíma. (Ókei, hann sagði það ekki berum orðum - en var á því að allt væri þetta af því að ég labbaði ekki lengur í vinnuna, enda fann ég ekki fyrir neinu fyrr en 2-3 mánuðum eftir að við fluttum uppeftir. Þannig að sennilega fer allt í besta lag þegar við flytjum aftur á Bræðraborgarstíginn og ég fer að hreyfa mig aftur.)

Ég á nú samt að fara í einhverjar myndatökur og blóðprufur í fyrramálið, svona til öryggis. Til að gá hvort ég sé nokkuð á leiðinni að fá blóðtappa eða hjartaáfall eða krabbamein eða eitthvað. Og halda áfram að leita að ástæðu fyrir Dularfullu sökkhækkuninni sem ég er búin að vera með árum saman. Hmm, síðan farið var upp á Höfða, nánar til tekið.

Gagnlega barnið segir að ég sé að breytast í kerlingu. Sem er nákvæmlega það sem ég er sjálf búin að segja árum saman.

Ég er samt ekki að fara að prjóna.

|

Ammananna

Annars er úr ýmsu Nönnudóti að velja.

Til dæmis þessu hér, sem mig mundi þó ekki vanta.

Svo getur þetta nú farið út á vafasamar brautir ...

Mér finnst líka að allir ættu að lesa þessa grein. Nanna is the new sexy ...

|

Meðmæli dagsins

Ég mæli með að allir fái sér svona.

Svo er líka hægt að fá svona. Meiraðsegja í XXXXX-large.

(Já, og svona, fyrir þá sem eru mínímalískari.)

Og viti menn:

|

Við Hammond Innes

Ég þurfti að fletta sjálfri mér upp í Gegni áðan til að tékka á svolitlu og þá rak ég mig á dálítið sem ég var reyndar löngu búin að sjá en hef aldrei hugsað út í: Ég er skráð þarna fyrir einum 60 bókum (frumsömdum, samanteknum og þýddum) og ártalið á þeim öllum (nema einni) er árið sem þær komu út á íslensku (nema náttúrlega þessar þrjár sem ég skrifaði á ensku). Sextíu bækur á tuttugu árum, því að sú fyrsta kom út 1987 - en þá er ég komin að þessari einu: Heljarbrúin eftir Hammond Innes er skráð á ártalið 1944. Ég þýddi hana 1994 og hún kom út það ár þannig að þetta er væntanlega bara innsláttarvilla í Gegni; ég hélt kannski að 1944 væri árið sem bókin kom fyrst út á ensku en svo var ekki, hún kom 1993.

Hammond blessaður var kominn um áttrætt þegar hann skrifaði hana og eitthvað farið að slá út í fyrir honum, ég man að þýðandinn tók sér bessaleyfi og leiðrétti eitt og annað sem gat bara ekki staðist. Enda átti hann bara eftir að skrifa eina skáldsögu og sú reyndist svo arfavitlaus að þegar við fengum hana til þýðingar lagðist ég eindregið gegn útgáfu og hún var aldrei þýdd. Þar var blandað saman Ceausescu heitnum Rúmeníuforseta og afkomendum skandinavískra víkinga sem bjuggu í einangruðum leynidal í Mið-Asíu (svona eins og í ótal drengjabókum og Andres Önd-sögum hér fyrr á tíð) nema ef ég man rétt áttu víkingarnir tölvur og alles og voru í leynisambandi við umheiminn. Gott ef ekki Ceausescu; ég er búin að gleyma þessu.

Fínt ef þetta hefði verið skemmtileg della; en það var hún ekki.

|

23.10.07

Hinn eingetni einkasonur

Ég var að hlusta með öðru eyranu á séra Geir í Kastljósi áðan. Og í ljósi þess sem hann fullyrti þar fannst mér athyglisvert að lesa þetta hér.

Er ekki séra Geir 26 árum of seinn með þessa gagnrýni sína? (Eða allmörgum öldum, ef miðað er við trúarjátninguna.)

|

Hreint borð

Allt farið í prentsmiðju og ég er að taka til í prófarkastöflunum á borðinu hjá mér; en aðrir eru greinilega að gera það líka því pappírstunnan er full. Það er ruslafatan mín líka svo að líklega þarf ég að henda próförkunum í smáskömmtum næstu daga.

Og tveir mánuðir til jóla. Einhvern tíma hefði það nú þótt gott að vera búin að koma öllu af sér á þeim tímapunkti. Ætli seinasta bókin sem ég vann í hjá Iðunni hafi ekki verið Bó&Co fyrir jólin 2001? Og hún fór ekki í prentsmiðju fyrr en undir mánaðamótin nóvember/desember, minnir mig.

En það er svosem nóg af verkefnum sem liggur fyrir.

Ég er víst orðin svoddan seleb að ég get ekki haldið matarboð nema það fari í blöðin. En ég þarf að leiðrétta að það hafi verið ellefu réttir. Maður telur ekki kaffið og konfektið með (nema kannski ef konfektið er heimagert, sem ég nennti ekki að standa í að þessu sinni). Svo að þeir voru bara tíu. Sorrí.

|

22.10.07

Veður vott

Langt síðan ég hef orðið svona gegndrepa á svona skömmum tíma. Þegar ég kom niður að Grensásvegar/Fellsmúlagatnamótunum (sem er nú ekki langur spölur frá Síðumúla 28) og sá að bílstjórar voru að skemmta sér við leikinn ,,skvettum á Nönnu" (eða hvern saklausan vegfaranda sem átt hefði leið hjá), þá var ég að hugsa um að vera ekkert að bakka frá gangstéttarbrúninni þar sem ekki var þurr þráður á mér hvort eð var. En hætti samt við; það er aldrei gaman að fá á sig ískalda gusu. Þótt maður sé blautur. Og rigningin er þó sæmilega hrein ...

En ég hitaði mér kakó um leið og ég var komin heim og búin að skipta um föt. Afskaplega kærkomið. Vantaði bara hagldabrauð til að dýfa í kakóið. Nú er ég að hugsa um að fá mér annan kakóbolla, hreiðra um mig undir teppi í leisígörl-stólnum mínum og leika mér með fjarstýringuna þar til ég finn eitthvað sem hægt er að horfa á í rólegheitum.

Miklum rólegheitum.

|

Eldsteikt önd

Mér tókst næstumþví að kveikja í eldhúsinu í gær (skildi ekkert í því að þegar ég vaknaði fann ég enn svolitla reykjarlykt en skildi það þegar ég leit á vegginn fyrir ofan eldhúsvaskinn - það var greinilegt sótlag á honum) og er allavega búin að komast að því að gasskynjarinn er bara gasskynjari, ekki gas- og reykskynjari, því að hann þagði þunnu hljóði. Verð líklega að druslast til að kaupa batterí í reykskynjarann; það sem er í honum er greinilega löngu útrunnið því hann þagði líka.

Hins vegar varð andabringan sem ég var að steikja mér alveg fantagóð við þetta. Enn betri en þær sem ég var með í matarboðinu á laugardaginn (þessi gekk af þá, ég sá þegar bringurnar höfðu þiðnað að þær voru þykkari en ég hafði reiknað með svo að ég sleppti því að steikja eina). Enda var ekki reykjarkeimur af þeim.

Afganginn ætla ég að borða núna í hádeginu. Nammi.

|

21.10.07

Ekkifrétt um strætó

Ég rakst á þessa frétt áðan. Og ég verð að segja að ég skil hana ekki alveg.

Sko.

Ég tek tvistinn í vinnuna á hverjum virkum morgni. Og frá því skömmu eftir að nýja leiðarkerfið var tekið í notkun fyrir tveimur mánuðum hefur vagninn oftar en ekki verið rúta, ekki strætó. Veit svosem ekki um aðra vagna en tvisturinn sem fer frá Hlemmi korter fyrir átta er iðulega rúta. Líka oft þegar ég fer heim upp úr fimm en það er þó ekki eins algengt.

Samt segir framkvæmdastjóri Strætó að þetta sé eitthvað sem þurft hafi að grípa til í neyð örfáum sinnum.

Ég er svosem ekki að kvarta fyrir mitt leyti, sætin í rútunum eru óneitanlega þægilegri. Og það er allt í lagi þegar bjöllur eru í rútunni - en upp á síðkastið hefur stundum verið notuð rúta með engum bjöllum og þá þarf fólk að öskra í tæka tíð á bílstjórann: -Stoppa næst! eða önnur fyrirmæli sem skiljast misjafnlega því að bílstjórarnir eru jú hreint ekki allir íslenskir.

Ég hef reyndar sloppið við það þar sem það bíða alltaf farþegar á Grensásstoppistöðinni - sem er eins gott, ég er ekki mikið fyrir öskur. (Smáöppdeit: Ég fann bjölluna í morgun - hún er þarna, bara falin.)

En þetta er allavega ekki eitthvað sem var bara að gerast á fimmtudaginn og föstudaginn var. Hreint ekki.

|

Myndir úr boðinu

Til allrar hamingju þvoði ég mestallt leirtauið upp jafnóðum í gær en ýmislegt var þó eftir í morgun - þar á meðal silfrið, sem ég þvæ í höndunum. Kannski allt í lagi að setja það í vél en ég treysti því ekki alveg. Þetta er jú ættarsilfrið ...

Nokkrar myndir úr matarboðinu í gær eru hér.

|

Gasið kláraðist ekki ...



Matarboðið í gær lukkaðist þetta líka ljómandi vel. Gasið kláraðist ekki í þetta skipti (að vísu fór öryggið í eldhúsinu og ég átti ekkert til vara en þar sem ég þarf ekki nauðsynlega að þvo þvott í dag setti ég bara þvottavélaröryggið í staðinn – en ég þarf greinilega að fara að gera eitthvað í rafmagnsmálunum, veit einhver um rafvirkja sem gæti komið fyrir jól?) – en allt heppnaðist mjög vel nema hvað eftirrétturinn leit ekki eins flott út og hann hafði átt að gera (bragðaðist þó ágætlega) en það er vandamál sem ég leysi auðveldlega ef ég skyldi nota hann aftur. Vanilluchilitómatsósan var alveg ágæt og vínið smellpassaði þannig að sú tilraunastarfsemi gekk upp.

Aðalmálið var náttúrlega samt gestirnir, nokkrir gamlir félagar af Iðunni. Yndislegt kvöld og frábært að fá ykkur í heimsókn.

Matseðillinn er svo hér:

Með fordrykknum (Jacob’s Creek Chardonnay Pinot noir Brut)
Reyksilungstætingur/ mínírækjukokkteill með nýsteiktum rækjum og tómatberjum/ spænsk skinka í ræmum, blönduð parmesanosti og basilíku og bleytt í með mandarínuolíu

Vatnsmelónuteningar með balsamediki, dukkah og graskersfræi

Karríristuð risahörpuskel með grænbaunamauki og reyksalti
Clos St. Landelin pinot gris 2003

Gæsasúpa með hnúðkáli, eplum og rúsínum og ristuðu snittubrauði

Grafið kindafillet með klettasalati, nektarínum, pekanhnetum og arganolíu
René Mure Gewurztraminer 2004

Stikilsberjasorbet (úr saft af hratinu úr stikilsberjunum sem hann Villi færði mér í haust)

Pönnusteiktur steinbítur (sem hafði alltsvo átt að vera hlýri, en kom ekki að sök) með spergilkáli, maís, salatblöðum og vanillu-tómatsósu
Martin Códax Albarino 2005

Andabringur með sætkartöflustöppu, bökuðum nípum, kastaníusveppum steiktum í andafeiti og peru-grænpiparsósu
Monti Garbi Ripasso Tenuta sant’Antonio Valpolicella 2003

Þrílitar súkkulaðirósir (ís úr hvítu súkkulaði, panna cotta úr mjólkursúkkulaði, litlar kökur úr dökku súkkulaði) með hindberja-, kíví- og nektarínusósum
Muscat des Rivesaltes 2006

Fjórir ostar (Prima Donna, Manchego, St. Aubin og ævaforn Stilton); ristaðar hvítlauksbeyglur og kex
Churchill´s Finest Reserve púrtvín

Kaffi (Vilcabamba) og konfekt (Anthon Berg)
koníak, calvados eða Pedro Ximenes-sérrí

Þetta var nú bara ágætt.

|