Matarboðið í gær lukkaðist þetta líka ljómandi vel. Gasið kláraðist ekki í þetta skipti (að vísu fór öryggið í eldhúsinu og ég átti ekkert til vara en þar sem ég þarf ekki nauðsynlega að þvo þvott í dag setti ég bara þvottavélaröryggið í staðinn – en ég þarf greinilega að fara að gera eitthvað í rafmagnsmálunum, veit einhver um rafvirkja sem gæti komið fyrir jól?) – en allt heppnaðist mjög vel nema hvað eftirrétturinn leit ekki eins flott út og hann hafði átt að gera (bragðaðist þó ágætlega) en það er vandamál sem ég leysi auðveldlega ef ég skyldi nota hann aftur. Vanilluchilitómatsósan var alveg ágæt og vínið smellpassaði þannig að sú tilraunastarfsemi gekk upp.
Aðalmálið var náttúrlega samt gestirnir, nokkrir gamlir félagar af Iðunni. Yndislegt kvöld og frábært að fá ykkur í heimsókn.
Matseðillinn er svo hér:
Með fordrykknum (Jacob’s Creek Chardonnay Pinot noir Brut)
Reyksilungstætingur/ mínírækjukokkteill með nýsteiktum rækjum og tómatberjum/ spænsk skinka í ræmum, blönduð parmesanosti og basilíku og bleytt í með mandarínuolíu
Vatnsmelónuteningar með balsamediki, dukkah og graskersfræi
Karríristuð risahörpuskel með grænbaunamauki og reyksalti
Clos St. Landelin pinot gris 2003
Gæsasúpa með hnúðkáli, eplum og rúsínum og ristuðu snittubrauði
Grafið kindafillet með klettasalati, nektarínum, pekanhnetum og arganolíu
René Mure Gewurztraminer 2004
Stikilsberjasorbet (úr saft af hratinu úr stikilsberjunum sem hann Villi færði mér í haust)
Pönnusteiktur steinbítur (sem hafði alltsvo átt að vera hlýri, en kom ekki að sök) með spergilkáli, maís, salatblöðum og vanillu-tómatsósu
Martin Códax Albarino 2005
Andabringur með sætkartöflustöppu, bökuðum nípum, kastaníusveppum steiktum í andafeiti og peru-grænpiparsósu
Monti Garbi Ripasso Tenuta sant’Antonio Valpolicella 2003
Þrílitar súkkulaðirósir (ís úr hvítu súkkulaði, panna cotta úr mjólkursúkkulaði, litlar kökur úr dökku súkkulaði) með hindberja-, kíví- og nektarínusósum
Muscat des Rivesaltes 2006
Fjórir ostar (Prima Donna, Manchego, St. Aubin og ævaforn Stilton); ristaðar hvítlauksbeyglur og kex
Churchill´s Finest Reserve púrtvín
Kaffi (Vilcabamba) og konfekt (Anthon Berg)
koníak, calvados eða Pedro Ximenes-sérrí
Þetta var nú bara ágætt.